Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

63. fundur
Fimmtudaginn 09. janúar 1992, kl. 13:03:00 (2604)

     Frsm. minni hluta sjútvn. (Halldór Ásgrímsson) (frh.) :
     Virðulegi forseti. Ég var kominn þar í ræðu minni í gær að ég hafði fjallað um það hlutverk Hagræðingarsjóðs að standa við bakið á þeim byggðarlögum sem lenda í vandamálum vegna þess að viðkomandi byggðarlög hafa misst frá sér aflaheimildir. Það er kannski ekki hvað síst mikilvægast að reyna að gera sér grein fyrir því hvaða framhald verður á stefnumörkun í sjávarútveginum og hvort þetta mál eitt út af fyrir sig er með þeim hætti að líta beri á það sem hluta af þeirri stefnumörkun. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar höfum haldið því fram að þetta mál sé að sjálfsögðu hluti af stefnumörkun í sjávarútveginum. Það tengist fiskveiðistefnunni með svo ríkum hætti að það er fráleitt að taka það til endurskoðunar án þess að taka lögin um stjórn fiskveiða til endurskoðunar líka. Við höfum jafnframt bent á að í lögunum sjálfum er ákvæði þess efnis að taka skuli þessi lög til endurskoðunar fyrir árslok 1992 og það beri að hafa samráð við hagsmunaaðila og það beri að hafa samráð við sjútvn. þingsins.
    Ég vil benda á í því sambandi, virðulegi forseti, að þessari samráðsskyldu hefur ekki verið sinnt og það er að sjálfsögðu athugunarefni fyrir forsætisnefnd þingsins hvort hér eigi að taka fyrir frumvörp þegar Alþingi hefur sagt fyrir um það hvernig endurskoðun þeirra skuli háttað og hvort forsetar þingsins eigi ekki beinlínis að vísa málinu frá áður en það er tekið til umfjöllunar og þeirri skyldu sé lokið. Það hefur ekki verið gert og við höfum því lagt til að frumvarpinu verði vísað frá.
    Ég verð að fara þess á leit, hæstv. forseti, að sérstaklega hæstv. utanrrh. verði viðstaddur umræðuna og ég hefði talið mikilvægt að hæstv. forsrh. væri jafnframt viðstaddur því að það er nú svo að þeir einir geta svarað fyrir um það hvað hefur farið þeim í milli um framhald stefnumótunar í sjávarútvegi. Þannig vildi nefnilega til að það voru þessir tveir menn sem gerðu með sér samkomulag um myndun ríkisstjórnarinnar og það er því miður ekki á allra vitorði hvað þeim fór í milli. Sumt af því hefur verið sett í stjórnarsáttmála en það er alveg augljóst að annað hefur ekki komið fram og er svona smátt og smátt að koma í ljós og þess vegna er nauðsynlegt að fá að tala við þessa menn um það sem fram undan er.
    Því var haldið fram á Alþingi vorið 1990 þegar lögin um stjórn Hagræðingarsjóðs voru samþykkt að þar væri stigið fyrsta skrefið í sambandi við auðlindaskatt. Ég vil minna á það að því var þá eindregið mótmælt, m.a. af mér að hér væri um fyrsta skref til auðlindaskatts að ræða. Ég vil í því sambandi vitna til nokkurra orða sem eftir mér voru höfð af því tilefni. En um það var spurt í 2. tbl. Sjávarfrétta 1990, eðlilega af blaðamanni, og spurningin var þessi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hagsmunaaðilar óttast að þetta sé fyrsta skrefið að upptöku auðlindaskatts. Er þessi ótti ástæðulaus?