Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. geti notað betur þennan skamma tíma vorþings en að halda uppi umræðum af því tagi sem hér hafa farið fram. Það hefur meira að segja gerst og er alvanalegt að samkomulag stjórnarflokka í beinum tengslum við samning þeirra um stjórnarmyndun sé aldrei birt. Ég ætla t.d. að minna menn á það að allar götur frá hinu fræga þingrofi Tryggva Þórhallssonar hefur það viðgengist meðal þeirra ríkisstjórna sem stofnaðar hafa verið á Íslandi að gerður hefur verið samningur milli stjórnarflokkanna við forsrh. um að hann notaði ekki vald sitt sem hann fær samkvæmt lögum til þingrofs, nema með samþykki allra stjórnarflokkanna. Stundum hefur þetta verið gert með munnlegu samkomulagi. Stundum hefur þetta verið gert með skriflegu samkomulagi. Ég veit ekki til þess að þessu samkomulagi, sem er hluti af samkomulagi stjórnarflokka tengdu myndun stjórnarinnar, hafi nokkurn tíma verið beitt.
    Ég vil einnig minna menn á það að sú aðferð sem hér er viðhöfð á sér fordæmi úr þingsögunni. Það var nákvæmlega með þessum hætti sem viðreisnarstjórnin, samstjórn Alþfl. og Sjálfstfl., fór að þegar hún var stofnsett. Aðalstefnuskrá hennar, útfærsla á því samkomulagi sem forsrh. hennar kynnti í grófum dráttum við stofnun þeirrar ríkisstjórnar, stefnuskráin sem stjórnin var síðan kennd við og hét Viðreisn og gefin var út sérprentuð í hvítri bók, hún kom ekki út fyrr en haustið eftir að til ríkisstjórnarinnar hafði verið stofnað. Það var nákvæmari útfærsla á þeim meginstefnumiðum sem ríkisstjórnin hafði komið sér saman um og forsrh. hafði greint frá í stefnuræðu sinni. Ég minnist þess ekki að hv. þm. sem þá sátu á Alþingi hafi talið þetta óeðlilegt.
    Ég er hræddur um að það yrði skrýtinn málatilbúnaður hér á Alþingi ef alþingismenn krefðust þess jafnan að fá nákvæma útfærslu í öllum meginatriðum á þeim grófu stefnumiðum sem fram koma t.d. í stefnuræðu forsrh. þegar hann fylgir nýrri ríkisstjórn úr hlaði og hann lætur koma fram í stefnuræðu sinni að ríkisstjórnin muni leggja fyrir þingið síðar. Þá gæti t.d. stjórnarandstaðan krafist þess nú að ríkisstjórnin legði þegar í stað fram fjárlagafrv. sitt fyrir árið 1992, vegna þess að í framsögu hæstv. forsrh. þegar hann gerði grein fyrir stefnu ríkisstjórnar sinnar eru ákveðin ákvæði er varða gerð fjárlaga fyrir næsta ár sem nánar á eftir að útfæra. Þannig að slík krafa, ef menn teldu hana eðlilega, mundi verða til þess að þinghaldið hér yrði ansi furðulegt.
    Sá háttur sem þessi hæstv. ríkisstjórn hefur haft á í þessu sambandi á sér fordæmi, eins og ég var að segja hér áðan, og er alls ekkert óeðlilegur. Þvert á móti finnst mér það horfa til heilla og betri starfshátta en viðgengist hefur að ríkisstjórn tilkynni Alþingi við upphaf starfsferils síns að hún muni gera þingi og þjóð nánari grein fyrir starfsáætlun sinni en tími vinnst til að gera á þeim fáu dögum sem teknir voru til stjórnarmyndunarviðræðna þegar reglulegt Alþingi kemur saman að hausti. Ég tel það til góðs en ekki til ills og ég sé ekki hvernig menn geta krafist þess á þeim grundvelli sem hér hefur verið lýst að ríkisstjórnin leggi nú fyrir Alþingi nákvæmar útfærslur á öllum þeim meginatriðum sem vikið er að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem birt hefur verið á þingi.
    Ég tel, virðulegi forseti, að menn ættu að nota þennan tíma til einhverra betri hluta en til þess að hvetja til slíks storms í vatnsglasi.