Ferill 139. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 139 . mál.


Nd.

682. Nefndarálit



um frv. til l. um listamannalaun.

Frá meiri hl. menntamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið og fékk um það umsagnir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Leikfélagi Akureyrar, Arkitektafélagi Íslands, Sambandi íslenskra myndlistarmanna, Tónskáldafélagi Íslands, Félagi leikstjóra á Íslandi, Leiklistarsambandi Íslands, Bandalagi íslenskra leikfélaga, Félagi íslenskra rithöfunda, Rithöfundasambandi Íslands og Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Þá fékk nefndin á sinn fund til viðræðna um frumvarpið Brynju Benediktsdóttur, forseta Bandalags íslenskra listamanna, og Hjálmar H. Ragnarsson, varaforseta Bandalagsins.
    Tilgangur þess að ríkið launi íslenska listamenn er sá að til verði í landinu listaverk gerð af metnaði og óvíst er að ella yrðu sköpuð á hinum almenna markaði framboðs og eftirspurnar. Markmið þessa frumvarps er því að skapa íslenskum listamönnum grundvöll til þess að geta helgað sig óskiptir listsköpun sinni án þess að þurfa um leið að afla tekna með öðrum tímafrekum störfum.
    Aðstaða listamanna í fastlaunuðum störfum til að stunda list sína er mismunandi; nokkur hópur er fastráðinn við Þjóðleikhúsið, Borgarleikhúsið, Leikfélag Akureyrar og Sinfóníuhljómsveitina en allur þorri listamanna nýtur þess ekki.
    Samkvæmt frumvarpinu munu þrír sérgreindir sjóðir veita rithöfundum, myndlistarmönnum og tónskáldum starfslaun, en þetta eru þeir hópar sem síst eiga þess kost að vinna að list sinni í fastlaunuðu starfi. Listasjóður er hins vegar almennur sjóður, sem fyrst og fremst mun nýtast öðrum listgreinum. Miðað við víðtækt verkefni listasjóðs fannst nefndinni óhjákvæmilegt að rýmka fjárhag þess sjóðs, en hann á einnig að veita sérstök framlög til listamanna sem notið hafa listamannalauna undanfarin ár og náð hafa 60 ára aldri, sbr. 10. gr.
    Meiri hl. nefndarinnar hefur orðið sammála um að flytja breytingartillögur við frumvarpið. Þær eru eftirfarandi:
     Við 2. gr. Lagt er til að greinin falli brott, en hún fjallar um heiðurslaun listamanna sem Alþingi veitir. Ekki þykir ástæða til að hafa ákvæði um slíkt í þessu frumvarpi.
     Við 4. gr. Telja verður eðlilegt að ákvæði séu um lengd skipunartíma stjórnar. Lagt er til að hann verði þrjú ár.
     Við 6. gr. Heildarupphæð starfslauna er hækkuð um fimm árslaun.
     Við 7. 9. gr. eru gerðar sams konar breytingar. Við hverja grein er bætt nýrri málsgrein þar sem kveðið er á um úthlutunarnefnd fyrir Launsjóð rithöfunda, Launasjóð myndlistarmanna og Tónskáldasjóð sem menntamálaráðherra skipar samkvæmt tillögum hlutaðeigandi samtaka.
     Við 10. gr. Lagt er til að starfslaun og styrkir Listasjóðs hækki í heild úr 180 mánaðarlaunum í 240 mánaðarlaun. Jafnframt er fellt brott ákvæði um að sjóðurinn veiti einnig verkefnastyrki og náms- og ferðastyrki. Gert er ráð fyrir að a.m.k. helmingur starfslauna úr listasjóði sé veittur leikhúslistamönnum og er þá átt við alla þá sem semja, stjórna eða flytja leikhúsverk og vinna hvers konar önnur listræn störf við uppfærslu danssýninga, leik- og söngverka.
     Til samræmis við breytingarnar, sem nefndar eru í 4. tölul. hér að framan, er gerð breyting á 13. gr., en sú grein gerir ráð fyrir að kveðið verði á um skipan úthlutunarnefnda í reglugerð sem ráðherra setji. Þau ákvæði eru felld brott.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með áðurgreindum breytingum og flytur um það tillögu á sérstöku þingskjali.
    Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja breytingartillögum er fram kunna að koma.

Alþingi, 19. febr. 1991.



Ragnar Arnalds,


form., frsm.

Sólveig Pétursdóttir,


fundaskr., með fyrirvara.

Árni Gunnarsson.


Guðmundur G. Þórarinsson.

Ólafur Þ. Þórðarson.

Ragnhildur Helgadóttir,


með fyrirvara.