`` Og þessu svaraði ég m.a. með þessum hætti: ,,Ég vil svara því þannig að fyrsta skrefið í átt til sölu að veiðiheimildum var stigið þegar heimilað var að færa veiðiheimildir á milli skipa því að í mörgum tilfellum kemur gjald fyrir slíkt. Það eina sem breytist nú er að gjald verður greitt úr sameiginlegum sjóði sjávarútvegsins. Í sjóðstjórn hafa hagsmunaaðilar í sjávarútvegi víðtæk áhrif og í reynd meiri hluta með aðild sinni að stjórn Fiskveiðasjóðs. Jafnframt kemur skýrt fram í lögunum að sjóðurinn á að vinna fyrir heildina og ekki ein einasta króna á að renna til opinberra nota. Menn virðast gera því

skóna að þessi nauðsynlega ráðstöfun leiði til þess að menn geri eitthvað allt annað í framtíðinni. Ég skil ekki svona málflutning. Ef menn vilja í framtíðinni skattleggja sjávarútveginn vegna þess að þar skapist mikill hagnaður þá verður það sjálfstæð ákvörðun sem kemur þessu ekkert við. Menn geta ekki gert neinar þær ráðstafanir í löggjöf í dag sem hugsanlega geta komið í veg fyrir misvitrar ákvarðanir í löggjöf í framtíðinni. Það fer að sjálfsögðu eftir meiri hluta Alþingis á hverjum tíma.``
    Auðvitað er það ljóst í þessu máli sem öðrum að menn munu ekki geta komið í veg fyrir það í dag hvað verður gert eftir fimm ár eða tíu ár. Ef einhver sá meiri hluti myndast á Alþingi sem vill taka upp auðlindaskatt mun hann að sjálfsögðu ákveða það. En það er mikilvægt að það liggi fyrir í þessu máli hver eru áform núv. ríkisstjórnar í framhaldi þessa máls. Og ástæðan fyrir því að ég vil tala við hæstv. utanrrh. er sú að langt viðtal var birt við hann í Alþýðublaðinu 31. des. 1991 þar sem hann ræðir eðlilega um stjórnmál. Með lestri á slíkum viðtölum má oft nokkuð ráða í það hvað hafi farið milli manna í hinni margfrægu Viðey. En hæstv. utanrrh. segir í viðtalinu í þessu óvenjuefnismikla Alþýðublaði, sem því miður hefur nú minnkað eins og mörg önnur blöð. Þar er hann að fjalla um afrek síns flokks á þeirri stundu. En hann segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Einnig náðum við inn lögunum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins`` og er þá að vitna til samstarfsins í fyrri ríkisstjórn. Það er að vísu ekki alveg rétt hjá hæstv. núv. utanrrh. því að hugmyndir um Úreldingarsjóðinn í þeirri mynd sem hann er nú undir nafninu Hagræðingarsjóður komu strax fram á árinu 1989 og er hægt að vitna til þess í blaðaviðtölum þar sem ýmsir aðilar tjáðu sig þá um þá hugmynd, m.a. hæstv. núv. sjútvrh. þannig að það voru hugmyndir sem ekki komu fram í ársbyrjun 1990. Alþfl. var hins vegar þá með hugmyndir um að taka upp sölu á veiðileyfum í áföngum og taldi að taka ætti um það ákvörðun í þeirri ríkisstjórn og lagði það til. Því var hafnað. Hins vegar var ákveðið að styrkja Úreldingarsjóðinn og byggðahlutverk hans og þess vegna var nafninu m.a. breytt með tilliti til ýmissa athugasemda sem höfðu komið fram og ég vitnaði m.a. til í ræðu minni í gær. Þar vitnaði ég sérstaklega til tillöguflutnings hv. 1. þm. Vestf. en sú tillaga var felld með 21:21 atkv. Lengra var ekki gengið og lögð á það megináhersla að þessi gjaldtaka mundi ganga til að styrkja sjávarútveginn í heild sinni í gegnum hagræðingu og úreldingu skipa sem mikil þörf er á en alls ekki til opinberra nota. Á þessu er mikill grundvallarmunur.
