Ferill 370. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990–91. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 370 . mál.


Nd.

995. Breytingartillögur



við frv. til l. um ráðstafanir vegna aflabrests í loðnuveiðum.

Frá Sighvati Björgvinssyni, Matthíasi Bjarnasyni, Geir Gunnarssyni

og

Hreggviði Jónssyni.



     1. gr. orðist svo:
                   Við ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 40 frá 15. maí 1990, um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins, bætist ný málsgrein sem orðist svo:
                   Á fiskveiðitímabilinu 1. janúar til 31. ágúst 1991 er sjávarútvegsráðherra heimilt að auka leyfðan heildarafla af úthafsrækju umfram það sem ákveðið hefur verið með reglugerð nr. 465 frá 27. nóvember 1990, um fiskveiðar í atvinnuskyni, og úthluta þeim viðbótarafla til Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins. Stjórn sjóðsins skal ráðstafa þessum aflaheimildum með sölu, sbr. ákvæði 5. og 9. gr. laganna, til þeirra skipa sem leyfi hafa til úthafsrækjuveiða.
     2. gr. orðist svo:
                   Á eftir ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 40/1990 komi nýtt ákvæði, er verði ákvæði II, og orðist svo:
                   Söluandvirði veiðiheimilda á árinu 1991, sbr. ákvæði til bráðabirgða I og 5. og 9. gr. laganna, skal ráðstafa á því ári til þess að mæta tímabundnum tekju- og atvinnumissi vegna aflabrests á loðnuveiðum samkvæmt reglum sem ráðherra setur.
     Á eftir 2. gr. komi ný grein er orðist svo:
                   Á eftir ákvæði til bráðabirgða VII í lögum nr. 38 frá 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, komi nýtt ákvæði, VIII, er orðist svo:
                   Á árinu 1991 skal sjávarútvegsráðherra eigi beita ákvæði 9. gr. laganna um skerðingu á bolfiskaflaveiði fiskiskipa í því skyni að flytja aflamark á botnfiski frá skipum sem hafa aflahlutdeild í botnfiski yfir til skipa með aflahlutdeild í loðnu.