Svavar Gestsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi hefði ég nú talið eðlilegt að hæstv. forseti hefði greint frá viðhorfum sínum til þeirrar beiðni sem kom fram frá hv. 8. þm. Reykn. hér áðan þannig að það komi fram hvort hæstv. forseti er reiðubúinn til að kanna það mál sérstaklega sem hv. þm. nefndi.
    Í annan stað tel ég eðlilegt að atkvæðagreiðsla um þennan lið fari fram í tvennu lagi þannig að sérstaklega verði greidd atkvæði um utanrmn. Þar getur aðeins verið um mjög skamman og tímabundinn frest að ræða, til morguns eða hins dagsins í mesta lagi, og ég vil jafnframt fara fram á það af minni hálfu að um þann lið fari fram nafnakall þegar að atkvæðagreiðslu kemur.