    En hvað um það. Auðvitað átti hæstv. utanrrh. og flokkur hans aðild að málinu á sínum tíma og án þess að ég ætli að fara í nokkurn meting um það hver hafi þar lagt mest af mörkum þá er niðurstaðan öllum ljós. En síðan bætir hæstv. utanrrh. við og er það tilefni þess að mér finnst nauðsynlegt að fá hann á þennan fund og vænti þess að það hafi þegar verið gerðar ráðstafanir til þess nema hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. hafi fjarvistarleyfi. Ég get þá endurtekið orð mín þegar þeir mæta til þingfundar eins og þeim ber eins og öðrum þingmönnum. En þar kemur fram, með leyfi forseta, sem er mikilvægt fyrir hæstv. sjútvrh. að heyra því að ég reikna ekki með því að hann hafi haft ráðrúm til að lesa allt þetta langa viðtal og gæti því þetta hafa farið fram hjá honum eins og það fór fram hjá mér fyrst er ég las viðtalið . . . ( Sjútvrh.: Ég hef heyrt eina setningu þannig að þingmaðurinn má lesa allt viðtalið þess vegna.) Nei, ég hef enga löngun til þess, en hins vegar tel ég mikilvægt að hæstv. sjútvrh. heyri þessa einu setningu sem eru að vísu tvær. En þær eru þessar þegar hann hafði sagt frá því afreki að hafa náð fram Hagræðingarsjóði sjávarútvegsins í fyrri ríkisstjórn þá tekur utanrrh. fram . . . ( Sjútvrh.: Hæstv.) Hæstv., ekki má gleyma því, það er ekki síður mikilvægt en annað að halda forminu:
    ,,Því höfum við fylgt eftir í tíð núv. ríkisstjórnar`` og ég get bætt við hæstv. ríkisstjórnar þó að það sé nú ekki gert í Alþýðublaðinu, ,,með samkomulagi um að aflaheimildir hans verði seldar á markaði á gangverði.``
    Hæstv. utanrrh. telur sig hafa náð því fram í hæstv. ríkisstjórn að þetta sé gert og væntanlega hefur hann strax lagt drög að þessu hinum megin við Viðeyjarsund. Síðan er bætt við og það er ekkert smámál, hæstv. sjútvrh.:
    ,,Það er fyrsti vísir að komandi veiðileyfakerfi í sjávarútveginum.`` Ég endurtek: ,,Það er fyrsti vísir að komandi veðileyfakerfi í sjávarútveginum.``
    Hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Þetta var úr afrekaskrá formanns þíns sem hefur lýst þessu væntanlega fyrir hönd Alþfl. ( ÖS: Hvenær var það?) Þessu var lýst yfir á gamlársdag og væntanlega skrifað einhverjum dögum áður. ( Sjútvrh.: Það er veiðileyfagjald í sjávarútvegi.) Já, það er rétt, hæstv. sjútvrh. Hins vegar hef ég ekki litið svo á að þetta frv. sem hér er flutt af hæstv. sjútvrh. sé fyrsti vísir að veiðileyfakerfi í sjávarútvegi. ( ÖS: Lestu viðtal við Ólaf Ragnar.) Sá vísir er löngu lagður með stuðningi margra hv. þm. og ætla ég ekki að fara að telja þá alla upp því að þeir eru margir og eru úr öllum flokkum. Það er mikilvægt, hæstv. sjútvrh., og ég veit að við erum þar sammála að reyna að varðveita þá samstöðu hvað svo sem þeir fóstbræður hafa talað um úti í Viðey. Það er svo að ég held að það megi ekki treysta því að þeir séu best inni í þessum málum, enda kemur það í ljós. Það sem núv. hæstv. utanrrh. segir er, og taktu nú eftir, hæstv. sjútvrh., því að ég heyri að þú hefur ekki sett þig nægilega vel inn í þetta. Þarna stendur: ,,Það er fyrsti vísir að komandi veiðileyfakerfi í sjávarútvegi.`` Og hvert er þetta ,,komandi veiðileyfakerfi í sjávarútveginum`` sem þetta frv. sem hér er verið að ræða er fyrsti vísir að? Hér flytur hæstv. ríkisstjórn frv. til laga um breytingu á lögum um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins þar sem við höfum haldið því fram að það eigi að taka lögin til endurskoðunar samhliða lögunum um stjórn fiskveiða. Þessu hefur verið mótmælt af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstjórnar og þeir hafa ákveðið að taka málið þar út fyrir og hafa haldið því fram að þetta mál væri ekki tengt lögunum um stjórn fiskveiða. Síðan kemur hæstv. utanrrh. og lýsir því einfaldlega yfir að hér sé kominn fyrsti vísir að komandi veiðileyfakerfi í sjávarútvegi. Hverjir áttu að fjalla um þetta komandi veiðileyfakerfi? Það er sérstök nefnd á vegum stjórnarflokkanna undir forustu tveggja manna, annar skipaður af Alþfl. og hinn af Sjálfstfl. Ekkert liggur fyrir um það hvor hafi þar meiri áhrif og hefur nefndin gjarnan fengið það viðurnefni að hún starfi undir nafni tveggja manna, væri nokkurs konar tvíhöfða þurs.
