Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Ástæðan fyrir því að ég kveð mér aftur hljóðs undir þessum dagskrárlið, stefnuræðu forsrh., eru kannski fyrst og fremst nokkrar setningar úr ræðu hæstv. iðn. - og viðskrh. En það er auðvitað fjölmargt fleira sem fram hefur komið í þessum umræðum sem ástæða væri til að fjalla ofurlítið nánar um.
    Hv. 3. þm. Vestf. Einar Guðfinnsson spurði eftir því í ræðu sinni fyrr í dag hvort það væri svo með t.d. stjórnarandstöðuþingmenn af landsbyggðinni að þeir teldu ekki nauðsynlegt að reynt væri að gæta aðhalds í ríkisbúskapnum og hvort þeir teldu ekki nauðsynlegt að reyna að draga úr þenslunni þar sem hún er. Ég vil svara honum því strax að ég tel að þetta hvort tveggja sé nauðsynlegt. Og ég vil líka segja honum og minna hann á, og mun reyndar koma að því aðeins nánar hér á eftir, að ég hef lagt fram fjölmargar tillögur um það hvernig hægt sé að gæta aðhalds í ríkisbúskapnum hvað varðar þann dýra og útgjaldasama málaflokk sem heilbrigðis - og tryggingamálin eru. Sumt af því hefur náð fram að ganga. Sumt af því hefur skilað árangri en annað því miður ekki.
    Hvað varðar það að draga úr þenslunni þar sem hún er þá held ég að nauðsynlegast sé að draga úr þenslunni í húsnæðismálunum. Ég held að það sé nauðsynlegast að taka á húsnæðismálakerfinu. Þar finnst mér raunar gilda einu hvort um er að ræða svokallað 1986 - kerfi eða húsbréfakerfið. Það er fyrst og fremst um það að ræða að reyna að draga úr þeirri gífurlegu spennu sem þar er nú ríkjandi. Og ég hygg að það kunni að geta haft líka mest áhrif hér á þessu svæði og ég óttast að þenslan sé líka, ef hún er einhver í uppsiglingu nú, sem kunna að vera ákveðin hættumerki um, einmitt hér á þessu svæði, fremur en kannski í Bolungarvík eða í smærri sjávarplássum á Vestfjörðum. E.t.v. veit þó hv. 3. þm. Vestf. betur um það heldur en ég. En ef ég ber það saman við þau byggðarlög sem ég best þekki til í Norðurlandskjördæmi eyrstra þá er það ábyggilega svo að þenslumerkin eru ekki þar. Þau eru öllu fremur hér. Og ef það eina sem á að gera til þess að draga úr þessari þenslu, það skjótvirkasta og það róttækasta að mati hæstv. ríkisstjórnar, er að hækka vextina er ég hræddur um að sú vaxtahækkun muni koma við atvinnulífið í þessum byggðarlögum fyrr en hér á höfuðborgarsvæðinu og hafa áhrif í þá veru að lama atvinnulíf þar áður en hún fer að hafa veruleg áhrif á hugsanleg þenslumerki hér á höfuðborgarsvæðinu.
    En það var einmitt í sambandi við húsnæðismálin sem mig langar aðeins að bæta við örfáum orðum og hefði gjarnan viljað spyrja hæstv. félmrh. örfárra spurninga en ég geri svo sem ekki kröfu til þess að ráðherra sé endilega kallaður í salinn. Hann er kannski meira að segja ekki í húsinu. En mig langar þó að láta þetta koma fram því það eru kannski meira athugasemdir við ræðu hæstv. ráðherra hér fyrr í þessari stefnuumræðu, m.a. um áhrif vaxtahækkunarinnar

sem ráðgerð er á húsnæðislánunum allt frá 1984. Hæstv. ráðherra gerði ráð fyrir að þetta hefði áhrif sem gætu numið allt að 600 millj. kr. hærri vaxtagreiðslum, en svo segir í ræðu hæstv. ráðherra. Síðan er reynt að gera þessu nánari skil, hvernig þetta komi út og reyndar ekki talið að um verulegar upphæðir sé að ræða. Það sé t.d. 11 þús. kr. hækkun á meðalláni hjá fjöldanum öllum af fólkinu sem geti nú varla talist mjög mikið ef ber að skilja tóninn í ræðunni á þann hátt, enda fái þeir sem lægstar tekjurnar hafa þetta að mestu eða jafnvel að öllu leyti upp borið aftur með vaxtabótum.
