Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður, 5. þm. Suðurl., vék eins og margir fyrri ræðumenn að vaxtabreytingum sem voru meðal fyrstu aðgerða ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Það sem þar skiptir mestu máli er að vaxtahækkun var óhjákvæmilegt andsvar við þensluhættu í þjóðarbúskapnum. Þetta lá ljóst fyrir þegar menn fóru að skoða þá þróun sem orðið hafði á fyrstu mánuðum ársins. Það hefur reyndar komið fram að hv. 8. þm. Reykn., fyrrv. fjmrh., viðurkenndi þetta berum orðum, bæði hér í ræðustóli í þinginu og í blaðaviðtölum í byrjun maímánaðar. Það hefur líka komið fram í máli margra sem hér hafa talað af hálfu Framsfl. að þeir viðurkenna þessa nauðsyn. Þess vegna þykir mér það skjóta skökku við ef menn nú þverskallast við því að viðurkenna þessar staðreyndir efnahagslífsins. Þær eru ekki alltaf þægilegar en þær eru óhjákvæmilegar.
    Ég vildi minna hv. 5. þm. Suðurl. á það sem fram kom í máli hv. 1. þm. Austurl. en hann sagði í sinni ræðu í dag það útilokað að vextir á Íslandi víki mjög frá erlendum vöxtum um verulegan tíma. Þetta er að sjálfsögðu mikilvægt sjónarmið, sjónarmið sem við höfum ekki alltaf haft í heiðri. En sú staðreynd að nú eru opnari samgöngur, opnari viðskipti milli Íslands og annarra landa á lánamarkaði, mun einmitt tryggja það að vaxtakjör hér á landi keyri ekki úr hófi miðað við þennan mælikvarða.
    Þetta sem ég hef nú sagt á við vextina af ríkisskuldabréfunum, af ríkisvíxlunum og húsbréfunum. Hin vaxtahækkunin, sem hér hefur mjög verið rædd, breytingin á vaxtakjörum á hinum eldri Húsnæðisstofnunarlánum frá árinu 1984 og fram undir þetta er nokkurs annars eðlis. Þar liggur fyrir margendurtekið álit efnahagsráðgjafa fyrri ríkisstjórnar og reyndar þessarar að óhjákvæmilegt sé að færa þá vexti í átt við markaðsvexti og í átt við vextina sem algengir eru á húsbréfunum til þess að tryggja fjárhagslegt jafnvægi í þessu mikilvæga lánakerfi. Þetta lá alveg skýrt fyrir á liðnum vetri í álitum þar sem fram kom þessi skoðun af hálfu efnahagsráðgjafa fyrrv. fjmrh. og efnahagsráðgjafa fyrrv. forsrh. og reyndar tóku ráðherrar úr flokkum Framsfl. og Alþb., þeir hv. fyrrv. landb.- og samgrh. Steingrímur J. Sigfússon og hv. fyrrv. heilbrrh., 1. þm. Norðurl. e. Guðmundur Bjarnason, í sérstakri ráðherranefnd undir þá skoðun að undan þessu yrði ekki vikist. Spurningin var aðeins hvenær og hversu mikið. Þetta mátti ekki dragast lengur. Þetta er einfaldlega það sem við erum nú að koma í verk. Þess vegna er það ekki stórmannlegt að vega að þessari ákvörðun nú þegar hún er loksins tekin. Og ég vil aftur vitna í mál hv. 1. þm. Austurl. en hann sagði í ræðu sinni áðan að hann styddi hækkun vaxta í gamla húsnæðislánakerfinu. Það var skynsamlega mælt og í samræmi við hans fyrri afstöðu og mættu aðrir stjórnarandstæðingar taka sér hann til fyrirmyndar um þetta.
    Hér hefur verið nokkuð vikið að gengistilhögun og það gerðu meðal annarra hv. 5. þm. Suðurl., hv. 2.

