Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Sú var tíð að íslenska þjóðin bað Þorlák biskup helga um hjálpræði í raunum sínum og neyð. Nokkuð fyrir aldamótin 1200 var báti ýtt úr vör hér við sundin blá og stefnan tekin á Viðey. Um borð var sá sæli Þorlákur biskup. Viðeyingar höfðu kallað hann til í vandræðum sínum því sérkennileg plága herjaði á eyjarskeggja. Músagangur var svo mikill að varla mátti við búa og spilltu mýsnar bæði kornum og ökrum. Biskup stökkti vígðu vatni á tún og akra og hrakti mýsnar út á nes eitt. Varð ekki af músum mein eftir það meðan ráðum biskups var fylgt.
    Þær eru margar Viðeyjarferðirnar í íslenskri sögu en ekki allar jafngöfugar eða árangursríkar og ferð biskups. Nú á vordögum var mikið um mannaferðir í Viðey. Þar þinguðu þeir sem nú hafa sest á valdastóla. En sjaldan hefur borist óljósari boðskapur úr eynni en sá sem lesa má í sáttmála hinnar nýju stjórnar og óvíst að honum fylgi nokkurt hjálpræði til handa íslenskri þjóð.
    Í kosningabaráttunni sögðum við kvennalistakonur brýnustu verkefni þess kjörtímabils sem nú er hafið vera fjögur: Að jafna og bæta lífskjörin, móta nýja atvinnustefnu í sátt við náttúru landsins, þróun skynsamlegrar byggðastefnu og síðast en ekki síst, að standa vörð um hagsmuni íslensku þjóðarinnar í heimi mikilla breytinga.
    Í kosningabaráttunni ríkti samstaða um nauðsyn þess að bæta kjör hinna lægst launuðu og bent var á leiðir til þess. Það verður hvorki séð af ræðu hæstv. forsrh. né af stjórnarsáttmálanum að sérstaklega verði tekið á kjörum hinna verst settu með þeim meðulum sem ríkisvaldið ræður yfir. Í stjórnarsáttmálanum er að finna eitthvað sem þar kallast sáttargerð um sanngjörn kjör. En hvað það þýðir, hvernig og hvenær hún verður gerð veit sá einn sem allt veit. Það verður að rétta hlut þeirra sem hallast standa fæti í okkar samfélagi þrátt fyrir slaka stöðu ríkissjóðs.
    Jafnframt er óhjákvæmilegt að taka launakerfi ríkisins og kjör opinberra starfsmanna til rækilegrar endurskoðunar og leita allra leiða til að bæta og jafna kjörin. Nú er tækifæri til þess.
    Þegar ég kvaddi skólann minn fyrir nokkrum dögum kvöddu um leið tveir samkennarar mínir, ung hjón, hámenntað raunvísindafólk, bæði doktorar frá Ameríku. Þau eru að flytja með litlu börnin sín tvö til Ástralíu þar sem þeim bjóðast mun betri kjör en hér, aðstaða til rannsókna og örugg dagvistun fyrir börnin. Þau eru dæmi um ungt fjölskyldufólk sem verður að glíma við milljóna námsskuldir, koma yfir sig húsnæði eða borga leigu og greiða fyrir barnagæslu með launum sem eru á bilinu 80 -- 90 þús. kr. fyrir fulla vinnu. Það finnst kannski sumum há laun. En Íslendingum hættir til þess að gleyma að við erum ekki ein í heiminum. Vinnumarkaðurinn verður æ alþjóðlegri og það er víða boðið í gott og vel menntað fólk.
    Meðan ungir læknar áttu í launadeilum fyrr í vetur stóð ekki á tilboðum til þeirra frá sænskum sjúkrahúsum. Íslenskir hjúkrunarfræðingar hafa fengið gylliboð frá Ameríku og því miður eru að verða mörg dæmi þess að Íslendingar skili sér ekki heim úr námi vegna þeirra aðstæðna sem hér er boðið upp á og skiptir þar ekki minnstu ástand dagvistarmála í borg Davíðs. Ég held að nánast allir þeir sem halda utan til náms vilji koma heim og leggja sitt af mörkum í lífsbaráttu okkar litlu þjóðar. En verði ekki breyting á afstöðu stjórnvalda til menntunar, rannsókna og tilrauna óttast ég að við munum missa úr landi fleira sérmenntað fólk þjóðinni til ómælds tjóns.
    Sú afstaða sem einkennt hefur umræður um menntun og menntafólk er forneskjuleg og sorgleg hjá þjóð sem er einhver hin best menntaða í heimi og hefur á undanförnum áratugum fjárfest andvirði mörg hundruð togara og margra álvera í menntun fólks á öllum aldri. Það er bagalegt hve illa þessi menntun er nýtt til þróunar og nýsköpunar hér í landi möguleikanna, enda ríkir hér stöðnun. Þó er sú ógæfan mest þegar aðrar þjóðir kaupa upp þá þekkingarauðlind sem við eigum og framtíð þjóðarinnar hlýtur að byggjast á. Ég auglýsi hér með eftir stefnu stjórnarinnar í launa - , mennta - og menningarmálum.
