Ferill 135. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


113. löggjafarþing 1990–1991.
Nr. 20/113.

Þskj. 909  —  135. mál.


Þingsályktun

um fræðslu í fjármálaumsýslu í skólum.


    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að láta útbúa námsgögn um almenna fjármálaumsýslu fyrir efsta bekk grunnskólans, sem og framhaldsskólann, og gera fræðslu um hana að skyldunámsefni á þessum námsstigum. Ráðuneytið ákveði í hvaða námsgreinum fræðslunni verði best fyrir komið.
    Markmið fjármálafræðslunnar verði:
     1.      að taka til meðferðar sem flest er við kemur almennri fjármálaumsýslu, þar með talin gerð greiðslu- og kostnaðaráætlana, og setja efnið þannig fram að það verði öllum aðgengilegt og skýrt,
     2.      að gera ungt fólk betur meðvitað um fjármál og um leið fjárskuldbindingar með því m.a.:
                  að kynna nemendum meðferð greiðslukorta og notkun tékkhefta,
                  að kynna nemendum almennar reglur um lántökur, svo sem víxla- og skuldabréfaviðskipti, vaxtamál og hvaða ábyrgð felst í því að gerast ábyrgðarmaður á skuldaviðurkenningum,
                  að tengja þessi námsgögn réttindum og skyldum manna er þeir verða fjárráða.

Samþykkt á Alþingi 12. mars 1991.