Ferill 271. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 271 . mál.


Sþ.

952. Nefndarálit



um till. til þál. um íslenska heilbrigðisáætlun.

Frá minni hl. félagsmálanefndar.



    Það er álit sjálfstæðismanna í nefndinni að þessi tillaga til þingsályktunar um íslenska heilbrigðisáætlun feli að mörgu leyti í sér góð markmið. Þannig eru þeir samþykkir þeirri almennu stefnu í heilbrigðismálum sem fram kemur í 1. tölul., að skapa þurfi jafnrétti í heilbrigðisþjónustu og að taka þurfi fullt tillit til heilbrigðissjónarmiða í þjóðfélaginu. Minni hl. vill einnig að stuðlað sé að heilbrigðum lífsháttum með auknu forvarnastarfi og að skipulagðar verði varnir gegn notkun ólöglegra vímugjafa. Jafnframt þarf að stuðla að heilbrigðiseftirliti og umhverfisvernd. Þá er einnig mikilvægt að efla vísindarannsóknir til þess að auka þekkingu og skilning á sjúkdómum.
    Þrátt fyrir ýmis góð markmið í þessari tillögu kemur fram nokkuð varhugaverð stefna í ýmsum þáttum hennar, t.d. sú mikla áhersla sem lögð er á rekstur heilsugæslustöðva. Hætt er við að þessar stofnanir verði of stórar og ópersónulegar og að þau hlutverk, sem þeim verði falin, muni reynast þung í vöfum. Í ýmsum liðum virðist þessi tillaga stefna að meiri ósveigjanleika í heilbrigðisþjónustunni almennt og er þannig hætta á að hlutur sjúklinga verði fyrir borð borinn. Reynslan hefur sýnt að aukin miðstýring í heilbrigðisþjónustu hefur fremur dregið úr gæðum hennar gagnvart þeim sem hún á að þjóna.
    Sjálfstæðismenn leggja áherslu á það að fólk geti valið sér þá heilbrigðisþjónustu sem því hentar best, hvort sem um er að ræða almenna lækna, sérfræðinga eða sjúkrahús. Þessi áætlun virðist ekki þjóna því markmiði. Enn fremur þykir hæpið að Alþingi álykti nú rétt fyrir þinglok hver skuli vera stefna í heilbrigðismálum á Íslandi til ársins 2000 og bindi þannig hendur stjórnvalda næstu árin. Hins vegar telur minni hl. mikilvægt að áfram sé unnið að áætlun um íslenska heilbrigðisþjónustu og leggur því til að tillögu þessari verði vísað til ríkisstjórnarinnar til endurskoðunar svo að um hana megi nást full samstaða.

Alþingi, 13. mars 1991.



Sólveig Pétursdóttir,


frsm.

Kristinn Pétursson.