Ferill 420. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 420 . mál.


Ed.

757. Frumvarp til laga



um breytingar á lögum nr. 64 1. júlí 1985, um Byggðastofnun.

(Lagt fram á Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990 91.)



1. gr.


     8. gr. laganna orðist svo:
     Byggðastofnun gerir tillögu að stefnumótandi áætlun í byggðamálum til fjögurra ára í senn. Ráðherra leggur tillöguna fyrir Alþingi til afgreiðslu.
     Í tillögunni komi fram stefna ríkisstjórnar í byggðamálum og tengsl hennar við almenna stefnu í efnahags - og atvinnumálum, svo og við áætlanir á sviði opinberrar þjónustu í landinu.
     Í forsendum áætlunarinnar gerir Byggðastofnun grein fyrir ástandi og horfum í þróun byggðar í einstökum landshlutum og markmiðum sem æskileg eru talin og þjóðhagslega hagkvæmt að stefna að í þróun byggðar landsins í heild.
     Við gerð áætlunarinnar hafi Byggðastofnun samráð við ráðuneyti, Þjóðhagsstofnun, sveitarfélög og samtök þeirra og aðra aðila sem þurfa þykir.
     Byggðaáætlun skal endurskoða á tveggja ára fresti.
     Byggðastofnun gerir einnig svæðisbundnar byggðaáætlanir í samráði við sveitarfélög atvinnuþróunarfélög og aðra aðila sem málið varðar.
     Hagstofu Íslands, Þjóðhagsstofnun og öðrum ríkisstofnunum eða sveitarfélögum er rétt að veita Byggðastofnun þær upplýsingar sem hún telur nauðsynlegar til slíkrar áætlunargerðar.

2. gr.


     9. gr. laganna orðist svo:
     Stjórn Byggðastofnunar fjallar um stefnumótandi hluta byggðaáætlunar við undirbúning hennar. Hún fylgist með framkvæmd þeirra þátta hennar sem henni er falið af Alþingi. Stjórn stofnunarinnar fylgist einnig með þeim svæðisbundnu byggðaáætlunum sem unnar hafa verið af Byggðastofnun í samstarfi við heimaaðila og stjórnin hefur samþykkt.

3. gr.


     Ný grein, sem verði 10. gr., bætist við og breytist númer síðari greina í samræmi við það. Greinin orðist svo:
    Byggðastofnun getur átt aðild að atvinnuþróunarfélögum á landsbyggðinni. Í slíkum félögum starfa sveitarfélög, samtök sveitarfélaga og launþega, atvinnufyrirtæki og aðrir aðilar sem vilja taka þátt í og láta sig varða alhliða þróun og nýsköpun í atvinnulífi á viðkomandi svæði.
    Um stærð félagssvæðis atvinnuþróunarfélaga fer eftir aðstæðum í hverju héraði. Stjórn Byggðastofnunar veitir stuðning við stofnun og rekstur atvinnuþróunarfélaga á landsbyggðinni á grundvelli umsókna frá þeim.
    Byggðastofnun er heimilt að taka þátt í atvinnuþróunarfélögum og á fulltrúi hennar að jafnaði sæti í stjórn þeirra.


4. gr.


     Ný grein, sem verði 11. gr., bætist við og breytist númeraröð annarra greina í samræmi við það. Greinin orðist svo:
    Byggðastofnun veitir að fenginni umsókn atvinnuþróunarfélaga styrki til verkefna á vegum þeirra á sviði þróunar og nýsköpunar í atvinnulífi á félagssvæðinu.
    Byggðastofnun hefur samráð við tæknistofnanir atvinnuvega, stofnlánasjóði, háskóla og aðra aðila sem vinna að hliðstæðum verkefnum og beitir sér fyrir samstarfi um stuðning við framkvæmd þeirra verkefna sem hún metur styrkhæf. Stjórn stofnunarinnar setur nánari reglur um þessar styrkveitingar.
    Í hverju kjördæmi skal starfa a.m.k. einn atvinnuráðgjafi. Hlutverk hans er að stunda almenna atvinnuráðgjöf á starfssvæði sínu. Komið skal á nánu samstarfi við aðra aðila sem vinna að ráðgjafar - og leiðbeiningarstarfi í kjördæminu. Byggðastofnun tekur þátt í kostnaði við starfsemi atvinnuráðgjafa.
    Atvinnuráðgjafar kjördæmanna skulu einnig vinna að samstarfi atvinnuþróunarfélaga innan viðkomandi kjördæmis og er heimilt að fela þeim framkvæmdastjórn þeirra ef um semst.

5. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Um áramótin 1989 1990 skipaði forsætisráðherra tvær nefndir í byggðamálum. Annarri nefndinni, Byggðanefnd, var falið að gera tillögur um langtímaáætlun í byggðamálum. Sú nefnd hefur samið frumvarp það sem hér er flutt.
    Jafnframt skipaði forsætisráðherra aðra nefnd sem var falið að fjalla um starfsemi Byggðastofnunar og fyrstu aðgerðir í byggðamálum. Skýrsla og tillögur þeirrar nefndar fylgir með frumvarpinu sem fskj. II.
    Byggðanefnd var skipuð af forsætisráðherra 4. janúar 1990. Nefndinni var falið að gera tillögur um nýjar áherslur og langtímastefnu í byggðamálum með það að markmiði að byggð dafni í öllum landshlutum. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokka og samtaka á Alþingi.
    Formaður nefndarinnar er Jón Helgason alþingismaður. Aðrir í nefndinni eru: Egill Jónsson alþingismaður, Guðmundur Einarsson, fyrrverandi alþingismaður, Gunnar Hilmarsson, formaður Atvinnutryggingarsjóðs, Hreggviður Jónsson alþingismaður, Lárus Jónsson, fyrrverandi alþingismaður, Skúli Alexandersson alþingismaður, Skúli Björn Árnason fulltrúi og Snjólaug Guðmundsdóttir húsmóðir. Ritari nefndarinnar er Kristófer Oliversson frá Byggðastofnun.
    Áður en nefndin var skipuð hafði Byggðastofnun fjallað um þetta málefni og lagt fram hugmyndir um mótun nýrrar byggðastefnu og þar með átak til að rétta hlut landsbyggðarinnar til frambúðar. Haldnir voru fundir með fulltrúum allra stjórnmálaflokka þar sem starfsmenn stofnunarinnar lögðu fram gögn um þróun og horfur á landsbyggðinni. Megintilgangur þessara funda var að finna þau grundvallaratriði nýrrar byggðastefnu sem stjórnmálamenn úr öllum flokkum væru sáttir við og teldu framkvæmanleg. Niðurstöður viðræðna voru sendar forsætisráðherra 16. apríl 1989. Í framhaldi af því skipaði hann nefnd eftir tilnefningu stjórnmálaflokkanna á Alþingi og hefur hún nú skilað fyrstu tillögum um stefnu í atvinnumálum landsbyggðarinnar.
    Þegar Byggðanefnd forsætisráðherra hóf starf sitt var byrjað á að fara yfir ábendingar Byggðastofnunar og ræða þær. Varð það niðurstaða nefndarinnar að taka fyrst sérstaklega fyrir atvinnumálin og draga fram þau atriði sem nefndarmenn gátu orðið sammála um. Nefndin telur að efling atvinnulífs á landsbyggðinni og aukin fjölbreytni sé lykilatriði ef takast á að stöðva fólksflutninga til höfuðborgarsvæðisins og jafna byggðarþróun. Full samstaða var í nefndinni um aðgerðir til að auka atvinnuþróunarstarf, sbr. fskj. I.
    Fram til þessa hefur nefndin haldið 21. fund og rætt við fjölmarga aðila. Formaður og ritari héldu m.a. fundi og kynntu horfur í byggðarþróun í landinu og þær hugmyndir sem nefndin hefur til að sporna við fyrirsjáanlegri byggðarröskun. Fundir voru haldnir með eftirtöldum aðilum: stjórn Byggðastofnunar, ASÍ, BSRB, Farmanna - og fiskimannasambands Íslands, Stéttarsambandi bænda, Verkamannasambandi Íslands, Landssambandi iðnaðarmanna, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Félagi íslenskra iðnrekenda, LÍÚ, VSÍ, Kvenfélagasambandi Íslands, Búnaðarfélagi Íslands, Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Tækniskóla Íslands, Upplýsingaþjónustu Háskólans, Rannsóknaráði ríkisins, Iðntæknistofnun, Hafrannsóknastofnun, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Útflutningsráði Íslands, atvinnumálanefnd ríkisstjórnarinnar, Seðlabanka Íslands, Ferðamálaráði Íslands, Ferðaþjónustu bænda, Samtökum sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, byggðahreyfingunni Útverði, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og öllum iðnþróunarfélögum á landsbyggðinni.
    Í framhaldi af þessum viðræðum hélt nefndin fjölmenna ráðstefnu Borgarnesi 8. október 1990 þar sem fulltrúar ofangreindra aðila kynntu hugmyndir sínar. Þar var einkum óskað svara við þremur spurningum.
    Í fyrsta lagi hvort viðkomandi aðili sé ekki sammála því að aðgerða sé þörf til að koma í veg fyrir þá byggðarröskun sem tölur síðustu ára benda til. Í öðru lagi hvað viðkomandi aðili getur eða er reiðubúinn til að gera til þess að koma í veg fyrir að svo fari. Í þriðja lagi hverju æskilegt væri að breyta til þess að þeir næðu þar sem bestum árangri.
    Á ráðstefnunni komu fram margar gagnlegar ábendingar og tillögur sem nefndin hefur stuðst við í starfi sínu.
    Síðan hefur nefndin unnið að undirbúningi þessa lagafrumvarps. Nefndin leggur til að breytingar verði gerðar á lögum nr. 64 frá 1. júlí 1985, um Byggðastofnun, í samræmi við tillögur um stefnumótun í atvinnumálum á landsbyggðinni, sem nefndin sendi forsætisráðherra 11. júní sl. Breytingartillögur 3. og 4. gr. eru í samræmi við þetta álit.
    Með ákvæðum 1. og 2. gr. er hugmyndin að tryggja að mótun og framkvæmd byggðastefnu í landinu verði felld í ákveðinn farveg bæði faglega og pólitískt á Alþingi og í ríkisstjórn. Þetta eru í raun þau vinnubrögð sem ætlunin var að viðhafa þegar Byggðastofnun hóf að vinna að drögum um endurmat byggðastefnu. Þar skorti að ríkisstjórn og Alþingi kæmu til liðs og tækju pólitíska ábyrgð á endanlegri mótun nýrrar stefnu og framkvæmd hennar að endurmati loknu.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. gr. er kveðið á um að Byggðastofnun verði falið í samráði við ráðherra að móta byggðastefnu og gera tillögu að stefnumótandi áætlun í byggðamálum til fjögurra ára. Í byggðaáætlun koma fram helstu þættir sem áhrif hafa á þróun byggðar. Þar kemur fram framtíðarstefna stjórnvalda í byggðamálum og fjallað er um áhrif stefnu í efnahags og atvinnumálum á þróun byggðar ásamt því hvernig framkvæmdaáætlun fyrir opinberar framkvæmdir tengist byggðarþróun. Ráðherra skal leggja þessa byggðaáætlun fyrir Alþingi til afgreiðslu og Alþingi tekur byggðaáætlun til endurskoðunar ekki sjaldnar en annað hvert ár. Hér er lagt til að tekin verði upp svipuð vinnubrögð og tíðkast við undirbúning að gerð þjóðhagsáætlunar og meðferð Alþingis á vegaáætlun. Einnig er gert ráð fyrir að Byggðastofnun geri svæðisbundnar byggðaáætlanir sem unnar verða í nánu samstarfi við heimamenn í hverjum landshluta og verði tekið mið af þeim við undirbúning byggðaáætlunarinnar sem Alþingi fjallar um.

