Vaxta- og kjaramál
Fimmtudaginn 16. maí 1991


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Vaxtahækkanir þær, sem hér er um rætt, nýorðnar og yfirvofandi, eru alvarleg tíðindi fyrir fjölskyldurnar í landinu og þau fyrirtæki sem standa höllum fæti. Stjórnvöld verða að leita betri leiða en vaxtahækkana á ríkisskuldabréfum til að bæta sinn hag.
    Þótt fyrirtæki standi nú mörg prýðisvel er flestra mál að þau þoli alls ekki háa raunvexti til lengri tíma og stefni jafnvel í þrot standi sá tími of lengi. Hvar væri þá svigrúm til launahækkana? Nógu þungur er róðurinn nú þegar mörg fyrirtæki standa vel. Alvarlegra er þó að líta á áhrif vaxtahækkana á fjölskyldur landsins. Ég tek undir það sem hefur komið frá Verkamannasambandi Íslands og margir aðrir hafa raunar tekið í sama streng. En sambandsstjórn Verkamannasambandsins lýsir harðri andstöðu við þá hækkun vaxta sem nú þegar er orðin og hefur verið boðuð, allt að 30% hækkun. Þetta er ólíðandi brot á þeim kjarasamningum sem gengið hafa undir nafninu þjóðarsátt, segir í þessari ályktun m.a., með leyfi forseta.
    Ríkisstjórnin verður að leita annarra leiða og standa við fyrirheit allra flokka um bættan hag fjölskyldnanna í landinu í stað þess að auka byrði fjölskyldnanna. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera til að standa við það fyrirheit? Kaupmáttur launa verkakvenna og afgreiðslukvenna hefur minnkað um 7 -- 8% á þjóðarsáttartíma. Það þarf því að gera meira heldur en bara að auka byrðar. Það þarf að halda byrðum óbreyttum og bæta hag fólks.