    En ef farið er ofan í þessar upplýsingar hæstv. ráðherra kemur m.a. fram í ræðunni að lántakendur frá árunum 1984 -- 1986 séu u.þ.b. 8 þús. manns. Greiðslubyrði þeirra aukist sennilega um 11 þús. kr. Þá sýnist mér þetta geta verið um 88 millj. kr. Hópurinn sem tekið hafi lán eftir 1986 sé hins vegar um 12 þús. manns og greiðslubyrðin hjá þessum hópi hækki um 22 þús. kr. á ári sem gæti þá gert u.þ.b. 260 millj. kr. eða samtals 350 millj. kr. Niðurstaða mín úr þessu er að þá vanti enn þá 250 millj. kr. til að ná þeirri tölu sem hæstv. félmrh., sem nú er kominn hér í salinn, gerði ráð fyrir í ræðu sinni að þessi vaxtahækkun ætti að skila á heilu ári. Þannig að einhverjir eiga þá eftir að bera verulegan bagga af þessum vaxtahækkunum sem hér eru tilgreindar, auk þess sem mér skilst nú reyndar líka að sé e.t.v. svo hjá þeim sem lægstar tekjurnar hafa að sumir þeirra séu nú þegar með fullnýttar sínar vaxtabætur eða það sem þeir geta fengið endurgreitt. Því kunni viðbót eins og þessi sem hér er ráðgerð, vaxtahækkunin sem hér er ráðgerð, að koma algerlega óbætt á þá sem verst eru settir.
    Síðan eru það hugmyndirnar, sem virðast nú eiga að leysa allan vanda, að loka 1986 - kerfinu og hæstv. félmrh. nefnir hér seint í ræðu sinni og segir svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Það sem er auðvitað leiðin í þessum málum er það að koma okkur sem fyrst út úr 1986 - lánakerfinu.`` Við framsóknarmenn höfum haft nokkrar efasemdir um að þetta væri endilega eina leiðin eða sú rétta heldur væri mögulegt að þessi kerfi spiluðu að einhverju leyti saman. Og ég ítreka hér þá skoðun mína að ég sé ekki hvernig það á að leysa vandann vegna þess að sé 86 - kerfinu lokað færist auðvitað fjárþörfin yfir í húsbréfakerfið, heldur áfram að auka á kröfurnar um aukna fjármuni þar og þensluna á þessum markaði. Og þá, ef allt er reiknað til enda, ætti það líka að leiða til annaðhvort aukinna affalla eða enn frekari vaxtahækkana.
    Mig langar aðeins að fara yfir það dæmi sem hæstv. félmrh. setti hér upp í sínu máli síðast þegar þessi stefnuræða var hér til umræðu og taldi auðvitað dæmið mjög einfalt, og í sjálfu sér er það svo einfalt að jafnvel hæstv. fjmrh. og hæstv. fyrrv. fjmrh. ættu að geta skilið, eins og félmrh. orðaði það í sinni ræðu, að fjárþörfin væri um 22 milljarðar kr. Ef ekki hefði verið um húsbréfakerfið að ræða þá hefðu lífeyrissjóðirnir átt að skila 55% af sínu ráðstöfunarfé, eða 15 milljörðum kr. u.þ.b., og síðan það sem á vantaði leyst með öðrum fjármögnunarleiðum, í gegnum bankakerfið, í gegnum hin hefðbundnu lífeyrissjóðslán og handhafaskuldabréf og fleira sem húsbyggjendur þurftu að grípa til, upp á 7 milljarða eða 22 samtals. Húsbréfakerfið hins vegar skili u.þ.b. 12 milljörðum kr., eins og kemur hér fram í ræðu hæstv. ráðherra, og restin fer í að fjármagna lánakerfið frá 1986 og félagslega íbúðakerfið, eða þessir 10 milljarðar. Ég sé þess vegna ekki hvernig það er hugsanlegt að fá það út að það leiði til sparnaðar eða leiði til einhverra breytinga á þessu húsnæðismáli öllu saman sem er nú í hálfgerðri flækju eins og er. Ég vonast hins vegar til og meina það af heilum hug að hæstv. félmrh. takist að finna leiðir til þess að leysa úr þeim málum, en ég sé ekki og hef ekki enn fundið nein rök fyrir því að eina leiðin sé að loka 1986 - kerfinu.
