Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Það er rétt sem kom fram hjá hv. 1. þm. Austurl. að það hafði verið rætt á fundi með forsetum og þingflokksformönnum í morgun hvernig þinghaldið mætti ganga fyrir sig í dag. Þá var jafnframt gert ráð fyrir því að þau tvö mál sem hér eru á dagskrá yrðu tekin til umræðu, þ.e. framhald stefnuræðu forsrh. mundi ljúka og að síðan yrði tekið fyrir 1. dagskrármálið, ríkisfjármálin. Ef útlit væri fyrir að þeirri umræðu yrði ekki lokið nálægt miðnætti --- það var nú aldrei ákveðið kl. 12 eins og hv. 1. þm. Austurl. nefndi --- þá yrði þeirri umræðu frestað.
    Nú liggur það fyrir að 1. dagskrármálið hefur ekki verið tekið fyrir á þessum fundi eins og gert hafði verið ráð fyrir, en þessari umræðu um stefnuræðu forsrh. gæti lokið fljótlega þar sem aðeins er einn á mælendaskrá, hæstv. umhvrh. Hann hefur tjáð mér að hann ætli að tala örstutt, en til hans hefur verið beint spurningum sem hann mun að sjálfsögðu þurfa að svara. Forseti hafði ákveðið að gefa hæstv. umhvrh. kost á því að svara og síðan mundi þessum fundi ljúka með því að stefnuræðuumræðunni væri þar með lokið. Þá væri aðeins eftir 1. dagskrármálið sem yrði þá tekið fyrir á næsta fundi.
    Þetta er það svar sem forseti getur gefið hv. 1. þm. Austurl. Að vísu eru liðin þrjú korter fram yfir þann tíma sem menn höfðu gert sér vonir um að geta lokið þessum fundi, en þar sem svo stutt er í það að umræðunni geti lokið hefur forseti ákveðið að hæstv. umhvrh. fái að tala.