Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. v. spurðist fyrir um með hvaða hætti yrði staðið að endurskoðun núverandi laga um stjórn fiskveiða. Það hefur áður komið fram að stjórnarflokkarnir hafa ákveðið að hafa með sér hið besta samráð um þessa endurskoðun. Hér er um að ræða eitt af mikilvægustu verkefnunum sem við blasa og það er fullkomlega eðlilegt að stjórnarflokkar ákveði við upphaf samstarfs að standa á þann veg að slíkri endurskoðun að sem best samstarf sé á milli flokkanna frá upphafi vega í því efni. Það kemur býsna skringilega fyrir sjónir þegar talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna eru að reyna að gera það tortryggilegt þegar greint er frá því í upphafi að á þann veg eigi að standa að endurskoðun á svo mikilvægri löggjöf. Þvert á móti finnst mér að yfirlýsingar og samkomulag um þetta efni eigi frekar að vekja traust og séu frekar til þess fallnar að vekja traust bæði almennings í landinu og eins þeirra sem starfa í atvinnugreininni. Og það skýtur býsna skökku við þegar talsmenn stjórnarandstöðunnar eru að reyna að gera málið tortryggilegt fyrir þá sök að menn hafa einsett sér að starfa saman að endurskoðun þessara mikilvægu mála.
    Hv. þm. vitnaði í bráðabirgðaákvæði laganna sjálfra sem kveður á um með hvaða hætti eigi að standa að þessari endurskoðun. Samkomulag stjórnarflokkanna um að setja á fót sérstaka nefnd til þess að vinna að endurskoðun var gert með tilvísun í þetta ákvæði laganna og er á því byggt. Í lögunum segir í VII. ákvæði til bráðabirgða: ,,Sjútvrh. skal láta fara fram athugun á mismunandi kostum við stjórn fiskveiða þar sem m.a. skal leitast við að meta hagkvæmustu samsetningu fiskiskipaflotans. Skal athugunin, er m.a. taki mið af reynslu annarra þjóða, beinast að því að meta hagkvæmni einstakra aðferða miðað við íslenskar aðstæður með sérstakri hliðsjón af því hvernig unnt sé að tryggja atvinnuöryggi fiskverkafólks og hagsmuni einstakra byggðarlaga.``
    Kjarninn í þessu ákvæði er sá að athugunin á að beinast að mismunandi kostum við stjórn fiskveiða og við það skal miðað að meta hagkvæmustu samsetningu fiskiskipaflotans. Það á að meta þá kosti sem eru fyrir hendi. Þar er ákvörðun þeirra sem stóðu að þessari lagasetningu á sínum tíma. Framsfl. hafði forustu fyrir þessari lagasetningu. Það var hann sem hafði forustu fyrir því að þetta ákvæði var sett í lög þar sem það er bundið að endurskoðunin eigi að ná til athugunar á öllum þeim kostum sem fyrir hendi eru við fiskveiðistjórnun. Fyrrv. ríkisstjórnarflokkar bera með öðrum orðum ábyrgð á því að þetta hefur verið fest í lög. Við endurskoðun á lögunum, sem fram fer á ábyrgð þeirrar ríkisstjórnar sem nú hefur tekið við, verður að sjálfsögðu farið eftir þessu ákvæði laganna og allir þeir kostir sem fyrir hendi eru verða teknir til skoðunar og mats. Ég lít ekki svo á að fyrrv. ríkisstjórn hafi verið að stefna hagsmunamálum sjávarútvegsins í einhverja óvissu þó að hún hafi sett niður lagaákvæði með þessu orðalagi. Það samkomulag sem

gert hefur verið milli stjórnarflokkanna er í fullkomnu samræmi við þetta, að athugaðir verði allir kostir sem fyrir hendi eru. Um það ætti ekki að þurfa að verða ágreiningur og að sjálfsögðu verður farið eftir þeim lagaskyldum sem hér hefur verið vitnað til.
    Í annan stað segir í þessu VII. ákvæði til bráðabirgða: ,,Þá skal ráðherra fyrir árslok 1992 láta endurskoða lög þessi. Hafa skal samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis og samtök helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi við þá endurskoðun.``
    Hér er með öðrum orðrum skýrt kveðið á um það að við þessa endurskoðun skuli hafa samráð við hagsmunaaðila í sjávarútvegi, svo sem gert hefur verið fram til þessa. Og það er kveðið á um að það skuli hafa samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis, með öðrum orðum að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna séu kallaðir þar til ábyrgðar. Með formbundnum hætti verður þetta samráð haft í samræmi við skýr ákvæði þessara laga. Hvernig verður því fyrir komið? Endanlegar ákvarðanir hafa ekki verið teknar þar um, en stjórnarflokkarnir hafa gert ráð fyrir því að setja á fót nefnd sem ég tel að sé hæfilega skipuð með því að þar sitji sjö fulltrúar frá stjórnarflokkunum sem mundi hafa yfirumsjón með þessu verki. Samhliða þeirri nefnd mundi starfa önnur, formbundin nefnd þar sem þeir aðilar sem lögin tilgreina ættu sína fulltrúa þannig að samráð við þá verði formbundið í samræmi við ákvæði laganna. Með þessum hætti tel ég að sé staðið á sem bestan hátt að þeirri endurskoðun sem núverandi stjórnarflokkar hafa komið sér saman um og í fullu samræmi við ákvæði laganna. Og á þennan hátt tel ég að megi ná sem bestri stjórn á þessu vandasama verki og tryggja eðlilegt samráð allra.
    Það er ekkert launungarmál að við setningu núverandi laga var býsna erfitt að vinna það verk í svo stórri samráðsnefnd sem raun bar vitni og ég hygg að það hafi verið mat margra sem að því verki komu að heppilegt hefði verið að hafa þar yfirstjórn sem skipuð væri færri aðilum til þess að verkstýra og leggja meginlínur og það hlýtur að vera á ábyrgð ríkisstjórnarflokka á hverjum tíma. Þess vegna tel ég að skipan af þessu tagi muni leiða til þess að verkið verði unnið á sem bestan og skipulegastan hátt og í fullu samræmi við ákvæði þeirra laga sem hér er verið að endurskoða.
    Hv. 4. þm. Norðurl. v. spurði einnig um afstöðu til Hagræðingarsjóðs og Verðjöfnunarsjóðs sjávarútvegsins. Ég geri ráð fyrir því að lög um þessa sjóði verði endurskoðuð. Að því er varðar Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, þá hef ég lýst því yfir að þar verði ekki gerðar á neinar breytingar að svo stöddu. Það liggur fyrir mat aðila að kjarasamningum þess efnis að á meðan núverandi kjarasamningar gilda óska þeir eftir að engar breytingar verði þar á gerðar. Þessi ríkisstjórn vill fyrir sitt leyti standa að því að núverandi kjarasamningar haldi og því verða ekki gerðar neinar breytingar hér á á næstunni. En vitaskuld hlýtur að koma til þess að lögin verði tekin til endurskoðunar.
    Sama má segja um Hagræðingarsjóðinn. Sjálfstfl. greiddi atkvæði á móti honum á sínum tíma, eins og

ég geri ráð fyrir að hv. þm. muni, vegna þess fyrst og fremst að við töldum að með þeim lagaákvæðum hefði þáv. ríkisstjórn stigið fyrstu skrefin til veiðileyfasölu. Gagnrýni okkar á Hagræðingarsjóðinn var fyrst og fremst fólgin í því og okkur þótti sem þáv. sjútvrh. hefði verið helst til of undanlátssamur í því efni að opna fyrir veiðileyfasölu. Ákvæðin um þennan sjóð verða eins og annað tekin til endurskoðunar, en á næstunni verða engar breytingar gerðar þar á. Síðasta þing gerði breytingar á upprunalegum lögum til þess að sjóðinn mætti nota í þeim tilgangi að koma til móts við vanda loðnuveiðiskipa. Vel má vera að það þurfi að huga að því fyrir næsta haustþing að þær breytingar þurfi að framlengja vegna þess að nú horfir ekki byrlega fyrir loðnuveiðum. Ástandið fram undan er ekki bjart í því efni þannig að ég tel að það komi til athugunar hvort þau bráðabirgðaúrræði sem síðasta þing ákvað í því efni þurfi að framlengja á haustþingi.