Svavar Gestsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil eins og fleiri þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram og staðið þó nokkra stund þó það sé í sjálfu sér ástæðulaust að kalla það mjög langan tíma vegna þess að hér er á ferðinni mikilvægt mál.
    Ég ætla ekki að blanda mér í þau almennu orðaskipti sem hér hafa verið. Það er þó eitt atriði sem krefst nánari útskýringar af hæstv. utanrrh. en þegar hefur komið fram og það er satt að segja mjög stórt atriði. Hæstv. utanrrh. hefur orðað það þannig að hér sé ekki um að ræða ákvæði af neinu tagi um yfirþjóðlegar stofnanir, yfirþjóðlegt vald. Hann hefur fullyrt þetta aftur og aftur, en hann hefur að mínu mati ekki rökstutt það nægilega vel. Til þess að renna frekari stoðum undir þessa fullyrðingu mína vil ég á nýjan leik vitna til skýrslunnar sem birtist í október 1990, skýrslu utanrrh. Jóns Baldvins Hannibalssonar um samningaviðræður um Evrópska efnahagssvæðið. Þar segir á bls. 34 sem hv. 10. þm. Reykv. m.a. vitnaði til hér áðan. Í heild hljóðar kaflinn svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Innan EB hefur EB - réttur forgang umfram landslög. EB hefur lagt áherslu á að gildi EES - reglnanna verði tryggt gagnvart landslögum sem hugsanlega yrðu sett í andstöðu við reglurnar. Að öðrum kosti mundi grundvöllur fyrir samræmdum reglum svæðisins raskast fljótt. Samkvæmt íslensku réttarkerfi þyrfti stjórnarskrárbreytingu til að tryggja algeran forgang EES - réttar fyrir landslögum,`` eins og segir sig nokkurn veginn sjálft. ,,Hins vegar er hægt að setja ákvæði í lögfestingarlögin þess efnis að þau beri að skýra sem sérlög gagnvart nýrri landslögum. Endanlegt mat á því hvort landslögin gangi framar EES - reglunum er alltaf í höndum íslenskra dómstóla. Réttarkerfi Norðurlandanna í EFTA hefur verið skýrt fyrir EB og jafnframt þær hugmyndir að EES - reglur gildi sem sérlög gagnvart landslögum. EB hefur jafnframt verið tjáð að viðkomandi ríki hafi ekki hug á að breyta stjórnarskrám sínum vegna þessa. Nýlegir dómar Hæstaréttar hafa undirstrikað að leitast skuli við að skýra lög í samræmi við þjóðréttarsamninga sem Ísland er aðili að. EB hefur sett fram efasemdir um að aðferðir EFTA - ríkjanna muni nægja til að veita sömu réttarstöðu og ríkir innan EB.``
    Þetta voru sjónarmið sem voru sett fram af utanrrh. hér í skýrslu til hins virðulega Alþingis í október 1990. Með öðrum orðum kemur fram að þær hugmyndir sem þá voru uppi um stofnanir samkvæmt EES - samkomulaginu væru með þeim hætti að það gæti þurft stjórnarskrárbreytingar ef þær ættu að taka gildi á þeim Norðurlöndum sem eru aðilar að EFTA, svo ég tali nú ekki um önnur EFTA - ríki, ég þekki það ekki neitt.
    Í fyrsta lagi vísa ég til þessa þegar ég krefst skýrari svara af hálfu utanrrh. Í öðru lagi vitna ég svo til viðtalsins við Gunnar G. Schram, sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vitnaði hér til áðan, þar sem það kemur alveg skýrt fram af hans hálfu að hann telur að

hér sé gengið lengra en áður hafði verið fyrirhugað. Hvenær áður? Var það í desember þegar hæstv. utanrrh. gaf Alþingi skýrslu sína eða hvað? Það er nauðsynlegt að fá skýringar á þessu. Það dugir ekki fyrir hæstv. utanrrh. í þetta alvarlegu máli að víkja því frá sér með einni handarveifu eða svo. Hér er um miklu alvarlegra mál að ræða en að slíkt sé unnt.