Um 2. gr.


    Hér er kveðið á um hlutverk stjórnar Byggðastofnunar við undirbúning byggðaáætlanagerðar. Stjórninni er ætlað að fjalla um stefnumótandi hluta byggðaáætlunarinnar og fylgist með framkvæmd þeirra þátta hennar, sem henni er falið af Alþingi. Stjórn stofnunarinnar er einnig ætlað að fylgjast með þeim svæðisbundnu byggðaáætlunum, sem unnar verða af Byggðastofnun.

Um 3. gr.


    Í þessari grein eru sett inn ákvæði um stuðning Byggðastofnunar við stofnun og rekstur atvinnuþróunarfélaga. Slík félög eru nú starfandi í öllum landshlutum. Um leið og hér er lögfestur stuðningur Byggðastofnunar við þau er lögð áhersla á að efla þátttöku heimamanna í atvinnuþróunarfélögunum og gera starf þeirra markvissara. Aðild að þeim geta átt sveitarfélög og allir aðrir aðilar sem vilja taka þátt í og láta sig varða þróun og uppbyggingu atvinnulífs á viðkomandi svæði. Stærð atvinnuþróunarsvæðanna ræðst af aðstæðum á hverjum stað og ákvörðun heimamanna og hlýtur að fara eftir möguleikum á að sækja daglega vinnu innan svæðanna. Með þátttöku sinni er Byggðastofnun ætlað að vera bakhjarl þessara félaga og veita þeim fjárhagslegan og tæknilegan stuðning eins og henni er kleift og frumkvæði heimamanna gefur tilefni til.

