Ferill 325. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 325 . mál.


Sþ.

573. Tillaga til þingsályktunar



um friðlýsingu Hvítár/Ölfusár og Jökulsár á Fjöllum.

Flm.: Sigrún Helgadóttir, Anna Ólafsdóttir Björnsson,


Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðrún J. Halldórsdóttir,


Kristín Einarsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir.



    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að undirbúa lagasetningu um friðlýsingu Hvítár/Ölfusár frá upptökum í Langjökli til Ölfusárósa og Jökulsár á Fjöllum frá upptökum í Vatnajökli til ósa í Öxarfirði.

Greinargerð.


    „Því er nú mjög á lofti haldið, og vissulega með veigamiklum rökum, að í fossum landsins búi nokkuð af framtíð okkar þjóðar, er byggist á þeim verðmætum, sem mæld eru í kílówattstundum. En þar við liggur einnig brot af framtíðarhamingju þjóðarinnar, að hún gleymi því ekki, að í fossum landsins búa einnig verðmæti, sem ekki verða metin til fjár, en mælast í unaðsstundum.“ (Sigurður Þórarinsson, Fossar á Íslandi , Fjölrit Náttúruverndarráðs, 1978.)
    Að undanförnu hefur oft heyrst að Íslendingar ættu að gerast forustuþjóð á sviði umhverfismála. Nægir að nefna nýútkomna skýrslu markaðs - og útbreiðslunefndar Steingríms Hermannssonar forsætisráðherra. Þeirri nefnd var sett það meginmarkmið „að kanna hvort Ísland geti orðið ímynd gæða, hreinleika og heilbrigðs umhverfis og mannlífs“. Því miður sýnist sú stefnumörkun ekki tekin af hugsjónaástæðum, heldur til þess að auðvelda „markaðssetningu Íslands“, að selja fólki unaðsstundir.
    Allir sem til umhverfismála þekkja á Íslandi vita að þau mál eru í miklum ólestri. Vinnuhópur um umhverfismál sagði í áliti sínu, sem birtist í ofannefndri skýrslu, að ástandið sé óviðunandi hvað varðar: ferskvatn, loft, jarðveg og gróðurþekju; meðferð á landi, hafsbotni og strandlengju; og ráðstafanir með sorp, skolp, ýmiss konar efnamengun, hávaða - og sjónmengun, og þannig mætti lengi telja. Athugulir útlendingar, sem til Íslands kæmu til að njóta þess lands sem sagt væri fyrirmynd annarra landa í umhverfisvernd, sæju fljótt að þeir hefðu verið blekktir með auglýsingaskrumi.
    Erlendir aðilar, sem unnu að títtnefndri skýrslu forsætisráðherra, lögðu áherslu á að sérstaða Íslands væri kynnt. Sérstaða Íslands felst fyrst og fremst í sérstæðri náttúru og því hve strjálbýlt landið er og stórir hlutar þess enn óbyggðir og lausir við mannvirki og rask. Í þeim svæðum felast möguleikar sem aðrar þjóðir hafa alls ekki, geta aldrei öðlast. Íslendingar hafa enn tækifæri sem engin önnur þjóð í Evrópu hefur og þótt víðar væri leitað. Á Íslandi er enn hægt að taka frá stórar víðáttur, náttúrulegar heildir, og varðveita þær þannig að komandi kynslóðir fái notið þeirra, geti leitað sér þangað lífsfyllingar og þekkingar.
    Nú er starfandi á vegum umhverfisráðuneytis nefnd um skipulagsmál hálendis Íslands sem í eiga sæti fulltrúar allra þingflokka. Vonandi verður niðurstaða þeirrar nefndar í samræmi við ályktun síðasta náttúruverndarþings að miðhálendið verði friðlýst sem óbyggt víðerni. Hér er hins vegar gert ráð fyrir að tvær ár fái að renna í friði, um byggð og óbyggð, frá upptökum til ósa.
    Sú kynslóð, sem nú lifir í þessu landi, hefur verið virkjanaglöð. Hver stóráin á fætur annarri hefur verið fjötruð í viðjar steinsteypu og sérstæð og einstök landsvæði eyðilögð um aldur og ævi eða stórskemmd. Á teikniborðum verkfræðinga hafa báðar þær ár sem hér um ræðir fengið sömu örlög. Í kílóvattstundum talið býr að öllum líkindum í þeim um 1 / 6 þeirrar vatnsorku sem sumir menn telja nú að hagkvæmt geti orðið að virkja.