þm. Vestf. og hv. 4. þm. Austurl. Allir fóru þeir þeim orðum um það áform stjórnarinnar --- og mig langar að lesa enn úr stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, en þar segir, með leyfi forseta: ,,Að kanna vandlega hvernig stuðla megi að auknum stöðugleika í efnahagslífinu með tengingu íslensku krónunnar við evrópska myntkerfið.``
    Það kostar ekki minna en að kalla það að með þessari könnun fari fram framsal frelsis og sjálfstæðis og yfirráða yfir hagstjórnartækjum landsins. Þetta er fráleitur málflutningur. Mig langar til að beina þeirri spurningu til þessara ágætu ræðumanna: Hafa þá Norðmenn og Svíar afsalað sér sínu efnahagslega fullveldi með því að ákveða, Norðmenn í fyrra og Svíar í fyrri viku, að tengja sjálfviljugir gengi sinna gjaldmiðla við hina evrópsku mynteiningu ECU innan ákveðinna marka og að sínu eigin vali? Þetta er að sjálfsögðu hluturinn sem við erum hér að ræða. Reyndar þætti nú vafalaust mörgum Evrópuríkjum það furðu sæta væri því fram haldið að aðild þeirra að hinu evrópska myntkerfi jafngilti því að þær hefðu sagt sig frá efnahagslegu sjálfstæði. Þetta er svo fráleitur málflutningur að ekki tekur nokkru tali. Þess vegna hljóta menn að svara því þegar slíkum firrum er fram haldið úr ræðustól á Alþingi. Nei, þessi könnun á gengistilhögun er andsvar við mikilli þörf. Þeirri að finna leiðir til þess að tryggja þann stöðugleika í efnahagslífinu sem hv. stjórnarandstæðingum er svo tamt að tala um að þeir helst vildu að væri hér varðveittur, en tala þó gegn í máli eins og hér var áður flutt.
    Hv. 4. þm. Austurl. vék nokkuð í sínu máli að því hvort það væri rétt að alþýðuflokksmenn hefðu haft frumkvæði um það að sameignarákvæði fiskveiðistjórnarlaga komst í lög. Það er nú svo með hugmyndirnar að hvort tveggja er óvíst, faðernið og fæðingardagurinn. Því hefur hvergi verið fram haldið að það hafi verið frumleg hugsun af okkar hálfu að fiskurinn í sjónum væri eign fólksins og heppilegt væri að þetta yrði í lög fest. Það er alveg rétt sem fram kom hjá hv. 1. þm. Austurl. að á þinginu 1983 var hugmyndum af þessu tagi hreyft af Alþb. Ég gæti nefnt fyrri heimildir um þennan málflutning, að vísu ekki á þingi en utan þings, sem eru nákvæmlega sömu ættar. En það sem hér skiptir máli er að það var fyrir frumkvæði Alþfl. að þetta komst í lögin, í 1. gr. núverandi laga um stjórn fiskveiða, bæði í fyrri gerð frá 1988 og í seinni gerð frá vorinu 1990, þegar enn var á þessum ákvæðum hert og reyndar aftur að tillögum alþýðuflokksmanna. Þetta eru einfaldlega staðreyndirnar í málinu og þótt það sé að sönnu rétt að það sé sama hvaðan gott komi, þá skal þó rétt vera rétt. Svona er sagan en þar með er engri rýrð varpað á þá hugmynd sem hv. 1. þm. Austurl. meðal annarra hreyfði á þinginu 1983.
    Þá vék hv. 4. þm. Austurl. nokkuð að stöðu viðræðna um Atlantsálsverið fyrirhugaða á Keilisnesi. Hann innti eftir því hvort þinginu yrði gerð grein fyrir stöðu þessara viðræðna og með hvaða hætti, auk þess sem hann vék að nokkrum efnisatriðum málsins,

einkum að því er varðar umhverfismál og starfsleyfi þessa fyrirhugaða iðjuvers.