Um 4. gr.


    Byggðastofnun verði heimilað að veita atvinnuþróunarfélögum styrki til einstakra verkefna á sviði þróunar og nýsköpunar í atvinnulífi. Einnig er kveðið á um að stofnunin skuli koma á fót föstu samstarfi við rannsóknastofnanir atvinnuveganna, stofnlánasjóði og háskóla um miðlun tæknilegra framfara til atvinnuþróunar. Í viðræðum Byggðanefndar við fulltrúa þessara stofnana kom fram mikill vilji þeirra til að leggja þessum málum lið. Byggðastofnun er og ætlað að taka við hlutverki iðnaðarráðuneytisins vegna iðnráðgjafa og greiða hluta af kostnaði við starfsemi a.m.k. eins þeirra í hverju kjördæmi. Þá er gert ráð fyrir að atvinnuráðgjafarnir leitist við að koma á samstarfi atvinnuþróunarfélaga innan viðkomandi kjördæma og stuðla að samstarfi við aðra aðila sem vinna þar að ráðgjafar - og leiðbeiningarstarfi.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal I.


Stefnumótun nefndarinnar sem send var forsætisráðherra 11. júní 1990.


Stefnumótun í atvinnumálum á landsbyggðinni.


    Byggðanefnd hefur fjallað sérstaklega um þróun atvinnulífs á landsbyggðinni og telur hún að efling þess og aukin fjölbreytni sé lykilatriði ef takast á að stöðva fólksflutninga frá landsbyggðinni og jafna byggðarþróun. Nefndin er sammála um að senda á þessu stigi ríkisstjórninni eftirgreindar niðurstöður sínar um atvinnumál í framhaldi af minnisblaði dags. 8. mars 1990. Nefndin mun síðar gera grein fyrir tillögum sínum á öðrum sviðum byggðamála.
    Framhald á þeirri byggðarþróun sem verið hefur á undanförnum árum með fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu og fækkun annars staðar veldur sívaxandi kostnaði og margvíslegum erfiðleikum fyrir þjóðfélagið í heild.
    Á landsbyggðinni verður vannýting auðlinda og mannvirkja vegna fækkunar. Erfiðleikar verða í atvinnurekstri og þjónustu. Keðjuverkandi samdráttur getur síðan leitt til þess að heil byggðarlög leggist af.
    Jafnari þróun byggðar í landinu en nú stefnir í er því augljóslega hagkvæm fyrir alla landsmenn.

Stefnumótun nefndarinnar.


    Byggðastefna sem byggir einvörðungu á að viðhalda hefðbundnum landbúnaði og sjávarútvegi á landsbyggðinni verður ekki árangursrík. Kjarni nauðsynlegrar stefnubreytingar er að samhliða vaxandi fjölbreytni og betri nýtingu á möguleikum í hinum hefðbundnu atvinnuvegum verður að hlúa sérstaklega að hinum almennu vaxtargreinum atvinnulífsins iðnaði og þjónustu.
    Atvinnuþróun á hverjum stað hlýtur fyrst og fremst að byggjast á vilja, þekkingu, dugnaði og framtaki þeirra sem þar vilja hasla sér völl. Hins vegar þarf við stofnun atvinnurekstrar að tryggja í ríkum mæli þekkingu og fjármagn sem mörgum verður ofviða nema sköpuð séu hagstæð skilyrði til þess. Þess vegna er mikilvægt að mynda samtök sem geta veitt slíka aðstoð og hvatt til athafna.
    Til þess að búa slíkum samtökum til eflingar atvinnulífinu sem best vaxtarskilyrði er nauðsynlegt að efla þau svæði þar sem íbúar hafa möguleika til daglegra samskipta, vinnusóknar og þjónustu. Þessi landsvæði kýs nefndin að kalla atvinnuþróunarsvæði og eru þau í tillögum nefndarinnar grundvallareiningar við skipulega atvinnuuppbyggingu í héraði.
    Samgöngubætur eru víða nauðsynlegar til þess að atvinnuþróunarsvæði verði nægilega fjölmenn þannig að vaxtarskilyrði iðnaðar og þjónustugreina batni umtalsvert.
    Bæta þarf atvinnuumhverfi á einstökum svæðum. Efnt verði til fjölbreyttra samstarfsverkefna á hinum ýmsu sviðum sem fjármögnuð verði af opinberum aðilum og heimaaðilum í sameiningu. Meðal slíkra verkefna má nefna átaksverkefni, kynningarstarf, námskeiðahald, tölvusel o.s.frv. allt eftir því sem menn telja æskilegt og vænlegt til árangurs á hverjum tíma.
    Ríkisvaldið hefur bein áhrif á atvinnu og byggðarþróun með staðarvali stórfyrirtækja, tilhögun opinberrar þjónustu og ekki síst með stjórn landbúnaðar og sjávarútvegs.
    Í þessu sambandi skipta eftirfarandi almenn atriði miklu máli:
     að almenn efnahagsstjórn tryggi jafnvægi í efnahagslífinu og gengisskráningu sem miðist við viðunandi rekstrarafkomu framleiðsluatvinnugreinanna,
     að ríkisstjórn og Alþingi gæti þess við ákvarðanir um uppbyggingu atvinnurekstrar og stefnumótun á öðrum sviðum að þær stuðli að hagkvæmri byggðarþróun,
     að ríkisvaldið jafni kostnað við opinbera þjónustu um land allt á þeim sviðum þar sem það hefur tök á og aðstæður leyfa bæði fyrir atvinnurekstur og einstaklinga.