    Þann 24. apríl 1989 samþykkti Alþingi svofellda þingsályktunartillögu:
    „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta undirbúa á vegum Náttúruverndarráðs í samráði við yfirvöld orkumála áætlun um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða, fossa og hvera. Drög að slíkri áætlun verði lögð fyrir Alþingi til kynningar fyrir árslok 1990 og áætlunin fullbúin til staðfestingar síðar.“
    Í greinargerð með upphaflegu tillögunni, sem flutt var af Hjörleifi Guttormssyni, segir:
    „Eðlilegt er að stefnt sé að því að áætlun þessi verði fullmótuð af hálfu Náttúruverndarráðs fyrir næsta náttúruverndarþing sem lögum samkvæmt á að halda á árinu 1990. Þar yrði leitað viðbragða, en málið síðan lagt fyrir Alþingi haustið 1990.“
    Slík drög voru ekki lögð fyrir náttúruverndarþing sem haldið var í október sl. né hafa þau verið lögð fyrir Alþingi. Voldugir virkjanamenn, sem nóg sýnast hafa fjármagnið, gætu orðið fljótari að framkvæma en fjársveltir verðir náttúrunnar að gera áætlanir og Alþingi að yfirfara og staðfesta. Því miður er umræða um undirbúning stórframkvæmda sem þessara lokuð inni á stofnunum en þjóðin fær lítið um þær að heyra fyrr en hún stendur frammi fyrir orðnum hlut.
    Í heiminum hefur á undanförnum áratugum mjög litlu fé verið varið í rannsóknir á annars konar orkugjöfum en olíu og kjarnorku. Á þessu verður breyting og hver veit nema finnist leiðir til að virkja bæði föll sjávar og vinda himinsins. Vafasamt er að afkomendur okkar yrðu okkur þakklátir fyrir virkjanagleðina ef á landinu væri ekki eftir eitt einasta eintak af óraskaðri á eða allar þær dýrmætustu, í unaðsstundum talið, eyðilagðar.
    Hvítá/Ölfusá og Jökulsá á Fjöllum eru án efa merkilegustu stórár sem enn fá að renna ótruflaðar um land okkar. Í báðum ánum eru miklir fossar sem laða að fjölda ferðamanna, Gullfoss í Hvítá og Dettifoss ásamt þremur öðrum fossum í Jökulsá á Fjöllum, en um þá fossa sagði Sigurður Þórarinsson í fossaskrá sinni: „Fossarnir 3 5 eru samstæða, sem ekki á víða sinn líka á jarðarkringlunni.“ Umhverfi ánna er mjög fjölbreytt og sérstætt, bæði hvað varðar náttúrufar og þá sögu þjóðarinnar sem lesa má úr umhverfi þeirra. Hvítá/Ölfusá rennur að miklu leyti um blómlegar byggðir sem löngum hafa hýst biskupa og höfðingja og meðfram henni eru mikilvæg votlendissvæði. Jökulsá rennur um óbyggðir þar sem hírðust útlagar fyrr á öldum en eru nú ýmist friðlýstar eða á náttúruminjaskrá og á láglendi rennur áin um einhvern fegursta stað landsins, Jökulsárgljúfur sem eru að hálfu leyti friðlýst sem þjóðgarður. Óbætanlegt tjón yrði á náttúru Íslands ef ár þessar fengju ekki að njóta friðar um ókomin ár, enda nóg til af annarri orku til að virkja, bæði í vatnsföllum og á jarðhitasvæðum.
    Í friðlýsingum ánna þarf að felast:
    Vatnsmagni ánna verði ekki breytt af mannavöldum, t.d. með því að veita vatni, sem til þeirra fellur, inn á vatnasvið annarra áa.
    Vatnsyfirborði eða farvegum ánna verði ekki breytt af mannavöldum með uppistöðulónum, stíflum eða öðrum framkvæmdum eða mannvirkjum.
    Mannvirkjagerð og jarðraski meðfram ánum verði haldið í lágmarki og í óbyggðum verði ekki komið fyrir mannvirkjum sem áberandi eru frá árbökkunum.
    Losun mengandi úrgangsefna í árnar eða í ár, sem til þeirra falla, verði ekki leyfð.
    Náttúrulegt lífríki í og við árnar njóti verndar.
    Umferðarréttur almennings meðfram ánum verði tryggður.
    Aðstöðu til handa ferðamönnum verði komið upp meðfram ánum, en þess jafnframt gætt við skipulag og stjórnun ferðamennsku að svæðunum sé ekki spillt.