Málefni EES
Föstudaginn 31. maí 1991


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég hef aðeins tvisvar á þingferlinum talað um þingsköp og þykir mjög miður ef ég þarf að fara að gera það að kæk. En ég vil gjarnan af gefnu tilefni endurtaka það sem fram kom í svörum mínum áðan sem var þetta:
    Það hefur engin breyting á því orðið að það er ekki verið að taka þessa samninga um Evrópskt efnahagssvæði af núverandi samningssviði og færa yfir í tvíhliða viðræður. Það er ekki verið að því. Það eina sem gerst hefur er að aðalsamningamaður EB hefur loksins svarað jákvætt áður fram bornum óskum Íslendinga um tvíhliða viðræður, þ.e. til þess að taka þráðinn upp aftur eins og hv. 1. þm. Austurl. lýsti. Þessari spurningu var því þegar skýrt og skilmerkilega svarað. ( Gripið fram í: Er það tilviljun að það gerist núna?) Ég er að rifja upp það sem ég sagði í fyrstu ræðu minni.