Búvörusamningur
Föstudaginn 31. maí 1991


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegur forseti. Sá samningur sem hér er til umræðu er í nokkrum liðum. Hann er undirritaður af landbrh. nema tveir viðaukar sem undirritaðir eru af landbrh. auk fjmrh. Þar fyrir utan eru síðan bókanir og samningur sem einungis landbrh. ritar undir. Það sem snýr að fjmrn. og fjmrh. er sá hluti samningsins sem hann skrifar undir með þeim fyrirvara sem nefndur er.
    Nú er ljóst að fengist hefur samþykkt Alþingis til að stofna til þeirra fjárskuldbindinga sem þarf til að hrinda í framkvæmd þeim aðgerðum sem kveðið er á um í viðauka I í samningnum. Nauðsynlegar lagaheimildir hafa þannig fengist fyrir því að hrinda í framkvæmd þeim skyldum til uppkaupa á fullvirðisrétti og bústofni sem lagðar eru samkvæmt samningnum á ríkissjóð á þessu ári. Þetta liggur fyrir. Það sem eftir stendur eru stuðningsaðgerðir í viðauka II. Það er embættisskylda fjmrh. að fylgja fram þessum samningi eins og öðrum þeim samningum sem fjmrh. hefur skrifað undir. Fyrirvarinn sem gerður er er fyrirvari um samþykkt Alþingis um fjárveitingar til þeirra verkefna sem þar eru nefnd. Og það þekkja allir, bæði fyrrv. ráðherrar og aðrir, að stundum hefur það gerst að fjárveitingar hafa breyst þrátt fyrir fyrirliggjandi samning. Með þessum orðum er ég ekki að lýsa því yfir að ekki verði staðið við samninginn, heldur einungis að svara mjög skýrt þeirri fyrirspurn sem til mín var beint um embættisskyldu fjmrh. Vona ég að það sé alveg ljóst hvert svarið er því að fjölmargir slíkir samningar liggja fyrir undirritaðir af fjmrh. með fyrirvara um samþykki Alþingis en í þessu tilviki er þar einungis um að ræða fyrirvara um ákvæði í fjárlögum hverju sinni.