    Ég sé ekki að hægt sé að ræða þetta mál miklu lengur, hæstv. forseti, nema fá svör um það hjá hæstv. forsrh. landsins og hæstv. utanrrh. hvað er rétt í málinu. Er það rétt sem hæstv. utanrrh. heldur fram að hér sé um fyrsta vísi að komandi veiðileyfakerfi í sjávarútvegi að ræða eða er það rangt? Getum við átt von á því að nýtt frv. birtist sem byggir á þessu á þessu Alþingi eða því næsta? Og hvernig er almennt hugmyndin að fjalla um þessi mál? Hér er um eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar að ræða sem mikill ágreiningur er um og það er sjálfsögð krafa þeirra sem eru á Alþingi að vita eitthvað um fyrirætlanir stjórnvalda. Ég á ekki von á að hæstv. sjútvrh. muni lýsa því yfir að þetta sé rétt hjá utanrrh. Ég ætla að vísu að biðja hann um að gera það. Mér þykir það hins vegar með ólíkindum miðað við það sem hann hefur sagt, og treysti ég orðum hans vel, að hann geti tekið undir að þetta sé rétt hjá hæstv. utanrrh. En getur það verið að hæstv. utanrrh. fari með staðlausa stafi í áramótagrein í Alþýðublaðinu? Er það hugsanlegt, formaður þingflokks Alþfl.? (Gripið fram í.) Ég get a.m.k. ekki trúað því að hæstv. utanrrh. ætli sér að fara með staðlausa stafi og því hlýtur eitthvað að liggja að baki. Sá einn sem getur upplýst það er hæstv. núv. forsrh. ( Gripið fram í: Greinin er skrifuð . . . ) Það held ég að skipti engu máli, hv. þm., hvenær greinin hefur verið skrifuð, enda kemur okkur það ekki við. Aðalatriðið er hvað í henni stendur og það er það sem ég er að vitna til.

    Ég átti von á því að hæstv. utanrrh. mundi koma hér. Ég spyr því hæstv. forseta hvort hann muni koma eða hvort þess sé langt að bíða. ( Forseti: Forseta er ókunnugt um það en mun kanna það. --- Hann kemur klukkan hálftvö er upplýst.) Já, hann mun koma hér hálftvö og þess vegna skal ég gera hlé á þessum hluta ræðu minnar. ( ÖS: Nei, farðu bara með hann aftur.)
    Eitt af því sem ég hafði ekki rætt um í sambandi við þetta mál er það hlutverk Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins að standa fyrir úreldingu fiskiskipa. Það hlutverk átti sjóðurinn að rækja með tvennum hætti. Í fyrsta lagi með því að kaupa upp fiskiskip, úrelda þau og leysa til sín veiðiheimildirnar. Sjóðurinn átti að geta tekið til þess lán, allt að 80% af kaupverði skipanna, enda áttu tekjustofnar hans að nægja til að greiða þau lán.
    Í öðru lagi átti sjóðurinn að veita sérstaka úreldingarstyrki til þeirra aðila sem vildu úrelda sín skip og sameina veiðiheimildir. Þessu hlutverki sjóðsins voru sett nokkuð þröng mörk eða aðeins 10%. Ástæðan fyrir því að þessi mörk voru ekki víðari var m.a. sú að uppi hefur verið mjög mikil gagnrýni á frjálsu framsali veiðiheimilda og vil ég m.a. benda á að hv. þm. Alþfl. héldu því margir hverjir mjög stíft fram í síðustu kosningabaráttu að slíkt þyrfti að takmarka með ríkari hætti. Því var lögð meiri áhersla á það að Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins gæti keypt til sín fiskiskip þannig að veiðiheimildirnar dreifðust á heildina. Ég minni t.d. á það að fulltrúar Farmanna- og fiskimannasambandsins lögðu á það mjög ríka áherslu að úreldingarsjóðshlutverkið yrði mjög styrkt, en fulltrúar Farmanna- og fiskimannasambandsins voru mjög andvígir því hversu mikið frjálsræði ríkti í framsali veiðiheimilda.
