Ferill 153. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 153 . mál.


Nd.

948. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á læknalögum, nr. 53/1988, með breytingu nr. 50/1990.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið. Á fund nefndarinnar kom Gunnsteinn Gunnarsson læknir. Umsagnir bárust frá læknaráði Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, læknaráði Landakotsspítala, Geðlæknafélagi Íslands, læknaráði Borgarspítalans, læknadeild Háskóla Íslands, Læknafélagi Íslands, læknaráði Landspítalans, Tryggingastofnun ríkisins og landlækni.
    Ítarlegar umræður urðu í nefndinni um 1. 3. gr. frumvarpsins en ekki var útrætt um efni þeirra og því leggur nefndin til að þær verði ekki afgreiddar á þessu stigi.
    Nefndin leggur til að breytingar verði gerðar á 4. gr. frumvarpsins. Auk orðalagsbreytinga er gerð tillaga um að læknum sé skylt að afhenda, sé þess óskað, landlækni eða öðrum opinberum aðilum afrit sjúkraskrár, eins og sjúklingum, en ekki frumrit hennar. Lagt er til að þeir opinberu aðilar, sem með lögum er falið faglegt eftirlit með heilbrigðisstéttum, geti einnig fengið afrit sjúkraskrár. Gerð er tillaga um orðalagsbreytingu á 4. mgr. 16. gr. laganna til að merking verði skýrari, þ.e. ef læknir telur ekki þjóna hagsmunum sjúklings að afhenda honum eða umboðsmanni hans afrit sjúkraskrár skuli hún afhent landlækni til afgreiðslu.
    Nefndin leggur ríka áherslu á að í reglugerð, sem heilbrigðisráðherra setur um afhendingu og varðveislu sjúkraskráa, verði tryggilega gengið frá því með hvaða hætti afrit sjúkraskráa skuli afhent. Að mati nefndarinnar ber að afhenda þau persónulega eða með ábyrgðarsendingu þannig að um þessi viðkvæmu skjöl verði ætíð fjallað í fyllsta trúnaði og þess gætt að þau lendi ekki í röngum höndum.
    Guðmundur G. Þórarinsson og Ragnhildur Helgadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 13. mars 1991.



Jón Sæmundur Sigurjónsson,


form., frsm.

 Anna Ólafsdóttir Björnsson,


fundaskr.

Geir Gunnarsson.


Geir H. Haarde,


með fyrirvara.

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir.