Ferill 327. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 327 . mál.


Sþ.

575. Tillaga til þingsályktunar



um undirbúning að breikkun á Suðurlandsvegi í tvær akreinar hvora leið frá Selfossi til Reykjavíkur og aðgerðir til að draga úr slysahættu.

Flm.: Guðni Ágústsson, Jón Helgason, Árni Johnsen, Eggert Haukdal.



    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að hefja undirbúning að breikkun á Suðurlandsvegi í tvær akreinar hvora leið frá Selfossi til Reykjavíkur. Kannað verði sérstaklega hvort hægt er að vinna verkið í áföngum með það að markmiði að tvöfalda akbrautina fyrst þar sem slysahætta er mest. Enn fremur verði mörkuð sérstök fjármögnunarleið til að vinna þetta mikilvæga verkefni.

Greinargerð.


     Þessi tillaga er ekki síst flutt til að minna á Suðurlandsveg og að um hann verði fjallað í þeirri langtímaáætlun í vegagerð sem nú er unnið að. Þótt mikið hafi verið gert í vega- og samgöngumálum hér á landi á síðustu árum sitja mörg stór og brýn verkefni á hakanum, verkefni sem af öryggisástæðum þola enga bið og verður að fjármagna eftir sérstökum leiðum. Bifreiðum fjölgar og á ákveðnum leiðum er umferðarþungi það mikill að ekki er hægt að kalla slíka vegi hraðbrautir. Einstefnuakstur verður að koma til eða aðrar þær úrbætur sem að gagni mættu koma. Brýnustu verkefnin, sem við blasa á þessu sviði, eru tvöföldun Reykjanesbrautar og svo Suðurlandsvegar frá Reykjavík austur á Selfoss.
    Það sem vekur athygli er að umferðarþungi austur yfir Hellisheiði er þyngri en á Reykjanesbraut á álagspunktum. Árdagsumferð eða meðalumferð á dag yfir árið hefur samkvæmt meðfylgjandi töflu tvöfaldast á fimmtán ára tímabili. Sama er að segja um sumardagsumferðina og mesta sólarhringsumferð hefur þrefaldast, úr um þrjú þúsund bifreiðum 1975 í að vera á bilinu níu til tíu þúsund bifreiðar.
    Tvöföldun beggja þessara akbrauta, sem hér hafa verið nefndar, þ.e. Reykjanesbrautar og Suðurlandsvegar um Hellisheiði, er slíkt stórverkefni að leita verður leiða til að fjármagna þau sérstaklega, annaðhvort úr stórverkasjóði eða með sérstakri fjáröflun. Ekkert er þjóðinni jafndýrt og manntjónið og eignatjónið, svo og langvarandi sjúkrahúsvist og atvinnumissir, vegna umferðarslysa. Þótt sökinni verði ekki eingöngu komið á vegakerfið hvað þetta áhrærir er ljóst að ákveðnar endurbætur minnka hættuna og draga úr slysunum. Á Suðurlandsvegi eru nokkrir staðir sem sýnilega eru öðrum varasamari á þessari leið eins og sést á mynd.
    Suðurlandsvegur um Hellisheiði er mjög fjölfarinn bæði sumar og vetur. Flestir munu kannast við þann gífurlega umferðarþunga sem er á þessari leið, ekki síst á sumrin og um helgar. Enn fremur eru miklir þungaflutningar um Suðurlandsveg, vöruflutningabifreiðar sem mega ekki aka á hámarkshraða. Slíkt kallar á framúrakstur. Þessi leið er fjölfarin allt árið um kring í hvernig veðri sem er. Hellisheiði er fjallvegur og leiðin öll veðrasöm að vetrinum úr Svínahrauni á Kambabrún.
    Í þessari tillögu til þingsályktunar er lögð áhersla á að leita leiða til að draga úr slysahættu á þessari fjölförnu leið með því t.d. að byrjað verði á að leggja tvöfaldar akreinar í báðar áttir á þeim stöðum þar sem reynslan hefur sýnt að hættan er mest. Eins og sést eru mestu slysastaðirnir á fimm stöðum, sjá mynd. Myndin sýnir t.d. þrjá mikla slysastaði þar sem virðist liggja beinast við að breyta legu vegarins úr Hveradalabrekku um Svínahraun að norðan vestur að Litlu - kaffistofu. Hins vegar er nauðsynlegt, áður en slíkar framkvæmdir hefjast, að búið verði að ákveða legu slíkra akbrauta alla leiðina svo að þær verði hluti af þeim framtíðarvegi sem sívaxandi umferð gerir tilkall til fyrr eða síðar.

Umferð um Hellisheiði.


Slys á Suðurlandsvegi frá Hafravatnsvegi að Þorlákshafnarvegi.


    Tekið skal fram að ekki hefur verið fastur ársteljari á Hellisheiði. Umferð á vegarkafla nr. 301 08 (Suðurlandsvegur frá Þorlákshafnarvegi að Þrengslavegi) hefur því verið áætluð út frá skynditalningu á fjögurra ára fresti, en niðurstöður skynditalningar eru bornar saman við umferð á föstum ársteljara á Suðurlandsvegi vestan Biskupstungnabrautar (301 06 01).
    Mesta sólarhringsumferð, MDU, var einnig ákvörðuð með samanburði við fasta teljarann vestan Biskupstungnabrautar á þann hátt að MDU á 301 06 01 var margfölduð með hlutfalli ÁDU á 301 08 og 301 06 01.
    Vegna breytingar á skráningu umferðarslysa 1. mars 1988 eru tölur yfir heildarfjölda slysa 1988 og 1989 ekki sambærilegar við fyrri ár.




Tafla í GUT.
















Skýringar á skammstöfunum í töflu:
SDU: sumardagsumferð, meðalumferð á dag mánuðina júní til september.
ÁDU: árdagsumferð, meðalumferð á dag yfir árið.
MDU: mesta sólarhringsumferð á árinu.






Repró í Gutenberg.