    Því miður er með þessar skoðanir eins og svo margar aðrar að það er ýmislegt sem rekst hvað á annars horn. Ef menn eru á móti frjálsu framsali milli skipa verða menn að gera einhverjar aðrar ráðstafanir eigi að vinna að hagræðingu í flotanum. Menn geta vel verið þeirrar skoðunar að rétt sé að halda flotanum við þau mörk sem hann er nú í og ekki sé ástæða til þess að minnka hann, en það hefur ekki verið almenn skoðun. Ef menn vilja hins vegar ekki að hið frjálsa framsal aukist þarf að mynda sameiginlegan sjóð sem getur sinnt úreldingarhlutverkinu af einhverjum krafti. Með þessari löggjöf var verið að gera tilraun til þess og koma þar til móts við sjónarmið aðila sem lögðu á þetta áherslu, m.a. hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar sem nú gegnir þingmennsku fyrir 1. þm. Vestf. og stendur að nál. um þetta mál. Hann er því miður ekki viðstaddur heldur og má nú segja að heldur sé þunnskipað hér í þinginu við þessa umræðu. ( ÖS: Sérstaklega af hálfu Framsfl.) Það má vel vera, hv. þm., en ég skal upplýsa hv. þm. um það að Framsfl. stendur heilsteyptur að sjávarútvegsstefnunni og þar hefur ekki verið mjög mikill ágreiningur innan dyra eins og í þingflokki hv. þm. Það leysir auðvitað ekki aðra þingmenn undan þeim skyldum að vera hér. Það er eins og gengur og gerist og ekkert nýmæli hér á Alþingi.
    Með þessu frv. er verið að gera þá mikilvægu breytingu að leggja af það hlutverk sjóðsins að geta leyst til sín fiskiskip í heilu lagi og þar með er verið að stefna inn á þá braut að hið frjálsa framsal og samningar milli manna eigi fyrst og fremst að gilda. Það er skoðun út af fyrir sig, en ég minni á að það er andstætt sjónarmiðum margra þeirra sem talað hafa um málið áður á Alþingi. Ég er helst á því að ég hafi heyrt ýmsar skoðanir frá þingmönnum úr allmörgum stjórnmálaflokkum um þetta efni og á það jafnt við um Alþfl., Sjálfstfl., Alþb. og áreiðanlega einstaka þingmenn úr Framsfl. Hér er því vissulega um mikilvægt stefnumarkandi atriði að ræða sem snertir fiskveiðistefnuna og sjávarútvegsstefnuna í heild, fram hjá því verður ekki gengið, og er enn ein sönnun þess hversu mikilvægt það er að þetta mál bíði endurskoðunar laganna um stjórn fiskveiða.
    Í öðru lagi mun Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins ekki hafa jafnmikla fjármuni ef

þetta frv. verður að lögum og hann mundi hafa samkvæmt gildandi lögum. Hann mun halda svipuðum tekjum vegna gjalds á einstök skip sem lagt er á hverja rúmlest, en hann mun missa þær tekjur sem hann hafði eða réttara sagt átti að fá af sölu veiðileyfa. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði hér í gær við umræðuna að það mætti úrelda mörg skip af þeim peningum sem sjóðurinn ætti, ein 50 skip --- nei, ein 12 skip, svo að ég hafi rétt eftir, það hefur einu sinni áður komið fyrir mig að ég hef ekki haft alveg rétt eftir þegar þessi ágæti þingmaður hefur átt í hlut --- 12 skip ef hvert þeirra fengi hámarksstyrk, þ.e. 50 millj. Ég býst ekki við að til þess muni koma að öll þau skip fái hámarksfjárhæð, en það er þó merki þess að ekki hafa allir sjóðir verið tómir eins og hæstv. forustumenn núv. ríkisstjórnar hafa haldið fram hvað eftir annað og ekkert verið til af neinu tagi. Það er vissulega rétt að þarna er til sjóður sem hefur verið til lengi og á stofn sinn fyrst og fremst í Aldurslagasjóði fiskiskipa og er ekkert nýmæli, auk þess sem nokkrir peningar voru eftir vegna gengisbreytinga 1983. Það er vissulega mikilvægur stofn en sjóðurinn mun ekki verða ýkja sterkur eftir það. Þess vegna er rangt að gera sér háar hugmyndir um það hvað þessi sjóður getur gert.
    Út af fyrir sig er ágætt mál að hækka úreldingarstyrkinn úr 10% í 30%. Það mundi líka vera ágætt mál að hækka ýmsa styrki. Sjálfsagt yrðu ellilífeyrisþegar því fegnir ef þeir fengju hækkun á sínum styrkjum. Gallinn er bara sá að það þarf að afla tekna til tiltækisins vegna því að þessi sjóður hefur ekki þá náttúru fremur en aðrir sjóðir að meira komi inn í hann en út úr honum er tekið. Hann er þeirrar náttúru sem allir aðrir sjóðir að það er ekki hægt að taka meira úr honum en inn í hann kemur. Þess vegna segir það sig sjálft að menn munu fljótt verða uppiskroppa með það fé sem þarna er til ráðstöfunar. Þetta er eitt mikilvægasta atriði sjávarútvegsins í dag, að koma því til leiðar að fiskiskipaflotinn minnki og að halda áfram á þeirri braut, sem við sjáum daglega, að fyrirtækin í sjávarútvegi sameini krafta sína.
    Það er alveg ljóst að frv. sem hér er flutt mun ekki hjálpa til í þeim efnum heldur mun það verða til þess að gera þá möguleika enn þá minni. Þar af leiðandi mun frv. gera sjávarútveginn óhæfari til að standa undir þeim kröfum sem til hans eru gerðar og þeim lífskjörum sem Íslendingar ætlast til að sjávarútvegurinn standi undir. Í því sambandi minni ég á að enn á ný hafa útflutningstekjur sjávarútvegsins aukist verulega á sl. ári á sama tíma og útflutningstekjur vegna stóriðju og almenns iðnaðar hafa dregist saman. Þannig var hlutur sjávarútvegsins í útflutningstekjum landsmanna um 80% á síðasta ári og það sýnir afar vel hversu mikilvægt er að varðveita sterka stöðu sjávarútvegsins í landinu. Betri lífskjör munu ekki koma fram vegna þess að menn muni finna upp á nýrri stóriðju eingöngu. Það er út af fyrir sig ágætt mál. Ríkisstjórn sem leggur á það höfuðáherslu og gleymir að varðveita það sem mestu máli skiptir mun hins vegar fljótt reka sig á í þeim efnum. Með frv. er því verið að koma því til leiðar að sjávarútvegurinn getur ekki með þeim sama hætti og hann hefði getað staðið undir bættum lífskjörum. Þetta er sérstaklega bagalegt þegar um aflasamdrátt er að ræða. Hins vegar er mjög athyglisvert hversu vel sjávarútveginum tókst á síðasta ári að auka framleiðslu sína. Það mun jafnframt verða athyglisvert hvernig honum tekst til á árinu 1992 og þaðan í frá, en honum mun aðeins vegna vel ef hann fær til þess frið og svigrúm og það svigrúm fæst ekki með aukinni skattheimtu á sjávarútveginn eins og nú horfir.
    Virðulegur forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að ræða þetta mál mjög lengi dags. Ég átti þó von á að eiga möguleika á því, áður en ég lyki minni ræðu, að eiga orðastað við hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh., a.m.k. annan þeirra, en ég sé ekki að það muni verða. Áður en ég lýk máli mínu langar mig að geta þess, og bíð þá aðeins lengur eftir að hæstv. utanrrh. láti sjá sig í húsinu, að ég vænti þess að hæstv. núv. sjútvrh. komi áður en 2. umr

lýkur og lýsi því með hvaða hætti hann telur að eigi að vinna áfram að þessu stóra máli. Ég minni hæstv. sjútvrh. á það að þann 15. nóv. 1991 skrifaði hann öllum nefndarmönnum í sjútvn. þingsins eftirfarandi bréf, með leyfi forseta:
    ,,Vegna fyrirsjáanlegs aflasamdráttar á komandi árum standa Íslendingar frammi fyrir miklum vanda. Hann snýr ekki síst að sjávarútvegsfyrirtækjum sem hafa um langt árabil búið við erfitt rekstrarumhverfi heima fyrir og óviðunandi samkeppnisstöðu gagnvart erlendum samkeppnisaðilum. Ef snúa á vörn í sókn þarf að nást víðtækt samkomulag um mótun sjávarútvegsstefnu sem nær jafnt til veiða, vinnslu og útflutnings. Leggja þarf áherslu á bætta meðferð sjávarfangs, aukna fullvinnslu, og fara þarf nýjar leiðir í markaðsmálum. Undirstöður verðmætasköpunar og velferðar í landinu má ekki veikja frekar en orðið er. Varast ber að reka fleyg á milli dreifbýlis og framleiðslu annars vegar og þéttbýlis og þjónustu hins vegar. Hætta er á að nýjar álögur á sjávarútveginn umfram aðrar atvinnugreinar hefðu það í för með sér.``
    Ég tek undir hvert orð sem sagt er í þessu bréfi þótt ég sé ekki jafntrúaður á það og margir aðrir að hið opinbera geti haft feiknaleg áhrif á það hvernig menn vinna sinn afla, hvort menn frysta hann eða salta hann eða gera eitthvað annað við hann. Vissulega er hægt að hafa nokkur áhrif þar á. Ég tel hins vegar að forðast beri alla miðstýringu í þessum efnum og þess vegna hef ég lagt á það áherslu að fiskveiðistefnan sé grundvöllurinn, en fiskveiðistefnan ætti í sjálfu sér að stuðla til hagkvæmrar nýtingar á öllu sjávarfangi með því að setja ýmis ákvæði inn í stjórn fiskveiða sem stuðla að því eins og álag á ísfisk og fleira því um líkt.
    Ég tel alveg ljóst að ekki hefur margt komið fram frá hæstv. ríkisstjórn í þessum efnum sem er í samræmi við þetta bréf. Hér stendur m.a.: ,,Undirstöður verðmætasköpunar og velferðar í landinu má ekki veikja frekar en orðið er.`` Er ekki verið að veikja undirstöðu verðmætasköpunar og velferðar í landinu, hæstv. sjútvrh., m.a. með þessu frv.? Er ekki verið að veikja þessa mikilvægu undirstöðu með því að skattleggja sjávarútveginn á ýmsum sviðum? Jafnframt kemur fram í þessu bréfi að það beri að ná sem víðtækustu samkomulagi um mótun sjávarútvegsstefnu. Ég er því sammála.
    Hvað er að gerast í þeim efnum? Það hefur verið skipuð nefnd þar sem eru saman komnir fulltrúar stjórnarflokkanna og fulltrúar hagsmunaaðila en eingöngu fulltrúar stjórnarflokkanna. Það er í samræmi við Viðeyjarsamkomulagið og að pólitískir sendimenn skuli vera á sem flestum stöðum þótt þeir eigi ekki að hafa alveg sama vald og hinir kommissararnir, hv. þm., því að hinir kommissararnir eiga að sjá um fjármál stofnana en hér er ekki um það að ræða, heldur um stefnumörkun í mikilvægu máli. Við höfum ekki orðið varir við það í stjórnarandstöðunni að mikill vilji sé til þess að hafa samráð við okkur um þetta mikilvæga mál frekar en annað. Framlag núv. ríkisstjórnar til þessa annars mikilvæga máls er að leggja fram þetta frv., sem er hluti af þessu máli, í fullkominni andstöðu við stjórnarandstöðuna. Það kom alveg skýrt fram við 1. umr. málsins að um þetta mál yrði og væri mikill pólitískur ágreiningur. Samt, þótt þetta varði þetta annars svo mikilvæga mál, er því engu skeytt og haldið áfram á sömu braut og hvergi vikið frá. Það getur verið mikilvægur eiginleiki að víkja ekki í öllu málinu, en í máli þar sem hefur ríkt bærileg samstaða hér á Alþingi, þótt stundum hafi verið naumur meiri hluti, er forsaga málsins öll sú að engar ástæður eru til þess að stefna málinu í tvísýnu með þessum hætti, enda hefur því á engan hátt verið neitað af hálfu stjórnarandstöðunnar að ekki komi til greina að gera breytingar á Hagræðingarsjóði sjávarútvegsins. Sú löggjöf er ekkert gallalaus fremur en önnur löggjöf. Við höfum einfaldlega haldið því fram að sú endurskoðun eigi að bíða þar til í árslok 1992 og það eru engin efni til annars. Það skal hins vegar ekki gert og er það í fullkomnu samræmi við það sem gerst hefur á ýmsum öðrum sviðum.