    Og mig langar til að vitna í blaðaviðtal við Björn Þórhallsson sem birtist í Tímanum núna um helgina. Björn er viðskiptafræðingur og á, eins og menn vita, sæti bæði í miðstjórn ASÍ og í Húsnæðisstofnun. Hann hefur miklar efasemdir um málið og segir þar m.a., með leyfi hæstv. forseta: ,,Sagan frá 1986 er að endurtaka sig. Menn vanreiknuðu sig á lánaeftirspurninni þá. Alveg það sama er að gerast nú með húsbréfakerfið. Eftirspurnin er miklu meiri en nokkur reiknaði með. Það út af fyrir sig breytir ekki neinu um hvort kerfið er notað.`` Síðan segir Björn: ,,Grundvallarvitleysan er sú, eins og ég hef verið að reyna að segja mönnum, að það er ekki nema takmarkað magn af peningum sem þjóðin getur varið til húsbygginga og endurfjármögnunar íbúða á hverjum tíma. Málið er að finna leið til að dreifa þessum peningum á sem farsælastan hátt. Ég sé enga leið til þess nema skömmtun með einni eða annarri aðferðinni og ég er enn þeirrar skoðunar að 86 - kerfið með ákveðnum lagfæringum hefði verið miklu farsælla fyrir alla aðila. Það hefði auðvitað þýtt tiltekna skömmtun og biðraðir. En menn lenda bara líka í biðröðum í húsbréfakerfinu.`` Menn lenda bara líka í biðröðum í húsbréfakerfinu, segir Björn hér.
Og áfram: ,,Lánin skammtast hreinlega af því að fólk hættir að leggja í að taka lán á þeim ofurkjörum sem þar gilda. Komi þær þúsundir fólks sem beðið hafa þolinmóðar í biðröðum nú inn í húsbréfakerfið sé ég fyrir mér hækkandi afföll af húsbréfum. Eigi þetta ekki allt að fara til andskotans`` --- með leyfi hæstv. forseta af því þetta er nú bein tilvitnun í blaðaviðtal --- ,,þá þyrfti að skammta útgáfu húsbréfanna með einhverjum hætti. Verði vaxtahækkunarskömmtunarstýringin látin ráða sé ég ekki annað en það leiði áfram til víxlhækkandi vaxta þangað til það verður einhver sprenging,`` segir hér í þessu blaðaviðtali.
    Björn óttast það jafnframt að það eigi einhverjir eftir að snýta rauðu áður en yfir lýkur og varðandi víxlhækkanirnar segir hann svo, með leyfi hæstv. forseta og skal ég þá ljúka tilvitnun í þetta blaðaviðtal: ,,Svo horfir maður upp á það sorglega sem er að gerast með vaxtastigið þessa dagana. Húsbréfin, sem nánast eru ríkisskuldabréf, keppa við spariskírteinin og til þess að þau seljist eru vextir þeirra hækkaðir sem

þýðir aftur að bankarnir sem vilja halda sínu elta með vextina hjá sér og þá aukast enn afföllin á húsbréfunum. Verði þessi dans stiginn áfram, hvar kemur hann þá til með að enda?``
    Þetta er það sem við stjórnarandstæðingarnir höfum óttast og verið að vara við í okkar ræðum hér að þessi leið um verulegar vaxtahækkanir, sem allt bendir nú til að gangi yfir, og víxlverkanir vaxta eigi eftir að leiða til alvarlegra áfalla, ekki bara að rifta eða rjúfa þjóðarsátt heldur líka leiða til alvarlegra áfalla fyrir marga einstaklinga í þjóðfélaginu, svo og hafa alvarleg áhrif á atvinnulífið og atvinnustigið. Ég þarf ekki að ítreka það.