    Í kosningabaráttunni reyndum við kvennalistakonur að vekja athygli á þeirri staðreynd að það eru einkum konur sem flytja frá hinum dreifðu byggðum til höfuðborgarsvæðisins og þaðan liggur leið mun fleiri kvenna en karla suður Keflavíkurveginn og úr landi. Þarna eru á ferðinni þjóðfélagsbreytingar sem vert er að gefa gaum. Við teljum þetta hið versta mál, enda vandséð að landbúnaður og sjávarútvegur komist af án vinnu kvenna, hvað þá að veruleg nýsköpun eigi sér stað þegar konurnar eru á bak og burt. Ástæður þessarar þróunar eru einkum einhæf atvinna úti á landi, skortur á félagslegri þjónustu og menntunarþörf.
    Virðulegi forseti. Í fylgdarliði Cossiga Ítalíuforseta sem hér var á dögunum var kona að nafni Maria Antonetta Maccocchi, fyrrv. þingkona og prófessor í stjórnmálafræði. Hún sagði okkur kvennalistakonum að efnahagsundrið á Ítalíu sem stórbætt hefur lífskjör þar í landi væri að verulegum hluta konum að þakka. Þar eins og í öðrum Evrópulöndum hafa konur streymt út á vinnumarkaðinn og myndað þar nýtt afl. Það hefur m.a. skilað sér í fjölda nýrra fyrirtækja í eigu kvenna og nýjungum sem borið hafa hróður Ítalíu út um veröld alla og aflað þjóðinni mikils gjaldeyris. Kanadískur sálfræðiprófessor, Nina Colwill, sem hér var á ferð nýlega, sagði að í Bandaríkjunum og Kanada væri mikill meiri hluti nýrra fyrirtækja í öllum greinum í eigu kvenna. Hér á landi getum við ekki bent á svipaða þróun. Íslenskar konur hafa aflað sér mikillar menntunar og hafa streymt út á vinnumarkaðinn, en fyrst og fremst í þjónustu - og umönnunarstörf. Um nýsköpun kvenna í atvinnulífinu eigum við allt of fá dæmi. Hvernig skyldi standa á því?
    Ég þekki konu sem rak fataverslun og hannaði sjálf nokkurn hluta þeirra vara sem hún framleiddi. Hún vildi reyna fyrir sér í útflutningi og leitaði eftir fyrirgreiðslu hjá sjóðum og bönkum atvinnulífsins. En þar sitja sem kunnugt er einungis karlar við stjórnvöl og

sitja fast. Svörin sem hún fékk voru þessi: ,,Vina mín, á Íslandi flytjum við inn föt, ekki út.``
    Önnur kona sem ætlaði að setja upp lítið verkstæði til skartgripa - og minjagripaframleiðslu leitaði fyrir sér um lán hjá ónefndum sjóði. Svörin sem hún fékk voru á þá leið að það tæki því ekki að vera að lána fyrir svona smáræði. Hjá þeim sjóði er hugsað í togurum og fiskvinnslustöðvum og löngu gleymt að margt smátt gerir eitt stórt. Konur þessa lands eru að glíma við staðnað kerfi þar sem allt er fullt af körlum, skipuðum til lífstíðar af gömlu flokkunum. Þetta mosavaxna karlveldi stendur þjóðinni fyrir þrifum meðan aðrar þjóðir eru komnar miklu lengra í að láta fagmennsku sitja í fyrirrúmi þótt ekki vanti þar karlveldið.
    Hér þarf hugarfarsbyltingu. Við verðum að nýta þær auðlindir sem við eigum, en ein af þeim er hugvit, ekki síst kvenna, sem þarf tækifæri til að blómstra ef við ætlum okkur að búa við góð lífskjör og öflugt velferðarkerfi. En þegar rýnt er í stjórnarplöggin er fátt um fína drætti. Atvinnusköpunin sem þyrfti að taka mið af konum og þörfum landsbyggðarinnar er aðallega fólgin í bygging nýs álvers í anda þeirrar rúmlega 200 ára gömlu vestrænu viðhorfa til atvinnumála sem ríkisstjórnin segist aðhyllast og kennd eru við iðnað og hagvöxt. Þótt sú stefna hafi fært okkur miklar framfarir glímir mannkynið sem kunnugt er við afleiðingar hennar sem lýsa sér í meiri spjöllum á jörðinni en dæmi eru til og atvinnustefna framtíðarinnar hlýtur að taka mið af.
    Íslendingar standa nú frammi fyrir stórum ákvörðunum um tengsl okkar við ríki Evrópu. Okkur er hollt að minnast þess að við höfum ekkert umboð til að taka neinar þær ákvarðanir sem gerbreyta stöðu þjóðarinnar í heiminum eða bylta hér lífsháttum og menningu nema að afar vel athuguðu máli. Við kvennalistakonur höfum talið hagsmunum Íslendinga betur borgið utan hinna stóru miðstýrðu og karlstýrðu bandalaga. Hingað hafa ekki borist neinar þær fregnir sem breyta þeirri skoðun okkar.
    Góðir áheyrendur. Sú stefnuræða sem flutt var í kvöld boðar allnokkurn músagang hinna hörðu lögmála í Stjórnarráðinu sem getur orðið að plágu ef við erum ekki vel á verði. Við höfum engan Þorlák biskup á meðal vor til að kalla á okkur til hjálpar svo að vitað sé, enda óvíst að það yrði til nokkurs gagns að stökkva vígðu vatni á ríkisstjórnina taki hún að spilla fyrir okkur kornum og ökrum. Við þekkjum hins vegar mátt samstöðunnar og nauðsyn þess að veita ríkisstjórninni verðugt aðhald. Það ætlum við kvennalistakonur að gera og reyna það sem við getum til þess að ekki verði af þessum músum mein.