Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið rætt um það milli flokkanna að kjör í fastanefndir fari ekki fram í dag. Ég vil hins vegar láta það koma fram hér að þeirri afstöðu hefur verið lýst af hálfu Alþb. að við teljum eðlilegt að kjör í nefndir geti farið fram eftir því sem þörf er á meðan þetta þing stendur og á fundi sínum í dag gerði þingflokkur Alþb. þá samþykkt að óska eftir því strax að á morgun, í síðasta lagi á fimmtudag, fari fram kjör í utanrmn.
    Í gær var einn af mikilvægustu fundum viðræðna milli Evrópubandalagsins og EFTA. Það hafa borist fréttir af þessum fundi sem nokkuð eru misvísandi. Í viðtali við hæstv. utanrrh. í Dagblaðinu í dag greinir hann frá því að samkomulag hafi náðst í fjölmörgum efnisatriðum á þessum viðræðufundi.
    Samkvæmt lögum á utanrmn. að vera formlegur ráðgefandi vettvangur fyrir ríkisstjórn á sviði utanríkismála. Það er þess vegna fullkomlega óeðlilegt að meðan svo mikilvægir samningar standa yfir og lykilfundir utanríkisráðherra EFTA - ríkjanna og Evrópubandalagsins eru að ráða til lykta mikilvægum þáttum þessara samninga, þá sé utanrmn. Alþingis ekki starfandi. Alþb. hefur þess vegna ákveðið að óska eftir því að á morgun, eða í síðasta lagi á fimmtudag, verði utanrmn. kjörin hér í sameinuðu þingi þannig að þessi lögbundni, formlegi vettvangur þingsins til samráðs við ríkisstjórnina verði til strax.
    Í öðru lagi höfum við ákveðið að óska eftir því við hæstv. forseta að um leið og utanrrh. kemur til landsins flytji hann þinginu hér úr ræðustól greinargerð eða lýsingu á því sem fram fór á utanríkisráðherrafundi Evrópubandalagsins og EFTA og í kjölfar þeirrar ræðu fari fram hér almenn umræða um viðræðurnar og samningana svo að þingið geti strax og utanrrh. kemur til landsins haft tækifæri til þess að ræða við hann um þær yfirlýsingar sem hann hefur verið að gefa utan þings um þessar samningaviðræður og aðrir utanríkisráðherrar sem sátu þennan fund hafa verið að gefa. Það er óeðlilegt að þingið fái ekki skýrslu um svo mikilvægt mál strax og utanrrh. kemur til landsins í ljósi þeirra yfirlýsinga sem hann hefur gefið utan þings um fundinn í gær.