    Hæstv. félmrh. spurði reyndar nokkurra spurninga um það hvað menn vildu gera. Því hafa bæði hv. þm. Steingrímur Hermannsson og hv. þm. Halldór Ásgrímsson svarað hér í ræðum sínum. Það yrði nú að stöðva eða draga úr útgáfu húsbréfanna um sinn til þess að draga úr þessari spennu. Og hæstv. ráðherra spyr hér m.a.: Á að hætta greiðsluerfiðleikalánunum? Ég óttast að hæstv. ráðherra eigi með vaxtahækkunarstefnunni eftir að reyna það að það þurfi enn að auka greiðsluerfiðleikalánin, því þeim einstaklingum fjölgar alveg örugglega sem eiga eftir að lenda í miklum erfiðleikum með sín húsnæðismál og lán á næstunni.
    Þá langar mig til þess að koma hér að þeim setningum í ræðu hæstv. iðn. - og viðskrh. sem ég nefndi hér áðan úr hans ræðu síðast þegar málin voru hér til þessarar umræðu. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Svo ég víki enn að málflutningi stjórnarandstæðinga í umræðunum í gær, þá kom það fram í máli hv. 1. þm. Norðurl. e. Guðmundar Bjarnasonar að hann teldi Alþfl. hafa komið í veg fyrir og stöðvað hagræðingaráform hans í heilbrigðiskerfinu í fyrrv. ríkisstjórn. Þetta eru staðlausir stafir. Ég vil alls ekki gera lítið úr vilja Guðmundar Bjarnasonar til þess að hagræða í heilbrigðiskerfinu. Hann hafði til þess góðan vilja, en staðreyndin er sú að hann kom þeim hugmyndum sínum ekki fram. Það mikilvæga verkefni, eins og glöggt má sjá á þessari skýrslu um ríkisfjármálin, stöðu þeirra, horfur og aðgerðir, er nú í höndum hins nýja heilbrrh. Sighvats Björgvinssonar. Hann er ekki öfundsverður af því hlutverki og því hlutskipti að þurfa að taka á þeim óleystu útgjaldavandamálum sem þar er að finna, en á þeim þarf þó að taka.``
    Ég vil taka undir það með hæstv. ráðherra sem hér var vitnað til að ég vonast til þess að núv. hæstv. heilbrrh. takist að koma þessum málum í höfn sem þar var áætlað og áformað að vinna að og ég hafði reynt að beita mér fyrir og ég skal eftir föngum reyna að aðstoða hæstv. ráðherra við það verkefni vegna þess að ég hef áður lýst því yfir að ég mun styðja þessa ríkisstjórn til allra góðra verka og viðurkenni að það þarf að taka á ýmsum málum, ekki síður í heilbrigðiskerfinu en annars staðar.
    En því sem hér segir í tilvitnuðum orðum, að fullyrðingar mínar um það að hagræðingaráform hafi strandað á Alþfl. séu staðlausir stafir sem ég hafi þar

sett fram, vil ég mótmæla. Og það sem hæstv. ráðherra segir síðar, að staðreyndin sé sú að fyrrv. hæstv. heilbrrh. kom ekki hugmyndum sínum fram, einmitt vegna andstöðu ákveðinna aðila í Alþfl. fyrst og fremst, kannski hjá fleiri aðilum innan þingsins en ekki síst í Alþfl.