Atvinnuþróunarfélög

.
    Nefndin er sammála um að veita eigi auknu fjármagni til atvinnuþróunar á landsbyggðinni og auka aðstoð stofnana ríkisvaldsins í því skyni með því skipulagi sem sýnt er á meðfylgjandi mynd. Mikilvægt er að taka tillit til þess við gerð fjárlaga fyrir næsta ár. Það er ekki ætlun nefndarinnar að ríkisvaldið taki að sér aukna ábyrgð á atvinnuþróun í landinu heldur er atvinnuþróunarfélögunum ætlað að sinna undirbúningi og stofnun fyrirtækja sem verða síðan á ábyrgð þeirra sem reksturinn annast þannig að ríkisvaldið styðji heimaaðila en stjórni þeim ekki. Nefndin telur að atvinnuþróunarfélögin þurfi ekki að vera farvegur allrar nýsköpunar á landsbyggðinni. Þvert á móti telur nefndin mikilvægt að framtak einstaklinga á þessu sviði verði eflt og stutt og að þeir eigi auðvelt með að njóta þjónustu hins opinbera án sérstakra milliliða.

Aðgerðir.


     Sveitarfélögin eða samtök þeirra hafi í samráði við Byggðastofnun frumkvæði að því að stofnuð verði atvinnuþróunarfélög eða efld þau sem fyrir eru. Þessi félög verði fjármögnuð heima fyrir og með framlagi frá Byggðastofnun. Félögunum er ætlað að stuðla að nýsköpun og alhliða atvinnuþróun á starfssvæði sínu. Þau þurfa því eðli málsins samkvæmt að hafa rekstrarfé sem óvíst er hvort fáist endurgreitt. Þetta þarf að hafa í huga við skipulag og fjármögnun þeirra. Þarna hefur ríkisvaldið hlutverki að gegna. Meðal þeirra heimaaðila sem æskilegt er að taki þátt í atvinnuþróunarfélögum eru sveitarfélög, stéttarfélög, búnaðarfélög, peningastofnanir og stærri fyrirtæki. Auk ofangreindra aðila hafi Byggðastofnun beina aðild að þessum félögum.
     Atvinnuráðgjöf á landsbyggðinni verði efld og tengd atvinnuþróunarfélögunum.
     Fjárfestingarfélög eða atvinnuþróunarsjóðir, einn eða fleiri, starfi innan hvers landshluta í samstarfi við atvinnuþróunarfélög og ráðgjafa þeirra. Þeim er ætlað að auðvelda eiginfjáröflun til nýrra eða starfandi fyrirtækja. Til greina kemur að sérstök skattfríðindi verði heimiluð til þess að auðvelda fjármögnun þeirra, auk annarra tekna sem eignaraðilar ákveða.
     Starfsemi Byggðastofnunar verði breytt þannig að hún geti sinnt atvinnuþróunarstarfi í mun ríkara mæli en nú er. Stofnunin fái til þess verulega aukið fjármagn. Það fé verði notað til þess að styðja starfsemi atvinnuþróunarfélaganna og til kaupa á hlutabréfum og annarra verkefna. Byggðastofnun verði bakhjarl og samræmingaraðili þessara félaga og styðji þau fjárhagslega.
     Byggðastofnun komi á fót föstu samstarfi við rannsóknastofnanir atvinnuveganna, Iðntæknistofnun Íslands og Háskóla Íslands um miðlun tæknilegra framfara til atvinnuþróunar.


REPRÓ 31 bls.