Ferill 405. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 405 . mál.


Ed.

727. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga, nr. 63/1985.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990 91.)



1. gr.


     1. gr. laganna orðist þannig:
     Tilgangur laga þessara er að jafna greiðslubyrði af fasteignaveðlánum einstaklinga sem tekin eru til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Skal misgengi, sem orsakast af hækkun lánskjaravísitölu eða annarrar viðmiðunarvísitölu lána umfram hækkun launa, ekki valda því að greiðslubyrði af lánum þyngist.

2. gr.


     3. gr. laganna orðist þannig:
     Við gerð lánssamnings skal ákveða greiðslumark fyrir lánið:
     Greiðslumark af verðtryggðu láni með jöfnum afborgunum er gjaldfallin afborgun og vextir eins og þeir eru á hverjum gjalddaga á verðlagi við lántöku.
     Greiðslumark af verðtryggðum jafngreiðslulánum er ársgreiðslan á verðlagi við lántöku miðað við vexti eins og þeir eru ákveðnir á hverjum tíma.

3. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


     Árið 1984 var mörkuð sú stefna að vextir af lánum Byggingarsjóðs ríkisins skyldu vera breytilegir. Frá þeim tíma hefur það verið á valdi ríkisstjórnar hverju sinni að ákveða hverjir skulu vera vextir af hverjum lánaflokki á hverjum tíma. Lögin um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga voru sett til að tengja endurgreiðslur húsnæðislána við launabreytingar. Með þeim hætti átti að tryggja að greiðslubyrði húsbyggjenda og kaupenda af lánum hjá Byggingarsjóði ríkisins þyngdist ekki þótt kaupmáttur launa rýrnaði vegna sveiflna í efnahagsstarfsemi. Markmiðið með þessum lögum var að fyrirbyggja að greiðslubyrði vegna húsnæðislána þyngdist ekki ef misgengi skapaðist milli hækkunar lánskjaravísitölu (eða annarrar viðmiðunarvísitölu) og hækkunar launa og/eða raunvaxta. Ef laun hækka minna en lánskjaravísitalan er hluta endurgreiðslu lánsins frestað þar til laun hækka á ný umfram lánskjaravísitöluna. Þetta gerist samkvæmt lögunum með þeim hætti að mismunur launavísitölu og lánskjaravísitölu er færður á sérstakan jöfnunarreikning. Skuld á jöfnunarreikningi telst hluti af höfuðstóli lánsins og um hana gilda því sömu kjör og um ræðir í lánssamningi. Þessi skuld er síðan endurgreidd hlutfallslega þegar launavísitalan hækkar umfram lánskjaravísitölu, eða eftir upphaflegan lánstíma ef skuld er þá á jöfnunarreikningi. Lög þessi voru fyrst og fremst sett vegna þess misgengis sem þá var á milli lánskjaravísitölu og launavísitölu. Misgengis vegna raunvaxtahækkunar var að vísu getið, en höfuðmarkmið laganna var þó misgengi milli launa og lánskjara.
     Með lögum nr. 79/1989, sem breytt var með lögum nr. 117/1989, voru sett ákvæði um vaxtabætur. Aðalefni löggjafar þessarar er það að ákvarða bótarétt til handa skattskyldum aðilum, sem bera vaxtagjöld af lánum, sem tekin hafa verið til kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Vaxtabætur miðast við fjárhæð vaxtagjalda hjá hverjum framteljanda. Til vaxtagjalda teljast vaxtagjöld, afföll og gengistöp að því marki sem þau eru umfram vaxtatekjur. Skilyrði er að vaxtagjöldin séu vegna fasteignaveðlána til minnst tveggja ára, enda séu lánin sannanlega notuð til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. EINUNGIS GJALDFALLNAR verðbætur og gengistöp á afborganir og vexti teljast til vaxtagjalda samkvæmt skattalögum. Að óbreyttum lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána þýðir raunvaxtahækkun það í framkvæmd að lánstími lengist ef skuld er á jöfnunarreikningi við lok lánstíma, en skuldin hefur lagst við höfuðstól. Lántakandi nýtur því ekki vaxtabóta.
     Í frumvarpinu er lagt til að fellt sé niður að greiðslujöfnun eigi við ef misgengi verður vegna raunvaxtahækkunar. Þetta hefði í för með sér að réttur þeirra, sem á annað borð eiga rétt til vaxtabóta, eykst. Er þetta í samræmi við þá stefnu að aðstoð hins opinbera við húsbyggjendur eða kaupendur skuli taka mið af eignum og tekjum viðkomandi. Með því fyrirkomulagi, sem nú gildir um vaxtabætur, er hið opinbera að veita aðilum, sem falla innan tiltekinna eignar - og tekjumarka, aðstoð sem er ótímabundin. Það njóta hins vegar ekki allir sem eru húskaupendur eða húsbyggjendur vaxtabóta. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðslujöfnun fasteignaveðlána njóta allir húsbyggjendur eða húskaupendur greiðslujöfnunar ef misgengi verður, óháð eignum og tekjum. Með því að fella misgengi vegna raunvaxtahækkunar burt úr lögunum er verið að tryggja að þeir, sem eiga rétt á vaxtabótum, fái raunvaxtahækkun bætta.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er verið að breyta 1. gr. laga um greiðslujöfnun fasteignaveðlána á þann veg að raunvaxtahækkun hafi ekki í för með sér greiðslujöfnun. Raunvaxtahækkun mundi því ekki leggjast við höfuðstól eins og nú tíðkast, en það er ástæðan fyrir því að vaxtabætur koma ekki á móti raunvaxtahækkun. Vaxtabætur koma aðeins til vegna gjaldfallinna verðbóta og vaxta.

Um 2. gr.


     Þar sem 1. gr. gerir ráð fyrir að breyting á raunvöxtum hafi ekki áhrif á greiðslujöfnun er nauðsynlegt að breyta einnig 3. gr. laganna sem fjallar um það hvernig greiðslumark er reiknað út. Eftirleiðis miðast því greiðslumark við vexti eins og þeir eru á hverjum tíma. Ríkisstjórnin hefur haft heimild frá árinu 1984 til að hafa vexti breytilega. Hún getur því breytt vöxtum af lánum Byggingarsjóðs ríkisins án þess að það valdi greiðslujöfnun.

Um 3. gr.


     Greinin þarfnast ekki skýringa.