    Ég verð, hæstv. forseti, að fá að eyða í þetta örfáum orðum og rifja aftur upp þau áform sem ég var uppi með og fylgja því aðeins eftir. Sumt af því byggðist á áætlunum sem fjárlagafrv. greindi frá og fjárlögin byggðu á. Þar er t.d. í fyrsta lagi talað um sjúkrahúsmálaráð í Reykjavík. Í fjárlagafrv. segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: ,,Í væntanlegu frv. um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu sem lagt verður fram á fyrstu vikum þingsins er gert ráð fyrir að sérstakt samstarfs- og þróunarráð verði stofnað fyrir sjúkrahúsin í Reykjavík. Ráðið mun m.a. fá það hlutverk að skipta fjárveitingu milli sjúkrahúsanna. Að undanförnu hefur skapast ófremdarástand hvað varðar lokun deilda, sérstaklega lokun langlegudeilda. Með markvissari verkaskiptingu milli sjúkrahúsanna verður að tryggja betri nýtingu fjármuna. Verja þarf þó verulegum fjármunum til breytinga á húsnæði og tækjakaupa ef ná á fram þeirri verkaskiptingu sem að er stefnt.``
    Þetta gerði ég fljótlega eftir að þing kom saman eins og ég vænti að hv. þm. sem þar sátu muni. Eftir allmiklar umræður og breytingar á frv. náðist þó að koma þessu sjúkrahúsmálaráði á þó svo það væri, því miður, nokkuð útþynnt frá því sem var í upphafi áætlað og þar kenndi ég um í upphafi þessara umræðna fyrst og fremst andstöðu Sjálfstfl. og greindi frá því. Þar höfðu sjálfstæðismenn, bæði utan og innan þings, tafið málið og gert það að verkum að það er varla von að það skili því sem því var ætlað í upphafi, en ég vonast þó til þess að það skili allnokkru. ( Gripið fram í: Er ekki rétt að rökstyðja að það séu sjálfstæðismenn?) Jú, ég gæti gert það, hv. þm., með alllöngu máli en ég held að menn muni þetta og viti það, þeir sem fylgdust með því hvernig það mál var unnið hér í gegnum þingið. Því var breytt verulega bæði í undirbúningi og í þingi en hafðist þó fram að lokum á þann hátt að sjúkrahúsmálaráðið er til en verkefni þess önnur og minni en ég hafði ætlað mér í upphafi.
    Síðan eru ákvæði í frv. um lyfjakostnaðinn og aðgerðir til þess að draga úr kostnaði við lyf. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Fyrir lyfjakostnaði eru nú áætlaðir 2,3 milljarðar kr. í frv. Sú tala byggist á því að hægt verði að ná þar fram sparnaði sem nemur 500 -- 600 millj. kr. M.a. er gert ráð fyrir að ná þessum sparnaði með breyttu skipulagi á innflutningi og dreifingu lyfja, lækkaðri álagningu í heildsölu og smásölu og breyttu skipulagi á kostnaðarþátttöku notenda í lyfjakostnaði.``
    Ýmislegt af þessu hefur gengið fram. Við höfum t.d. náð því að hafa áhrif á álagningu lyfja, bæði heildsölu og smásölu, sem munar verulega um. Þar hygg ég að hafi náðst árangur sem gæti skilað nú u.þ.b. 300 millj. kr. sparnaði á ári. En það sem ekki

náðist fram og var tafið eða stöðvað af Alþfl. og ég átti við hér í ræðu minni um daginn, en tímans vegna var ekki hægt að gera því ítarleg skil, var frv. það sem samið hafði verið og lagt fyrir ríkisstjórn 5. febr. sl., reyndar rætt í ríkisstjórninni 8. febr. og síðan sent þingflokkunum en fékk þar litla eða enga umfjöllun. Þar var gert ráð fyrir gjörbreytingu á framkvæmd lyfjamála, m.a. að setja á stofn svokallaða lyfjastofnun sem semji við framleiðendur og innflytjendur um verð, afhendingu, birgðahald og dreifingu lyfja til notenda. Stofnunin er útboðs- og innkaupaaðili en er ekki ætlað að sjá um dreifingu og birgðahald.