    Mig langar til þess að rifja upp að í mars sl. var þinginu gerð ákaflega ítarleg grein fyrir málinu. Skýrsla sú fékk hér mjög ítarlega umræðu í þinginu, a.m.k. af hálfu hv. 4. þm. Austurl. eins og menn hafa í minni og hefur varla skort þar á lengd ræðutíma eða tjáningarfæri fyrir þann ágæta þingmann. Þar kom margt skarplega athugað fram og allt hefur það verið heyrt og séð og lesið. Þótt áheyrendur væru ekki alltaf margir að þeim ræðuhöldum get ég þó sagt fyrir mig sjálfan að á það mál hlýddi ég allt. Ég get glatt hv. þm. með því að segja að hans einbeitta krafa og nokkurra annarra um að í þessu iðjuveri verði gætt ýtrustu krafna um mengunarvarnir eftir því sem nútímatækni leyfir er sannarlega heyrð. Það er sannarlega viðvarandi markmið mitt og hæstv. umhvrh. í þessu máli eins og verið hefur. Það er ánægjulegt að í þeim viðræðum sem nú standa yfir hefur miðað vel í áttina að þessu marki. Ég sé fyrir mér að á næstu vikum fáist niðurstaða í viðræðunum um starfsleyfið sem tryggi einmitt þetta markmið. Það er mjög ánægjulegt en það stendur enn ekki svo á að unnt sé að gera grein fyrir málinu á opinberum vettvangi, enda fara viðræður fram þessa daga, en ég bind vonir við að það verði á næstu vikum. Þá munum við að sjálfsögðu njóta þeirra nýju þingskapa. sem við bindum vonir við að samþykkt verði í þessari viku, sem gefa færi á því að fastanefndir þingsins komi saman þótt Alþingi sé ekki að störfum án þess að til þess sé veitt sérstök heimild. Þá munu m.a. koma fram kostir þeirra nýju þingskapalaga sem nú eru til umræðu í hv. Alþingi.
    Þetta gildir í senn um starfsleyfið sem hv. þm. vék sérstaklega að og þar vék hann einkum að tveimur þáttum málsins. Annars vegar endurskoðunarákvæði og vitnaði þá til minnisblaðs frá 4. okt. 1990 sem var mikilvægur áfangi í málinu. Ég get enn glatt hann með því að á grundvelli þess samkomulags sem þá náðist hefur nú náðst annað samkomulag eða er í sjónmáli enn betra um þessi endurskoðunarákvæði sem ég þó get ekki, eins og hver maður getur skilið, fjallað um hér í þessum ræðustóli þar sem viðræðurnar fara nú fram.
    Hins vegar vék svo hv. þm. að brennisteinsmörkum, þ.e. hámarki þess sem þolað yrði að frá þessari bræðslu færi af brennisteinstvíildi. Þar hafa einkum tvær aðferðir verið ræddar, annars vegar að takmarka þann brennistein sem inn fer í ferilinn í rafskautunum, hins vegar að setja útblástursmörk.
    Ég fullyrði það að nú sé í sjónmáli niðurstaða í þessu efni sem sé með því allra strangasta sem dæmi eru um og sem fullnægi vel óskum okkar um þetta mikilvæga mál. Umfram þetta get ég ekki skýrt frá efnisatriðum í málinu en segi það eitt að ég mun að sjálfsögðu freista þess að upplýsa þingið, jafnt stjórnarandstöðu sem stjórnarliða, um framvindu þessa máls en segi, eins og fyrr hefur fram komið, að ég reikna fremur með því að það verði í júnímánuði en í þessum mánuði og heiti þá á hv. þm. að taka þátt í þeim

samráðum svo mikilvægt sem þetta mál er og svo mikilvægt fyrir okkar atvinnulíf að þarna komi senn niðurstaða í málið.
    Virðulegi forseti. Með þessum orðum tel ég að ég hafi svarað því sem til mín hefur verið beint í þessum umræðum og lýk svo máli mínu.