Ferill 445. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 445 . mál.


Ed.

831. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 114/1990, um Útflutningsráð Íslands.

Frá fjárhags- og viðskiptanefnd.



1. gr.


     3. gr. laganna orðist svo:
    Tekjur Útflutningsráðs eru:
     sérstakt gjald sem lagt er á aðstöðugjaldsstofn gjaldskyldra aðila, sbr. 2. mgr.,
     framlag ríkissjóðs,
     þóknun fyrir veitta þjónustu,
     sérstök framlög og aðrar tekjur.
    Gjaldskyldir aðilar, sbr. 1. tölul. 1. mgr., eru allir þeir sem hafa með höndum rekstur á sviði eftirtalinna atvinnugreina samkvæmt því gjaldstigi er hér greinir:
     fiskvinnslu og iðnaðar, þar með talin byggingarstarfsemi, 0,05% af gjaldstofni;
     fiskveiða, 0,03% af gjaldstofni;
     flutninga á sjó og flugrekstrar, 0,01% af gjaldstofni. Undanþeginn er þó gjaldstofn vegna strandflutninga og innanlandsflugs.
Einnig nær gjaldskyldan til þeirra aðila í öðrum atvinnugreinum sem kjósa sjálfir að gerast aðilar að Útflutningsráði og skal gjald þeirra vera 0,01% af gjaldstofni.
    Um álagningu og innheimtu gjalds skv. 2. mgr. fer eftir ákvæðum VIII. XIV. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eftir því sem við á. Innheimtuaðilar skulu skila mánaðarlega til Útflutningsráðs innheimtum gjöldum.
    Gjald samkvæmt þessari grein má draga frá tekjum á sama hátt og aðstöðugjald.

2. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu gjalda á árinu 1991 vegna rekstrar á árinu 1990.

Greinargerð.


    Með bréfi utanríkisráðherra til fjárhags- og viðskiptanefndar efri deildar, sbr. fylgiskjal, var þess farið á leit við nefndina af hálfu ríkisstjórnarinnar að hún flytti frumvarp þetta. Í bréfinu kom fram að frumvarpið var samið í samvinnu þriggja ráðuneyta, utanríkis-, viðskipta- og fjármálaráðuneytisins, og fylgdu athugasemdir þeirra með frumvarpinu. Þar eru tilgreindar ástæður þess að brýn þörf er á að breyta lögum um Útflutningsráð og eru þær eftirfarandi:
    „Komið hafa í ljós vandkvæði við framkvæmd laganna, sem öðluðust gildi 1. janúar 1991. Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins yrði 3. gr. laganna efnislega óbreytt, m.a. varðandi gjaldskyldu, þótt uppsetningu sé breytt, svo og tæknilegum ákvæðum um álagningu og innheimtu hins sérstaka gjalds samkvæmt lögunum. Með 2. gr. frumvarpsins er stefnt að því að tryggja tekjur Útflutningsráðs af viðkomandi atvinnugreinum á árinu 1991, en atvinnugreinatekjur hafa frá upphafi verið megintekjustofn ráðsins.“


Fylgiskjal.



Bréf utanríkisráðuneytis til fjárhags- og viðskiptanefndar efri deildar.


(5. mars 1991.)



    Komið hafa í ljós vandkvæði við framkvæmd laga nr. 114/1990, um Útflutningsráð Íslands, og er nauðsynlegt að breyta 3. gr. laganna til að tryggja að álagning og innheimta gjalda af viðkomandi atvinnugreinum geti farið fram á þessu ári.
     Meðfylgjandi frumvarp til breytinga á lögunum hefur verið samið í samvinnu við fjármálaráðuneyti og viðskiptaráðuneyti. Var fjallað um frumvarp þetta á fundi ríkisstjórnarinnar í dag.
     Til að tryggja sem best að Alþingi nái að ljúka málinu ákvað ríkisstjórnin að fara þess á leit við háttvirta fjárhags- og viðskiptanefnd efri deildar að flytja þetta breytingarfrumvarp í stað þess að leggja það fram sem stjórnarfrumvarp.

Jón Baldvin Hannibalsson

.

Þorsteinn Ingólfsson

.