Páll Pétursson (um þingsköp) :
    Frú forseti. Þegar samkomulag var gert á milli formanna þingflokka og formanna flokka, þá var gerður fyrirvari um það að svo gæti farið að hér þyrfti að ræða utan dagskrár Evrópskt efnahagssvæði og Evrópumálin. Það var engin athugasemd gerð við það og ég áskildi okkur rétt til að taka það mál upp þó að við reyndum að stilla öðrum umræðum, meginpólitískum umræðum í hóf þangað til í framhaldi af stefnuræðu forsrh. Ég tel með tilliti til þess sem er að gerast og hefur gerst nú á síðustu dægrum eðlilegt að fresta ekki lengi kjöri í utanrmn. Ég held að það sé óeðlilegt að þingið sé án utanrmn. í marga daga.
    Ég tel hins vegar eðlilegt, og staðfesti það sem hér hefur komið fram, að ekki sé gengið til kosninga í aðrar fastanefndir þingsins að svo komnu máli fyrr en ljóst er hvort á þeim þurfi að halda, hvort þær hafi verk að vinna. Þess vegna legg ég til að við veitum afbrigði fyrir fresti á kosningu um sinn í nefndirnar, en með því fororði að á næsta fundi í Sþ. verði gengið til kosninga í utanrmn. Þetta legg ég til ráðs, frú forseti, að við stöndum að frestun núna samkvæmt þingsköpum, en forseti beiti sér fyrir kjöri í utanrmn. þegar á næsta fundi.