Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Í fjarveru hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur, formanns þingflokks Alþb., vil ég láta það koma hér fram að eins og frá þessum málum var greint í þingflokki Alþb. var lýst samkomulagi sem formenn þingflokkanna og forseti höfðu unnið að, en það var þó með þeim fyrirvara af hálfu Alþb. að ef á þyrfti að halda, þá mundu formenn þingflokka og forseti meta málið að nýju í ljósi þess hvernig umræðan þróaðist. Það var ekki verið að slá því föstu óumbreytanlegu að hér væri bara klukkutími á þingflokk, heldur færi það eftir því hvernig umræðan þróaðist. Ég ætla þess vegna ekki að blanda mér í deilur hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar og forseta um textann í þingsköpunum, hins vegar lýsa því sem sagt var í okkar þingflokki í fjarveru formanns þingflokksins varðandi samkomulagið.
    Nú er ég þeirrar skoðunar að þessi umræða hafi verið með þeim hætti að það sé --- já, það er nú við hæfi að hæstv. landbrh. veiti hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni svona praktíska ráðgjöf í meðferð þingskapaumræðu og túlkun þingskapa og er nú leitt ef sjónvarpsvélarnar geta ekki numið þessa sögulegu stund. --- En ég var þar kominn í máli mínu að víkja að því að mér fyndist þessi umræða hafa verið með þeim hætti, og er ég ekkert að gagnrýna það, en hún hefur hins vegar verið með þeim hætti að það sé óhjákvæmilegt að formenn þingflokkanna taki til endurskoðunar þessa hugmynd sína að beita þessu á þann veg að hér væri bara klukkutími á þingflokk. Ég vil nefna þessu til stuðnings það í fyrsta lagi að umræðan hefur nú staðið í þrjá klukkutíma án þess að nokkur ráðherra Sjálfstfl. hafi talað í umræðunni. Þar er ég ekkert að lasta ræðu hv. þm. Björns Bjarnasonar, hún var að mörgu leyti ágæt og fróðleg. En hér hefur ákveðnum spurningum verið beint til ráðherra Sjálfstfl. og það er nokkuð óvenjulegt að hæstv. forsrh. hefur enn ekki talað í þessari umræðu. Er ég í sjálfu sér ekkert að gagnrýna það, en það er hins vegar snúið ef hann eða hæstv. landbrh. tala svo seint í umræðunni að það gefst ekki nægilegur tími til þess að fjalla um það sem fram kann að koma í þeirra ræðum.
    Enn fremur er ljóst að ræða hæstv. utanrrh. var á þann veg að það er óhjákvæmilegt að þingmenn hafi tækifæri til þess að ræða á ný þegar svör hæstv. utanrrh. við sumu af því sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson, fyrrv. forsrh., beindi til hans, koma hér fram í umræðunni.
    Ég tel þess vegna nokkuð ljóst að umræðan hafi þróast á þann hátt að til þess að hún geti verið gagnleg og eðlileg þurfi að skapa nokkurt svigrúm til viðbótar, virðulegi forseti, til þess að hún geti haldið áfram, og þá er ég ekki að tala um að lengja hana úr hófi, ég vil taka það alveg skýrt fram, en það skapist nokkurt svigrúm til viðbótar til þess að hægt sé að láta hana þróast með eðlilegum hætti. Vil ég því beina þeim tilmælum til forseta og formanna þingflokka að þeir hugleiði það meðan næsti ræðumaður flytur sitt mál hvort ekki sé rétt að breyta skipan umræðunnar

frá fyrra samkomulagi.