Ferill 174. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 174 . mál.


Nd.

712. Nefndarálit



um frv. til l. um grunnskóla.

Frá 1. minni hl. menntamálanefndar.



    Í þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar um grunnskóla og breytingartillögum meiri hl. nefndarinnar koma fram tillögur um breytingar á grunnskólalögunum sem kvennalistakonur og aðrir hafa lagt áherslu á árum saman, svo sem að daglegur skólatími verði lengdur, að skóli verði einsetinn og samfelldur, að nemendur fái mat í skólum og að stórum skólahverfum verði skipt.
    Þetta eru allt geysilega mikilvæg atriði. Kröfur til skólans aukast stöðugt, bæði hvað varðar uppeldi barna og nám, og allt of lítill tími gefst til þess að vinna að öllum þeim verkefnum sem nútímaþjóðfélag ætlar skólunum. Í núverandi kerfi felst mikið misrétti. Sumir foreldrar hafa aðstæður til að leyfa börnum sínum að sækja tónskóla og aðra listaskóla og aðstoða þau þann tíma sem þau eru ekki í skólanum. Þetta gildir þó um of fáa foreldra og daglegur skólatími barna er í engu samræmi við vinnuálag og vinnutíma foreldra þeirra. Að skólar séu einsetnir og að nemendur fái þar mat eru mannréttindi. Fáum þjóðfélagsþegnum er boðið upp á það að geta ekki komið að vinnustað sínum eins og skilið var við hann daginn áður og að hafa enga möguleika á að fá mat á vinnustað. En við þetta þurfa þau að búa sem síst skyldu, börnin.
    Skipting skólahverfa er eðlileg valddreifing í lýðræðisþjóðfélagi. Það auðveldar allt samstarf skólanefndar, starfsfólks skóla og foreldra, en gott samstarf þessara aðila getur skipt sköpum um velgengni nemenda. Þar sem fulltrúar í skólanefnd skulu vera íbúar viðkomandi skólahverfis er augljóst að skólanefndarfulltrúar munu þekkja mun betur til einstakra skóla en nú er í stórum skólahverfum. Þetta fyrirkomulag var lagt til í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, 154. máli 111. löggjafarþings 1988. Guðrún Agnarsdóttir var fyrsti flutningsmaður þess frumvarps en níu meðflutningsmenn hennar voru úr öllum þingflokkum.
    Í mörgum atriðum er frumvarp ríkisstjórnarinnar ekki unnið af eins miklu metnaði og gengur styttra en frumvarp til laga um breytingu á lögum um grunnskóla sem Guðrún Agnarsdóttir og Danfríður Skarphéðinsdóttir fluttu á 110. og 111. löggjafarþingi (126. mál á 111. löggjafarþingi). Má þar helst nefna:
    1.     Í 23. gr. frumvarps ríkisstjórnarinnar er ekki kveðið á um hámarksstærð skóla en í 74. gr. frumvarpsins eru fyrirmæli um hámarksfjölda nemenda í hverjum bekk. Í frumvarpi Kvennalistans var gert ráð fyrir að fjöldi nemenda í skólum fyrir 1. 10. bekk fari ekki yfir 400, né fjöldi nemenda í skólum fyrir nemendur í 1. 7. bekk yfir 300 nemendur, einnig að í skólum væru aðeins tvær bekkjardeildir í hverjum árgangi og að meðaltal nemenda í bekkjardeild væri 14 börn í 1. og 2. bekk og 18 börn í 3. 10. bekk.
    Kennarar og skólamenn eru almennt þeirrar skoðunar að heppilegra sé að hafa grunnskóla smáa og fámenna en stóra og fjölmenna. Þetta á ekki síst við um skóla fyrir yngri börnin. Fámennir skólar hafa reynst bæði nemendum og kennurum manneskjulegri og betri vinnustaðir en fjölmennir. Auðveldara er að skapa þar heimilislegar aðstæður og mæta má ýmsum tæknilegum ókostum smærri skóla með aukinni samvinnu og samstarfi skóla. Mjög mikilvægt er að takmarka fjölda nemenda í hverri bekkjardeild og þá sérstaklega hjá yngstu börnunum. Aðeins þannig er hægt að tryggja þeim þá einstaklingsbundnu kennslu sem þau þurfa og viðfangsefni sem samsvara þroskastigi þeirra hvers um sig eins og þau eiga rétt á samkvæmt lögum.
    2.     Í IV. kafla frumvarps ríkisstjórnarinnar er kveðið á um starfsfólk skóla. Þar er ekki minnst á þá sem óhjákvæmilega þarf að ráða til að sjá um málsverði í skólunum. Í frumvarpi Kvennalistans hefur verið gert ráð fyrir að skólabrytar séu ríkisstarfsmenn, svo og annað starfsfólk við framreiðslu og umsjón skólamáltíða.
    Góður matur og vel framreiddur er sjálfsögð krafa fyrir börn í vexti. Hætt er við að þeim kröfum verði ekki mætt í skólum ef engu starfsfólki er ætlað að vinna þau verk. Hér er varað við því að matur verði keyptur utan skólans, hverjum skammti pakkað í einnota umbúðir, og þannig fluttur í skólana. Slíkt væri ófagurt fordæmi komandi kynslóðum. Best væri ef matargerð, framreiðsla matar, máltíðir og frágangur eftir matinn, kæmi á eðlilegan hátt inn í skólastarfið undir umsjón hæfs starfsfólks því að fátt er mikilvægara að læra en ýmislegt það sem tengist mat, matargerð og máltíðum. Hins vegar er ekki hægt að ætlast til þess að almennir bekkjarkennarar bæti þessum störfum á sig.
    3.     Í 45. gr. laganna er kveðið á um lágmarkskennslutíma hvers nemanda á viku og er sá tími mun styttri en kemur fram í frumvarpi Kvennalistans, sérstaklega yngstu nemendanna. Frumvarp Kvennalistans gerir auk þess ráð fyrir að nemendur geti dvalist, í umsjá kennara eða annarra með uppeldisfræðimenntun, í skólanum utan kennslustunda, þ.e. frá kl. 8 9 á morgnana, í hádegi og kl. 15 17 síðdegis. Engin slík ákvæði eru í fyrirliggjandi frumvarpi og þar er því ekki nema að litlu leyti tekið tillit til þess misræmis sem er á milli skólatíma barna og vinnutíma foreldra þeirra.
    Frumvarp Kvennalistans gerði ráð fyrir að takmarkinu um einsetinn skóla yrði náð á þremur árum en í fyrirliggjandi frumvarpi er ekki gert ráð fyrir að takmarkinu um einsetinn skóla og skólamáltíðir verði náð fyrr en eftir 10 ár. Þar er sannarlega of hægt farið því átaks er þörf.
    Samþykkt þessa frumvarps er spor í átt til þess sem koma skal og mikilvægt er að festa sem allra fyrst sum ákvæði þess í lögum, svo sem ákvæðin um einsetinn skóla og skólamálsverði. Eins og hér hefur verið rakið hefði Kvennalistinn þó viljað sjá að tekið væri á ýmsum atriðum af meiri alvöru og festu og einnig að frumvarpið næði til fleiri atriða.
    Þrátt fyrir þessa annmarka og í von um að ekki verði látið hér við sitja, heldur agnúar slípaðir og áfram haldið á sömu braut, munu þingkonur Kvennalistans styðja frumvarpið og breytingartillögur meiri hl. nefndarinnar.

Alþingi, 25. febr. 1991.



Sigrún Helgadóttir.