Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Mér er ljúft að ítreka það einu sinni enn að ég vil standa við búvörusamning. Sá hefur verið háttur okkar sjálfstæðismanna að vilja standa við samninga sem gerðir eru eins og efni standa til og skal ég ekki um það segja hvernig það fellur stuðningsmönnum síðustu ríkisstjórnar í geð sem urðu að standa í málaferlum síðustu mánuði síns valdaferils vegna riftunar á kjarasamningum sem þeir höfðu gert við opinbera starfsmenn, en það er svo aftur annað mál.
    Ég sé heldur ekki að neitt af því sem ég hef heyrt hæstv. utanrrh. segja í sambandi við framlög til landbúnaðarmála þurfi að stangast á við það sem samið hefur verið um og ég hef sagt. Ég vil minna á þau markmið sem landbrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og Stéttarsamband bænda settu sér þegar samningurinn var undirritaður, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Að stuðla að því að í landinu geti þróast hagkvæmur og öflugur landbúnaður. Að lækka vöruverð til neytenda án þess að slaka á þeim gæðakröfum sem gerðar eru til þessara vara og án þess að það komi niður á afkomumöguleikum bænda. Að koma á og viðhalda jafnvægi í framleiðslu og sölu mjólkur og sauðfjárafurða. Að lækka opinber útgjöld til þessarar framleiðslu. Að stuðla að því að búskapur verði í sem bestu samræmi við landkosti og æskileg landnýtingarsjónarmið.``
    Í samningnum er þannig beinlínis gert ráð fyrir því að opinber útgjöld til búvöruframleiðslu lækki. Það er sem sagt stefnt að því í fyrsta lagi að lækka opinber útgjöld til þessarar framleiðslu og talað um sex ár í því sambandi. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að framleiðslan geti orðið hagkvæmari og meiri afrakstur af vinnu bóndans. Í samningnum setja bændur sér það háleita mark að verð á landbúnaðarafurðum megi lækka um allt að 20%. Í þriðja lagi er talað um að framleiðslan sé í samræmi við innlendan markað og búskapurinn miðaður við landkosti og æskileg landnýtingarsjónarmið.
    Ég vil taka það fram í öðru lagi að í tengslum við febrúarsamningana 1990 varð samkomulag um skipan nefndar, sjö manna nefndarinnar svonefndu, sem hefðu það hlutverk að, með leyfi hæstv. forseta: ,,Setja fram tillögur um stefnumörkun er miði að því að innlend búvöruframleiðsla verði hagkvæmari og kostnaður lækki á öllum stigum framleiðslunnar í búrekstri bóndans á vinnslu - og heildsölustigi og í smásöluverslun.`` Sjö manna nefndin var skipuð fulltrúum frá landbrn., Stéttarsambandi, Alþýðusambandi Íslands, BSRB, Vinnuveitendasambandinu og Vinnumálasambandi samvinnufélaga. Ég hef átt fund með fulltrúum þessara aðila eftir að ég kom í landbrn. og ég óskaði eftir því að nefndin héldi áfram störfum og það er gert í fullri samvinnu og með fullri samstöðu við alla þá aðila sem hér eiga í hlut. Ég hef ekki fundið annað en þeir vilji standa við þau markmið sem gerð voru með búvörusamningnum.

    Ég verð að segja það í þriðja lagi að það kemur mér auðvitað ekki á óvart þótt nokkrar deilur komi upp um það hér í þingsalnum hvernig eigi að skilja og skilgreina einstök orð þegar almennt er talað, en ég hygg að hitt sé öldungis ljóst að það hlýtur að vera sameiginlegt markmið okkar allra sem hér erum að afrakstur bóndans af hans vinnu megi verða meiri, að okkur megi takast að bæta og auka hagkvæmni í búrekstri og að okkur takist að draga úr þeim opinberu framlögum sem hafa farið til þessa rekstrar.
    Um þetta hefur verið talað meira og minna og hef ég satt að segja ekki miklu meira við þetta að bæta. Það sem ég hef hér sagt er í samræmi við það sem ég hef áður sagt um þessi mál. Ef ríkið gerir samning við atvinnustétt, þá ber handhöfum ríkisvaldsins auðvitað að reyna að efna samninginn. Þetta er augljóst mál og á ekki að þurfa að fara mörgum orðum um það hér í þinginu og ég hélt að fullburða stjórnmálamenn vissu það. ( Gripið fram í: En stefnuskjalið?) Stefnuskjal. Við munum að sjálfsögðu standa við þá stefnuskrá sem birt hefur verið. Það var vikið að stefnunni í landbúnaðarmálum af hæstv. forsrh. og á þessu stigi hef ég svo ekki meira um þetta mál að segja.