    Þetta vildi ég nefna hér og gera sérstaka grein fyrir hvernig þetta var hugsað af því að það hefur verið rangtúlkað allnokkuð í umfjöllun um þetta frv. Þar hefur verið talað um að þessari lyfjastofnun væri ætlað að vera birgðahaldari og dreifingaraðili. Það var ekki meiningin. Hún átti að vera innkaupa- og útboðsaðili, fyrst og fremst, fyrir öll lyf. Út af fyrir sig geta menn fundið aðrar leiðir til þess að leita hér sparnaðar og aðhalds, en ég hygg þó að eftir mikla umfjöllun í heilbrrn. og í mörgum nefndum sem höfðu komist að þessari niðurstöðu hafi hér verið fundin leið sem átti að geta leitt til verulegs sparnaðar. En þettta frv. fékkst ekki lagt fram fyrr en á síðustu dögum þingsins og þá með athugasemdum um að það væri lagt fram til kynningar, til að vekja umræðu, enda þótt umfjöllun um það í ríkisstjórn væri ekki lokið og þingflokkar hefðu fyrirvara um einstaka þætti frv. Þetta voru fyrirvarar sem einkum komu frá Alþfl.
    Virðulegi forseti. Ég verð enn að nefna eitt mál í viðbót máli mínu til áréttingar. Það eru breytingar á almannatryggingalöggjöfinni. Þar var gert ráð fyrir allverulegum sparnaði einnig í lífeyristryggingum með því að tekjutengja grunnlífeyrinn. Það nefndarálit sem frv. byggði á var dags. 2. okt. 1990, þá fljótlega á eftir lagt fyrir ríkisstjórn, margumrætt í fjárlagagerðinni og gert ráð fyrir því að ná þessu frv. fram á þinginu þannig að það gæti haft áhrif á niðurstöður fjárlaganna. Einnig þar var andstaða í þingflokki Alþfl. og ég vænti þess að þingmenn flokksins viti það og muni þannig að ég þurfi ekki út af fyrir sig að hafa um það fleiri orð.
    Ég er ekki að gera neitt lítið úr því að þar kunni menn að hafa haft aðrar skoðanir en þær sem settar voru fram í þessu frv. og gætu ekki fallist á þær hugmyndir. En ekkert kom þó annað út úr málinu en að það væri ekki hægt að samþykkja þetta öðruvísi en að taka lífeyrismálin í heild sinni til umfjöllunar. Það vita allir að það hefði tekið langan tíma og sýnir sig reyndar að gera það og ég óttast að það kunni einnig að vefjast fyrir hæstv. núv. heilbrrh. að ná þeim málum fram saman, eins og hann hefur þó látið frá sér fara í blaðaviðtölum þessa seinustu daga, að breytingar á almannatryggingalöggjöfinni verði ekki gerðar nema í tengslum við breytingar á lífeyrislöggjöfinni almennt og það kunni að taka nokkuð langan tíma.
    Ég ítreka það að ég er tilbúinn til þess að aðstoða hæstv. ráðherra við það að reyna að ná fram þessum málum og skoða þær breytingar sem hann kann að

leggja til varðandi bæði almannatryggingar og breytingar á lyfjalögum. En ég óttast hins vegar að það kunni eitthvað að vefjast fyrir og tefjast áður en það fer að hafa veruleg áhrif á útgjaldahlið fjárlaga en það munum við nú sjálfsagt ræða nánar í umræðu sem hér á eftir að fara fram síðar í dag.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég síðan minna á það að við gerðum breytingar á reglum um greiðslu fyrir lýtalækningar sem hafa áhrif til sparnaðar þannig að það var ýmislegt reynt. Margt af því náði fram að ganga þó að ekki gengi allt eftir af því sem við ætluðum okkur að ná fram.
    Ég vildi aðeins láta þetta koma fram nánar í þessari umræðu vegna ummæla hæstv. viðskrh. í umræðunum um daginn og ítreka það að ég stend fullkomlega við það að það sem tafði málin --- ég er ekki að segja að það hafi verið af neinni annarri ástæðu en þeirri að við vorum ekki nákvæmlega sammála um það hvernig að þessu skyldi staðið --- og varð þess valdandi að sá sem hér stendur kom ekki þessum sparnaðaráformum sínum fram var andstaðan í Alþfl. og það stendur eftir sem áður það sem ég hef um það sagt.