    Og það kemur fleira til, hæstv. utanrrh. Norskur lagaprófessor hefur gert ítarlega úttekt á þessum málum og samið skýrslu um þau mál fyrir norska landbúnaðarráðuneytið. Þar kemur það fram að samkvæmt skoðun þessa prófessors er nauðsynlegt að samþykkja þessar reglur með 3 / 4 í norska þinginu vegna þess að um er að ræða yfirþjóðlega stofnun. Þetta er ekki neitt sem kemur frá þeirri ágætu konu Gro Harlem Brundtland, sem hæstv. utanrrh. vildi gera heldur lítið úr hér áðan, heldur kemur þetta frá norskum lagaprófessor sem beðinn er um það fyrir norska landbúnaðinn að gera sérstaka úttekt á þessu máli. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að hér sé um yfirþjóðlega stofnun að ræða og þess vegna þurfi að afgreiða þetta með 3 / 4 í norska Stórþinginu. ( HG: Gro Harlem hefði tekið undir þetta.) Og Gro Harlem hefur leyft sér að taka undir þetta. Ég vildi ekki nefna það, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, vegna þess að ég vissi að það var ekki innlegg gagnvart hæstv. utanrrh. Hann tekur það ekki mjög hátíðlega sem frá henni kemur, þeirri ágætu konu.
    Í fjórða lagi er það svo þetta sem kemur fram í yfirlýsingunni 13. maí 1991, sem menn hafa verið að tala um í dag og hefur ekki verið nægilega vel skýrt að mínu mati þrátt fyrir þessa löngu umræðu. Hér stendur: ,,Þeir tóku fram að aðildarríki EFTA væru reiðubúin til þess að setja ákvæði í innri löggjöf sína í þá veru að reglur samningsins um Evrópskt efnahagssvæði skuli hafa forgang í þeim tilfellum sem þær rekast á við önnur ákvæði innri löggjafar þeirra.`` Þetta stendur hér fullum fetum að utanríkisráðherrarnir hafi lýst því yfir að þeir séu tilbúnir til að setja lög sem tryggi lagaframkvæmd reglnanna um Evrópskt efnahagssvæði andspænis þeim lögum sem þegar hafa verið sett í löndunum, það stendur hér á þessum blöðum, á þessari Morgunblaðsíslensku sem þetta er framleitt á og er svo sem út af fyrir sig alveg nægilega skýr.
    Það eru því fjögur atriði, hæstv. utanrrh., sem ég er í raun og veru að rökstyðja óskir mínar með. Það er í fyrsta lagi skýrsla utanrrh. sjálfs frá því í október 1990. Það er í öðru lagi viðtal við Gunnar G. Schram prófessor í útvarpi, trúi ég það hafi verið, í gærkvöld. Það er í þriðja lagi tilvitnun í þennan norska lagaprófessor, sem ég get lagt til hæstv. utanrrh. ef hann hefur ekki séð skjalið. Í fjórða lagi er það svo yfirlýsingin sjálf.
    Niðurstaða allra sanngjarnra manna sem skoða þessa texta hlýtur að vera sú að hér sé um að ræða yfirþjóðlegar stofnanir. Þá mundi utanrrh. væntanlega segja svo: Já, en við erum aðilar að Mannréttindadómstólnum og Alþjóðavinnumálastofnuninni og fleiri slíkum stofnunum og á sama hátt værum við að verða

aðilar að þessu og það er svo sem enginn munur á því og alveg ástæðulaust að vera að ræða það neitt frekar. Þá er það heldur ekki nógu nákvæmt vegna þess að í þeirri grein norsku stjórnarskrárinnar sem kveður á um sérstakan aukinn meiri hluta, þ.e. 3 / 4 hluta atkvæða, er annars vegar gert ráð fyrir því að ákvæði eins og þau sem verið er að fjalla um í EES - samningnum þurfi 3 / 4 hluta. Það er í fyrri mgr. 93. gr. norsku stjórnarskrárinnar. En í annarri mgr. 93. gr. þessarar stjórnarskrár konungsríkisins Noregs segir aftur á móti að þegar um er að ræða þjóðréttarlega samninga um aðild að samtökum eins og t.d. ILO eða Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eða hvað það nú er, þá sé nægilegur einfaldur meiri hluti. Norskir sérfræðingar líta svo á að þessi ákvörðun um EES sé önnur en ákvörðun um aðild að Mannréttindadómstóli eða samtökum eins og hæstv. utanrrh. var að víkja að og hafa verið að fjalla um ýmis mál íslenskra stjórnvalda, m.a. niðri í Genf.
    Þetta gerir það að verkum, virðulegi forseti, að mér fannst satt að segja ekki hægt að ljúka þessari umræðu án þess að fá botn í þetta. Með hvaða hætti ætlar utanrrh., þrátt fyrir þessi rök, að halda því fram að hér sé ekki um að ræða yfirþjóðlega stofnun í þeim skilningi að hún skerði það fullveldi sem okkar stofnanir hafa í framkvæmd lýðræðis í landinu, þingræðis og dómstóla, frá degi til dags í ýmsum málum en ekki í afmörkuðum málaflokkum? Þetta verður hæstv. utanrrh. að skýra betur.