    Vegna þess að komið hefur til tals hvernig vinna eigi að ýmsum mikilvægum málefnum samfélagsins var mjög athyglisvert að hlusta á fulltrúa launþegasamtakanna í landinu í efh.- og viðskn. í morgun. Þeir töldu það ekki koma neitt á óvart þótt taka ætti upp opinbera tilsjónarmenn með fjármálum ýmissa stofnana. Því var haldið fram af formanni BSRB að samráði og samvinnu hafi verið hafnað við þá og ekkert væri gert á grundvelli samvinnu. Hann lýsti því þannig að allt kæmi ofan frá, síðan ætti að miðstýra hlutunum og ef það gengi ekki skyldi kallað á lögreglu. Hann upplýsti okkur um það að þetta hefði einhvern tíma verið reynt í sovéska hernum og gefist illa, sérstaklega fyrir undirmenn, og það er von að mönnum komi nokkuð á óvart að þessar aðferðir, sem gáfust illa í hinum fyrrum sovéska her, skuli nú vera teknar upp af ríkisstjórn Íslands. Þetta eru ekki mín orð, en þetta er skilningur forustumanna stórra launþegasamtaka. Ekki var betra hljóðið í fulltrúa BHMR sem tók undir það, og það kom jafnframt fram bæði frá fulltrúa ASÍ og Verkamannasambandsins, að lítið sem ekkert samráð væri haft við þá um eitt né neitt. Það lá í orðum þessara ágætu manna að eitt aðalátakamál komandi kjarasamninga verður að sækja það til baka sem núv. hæstv. ríkisstjórn er að gera. Það má furðu sæta að núv. hæstv. ríkisstjórn skuli ekki a.m.k. leita eftir samvinnu og samráði við aðila vinnumarkaðarins um margar erfiðar ákvarðanir og taka þá áhættu sem í því felst að hér geti allt logað í verkföllum vegna þess að engir tilburðir hafa verið hafðir uppi um samvinnu við helstu hagsmunasamtök í landinu. Ég held að lýðræði á Íslandi hafi ekki byggst upp á þessum vinnubrögðum fram að þessu og ef hafa verið tekin upp önnur vinnubrögð af pólitískum öflum í landinu, hver svo sem þau hafa verið, hefur þeim verið hrundið. Því má það merkilegt teljast að þessu skuli halda áfram.
    Þetta var nokkur útúrdúr. Tilefni þessara ummæla var sú spurning mín til hæstv. sjútvrh. hvernig hann hyggist vinna að því, í framhaldi af þeim átökum sem hafa orðið um þetta mál hér á Alþingi og þeirri staðreynd að flestallir ef ekki allir hagsmunaaðilar mæla gegn samþykkt frv., að ná víðtæku samkomulagi um mótun sjávarútvegsstefnu sem hann var að skjóta til okkar í sjútvn. í nefndu bréfi og hvernig hann ætlar að komast hjá því að rekinn verði fleygur á milli dreifbýlis og framleiðslu annars vegar og þéttbýlis og þjónustu hins vegar, en hann sagði í þessu bréfi að nýjar álögur á sjávarútveginn umfram aðrar atvinnugreinar hefðu það í för með sér.
    Er ekki alveg ljóst að verið er að ætlast til þess að sjávarútvegurinn greiði rannsóknakostnað vegna hafrannsókna í landinu? Er ekki alveg ljóst að ekki eru gerðar samsvarandi kröfur til iðnaðar og landbúnaðar og jafnvel verslunin hefur einhver framlög á fjárlögum ríkisins? Ég held því að ekki verði á móti því mælt að verið er að leggja á sjávarútveginn umfram aðrar atvinnugreinar. En hvað svo sem öllu þessu líður er þetta það mikilvægasta sem ég vil fá svarað áður en þetta mál fer áfram til 3. umr.: Er þetta fyrsti vísir að því sem koma skal? Er það rétt hjá hæstv. núv. utanrrh., sem ætlaði að koma hér klukkan hálftvö en er ekki kominn enn? Ég tel að því verði að svara.
    Ég hef engan áhuga á því, hæstv. forseti, að standa hér í ræðustól þar til hæstv. utanrrh. kemur og vil ekki fara þess á leit við hæstv. forseta því að ég veit að það er ekki í hans valdi að koma ráðherrum í hús og hann hefur þegar gert tilraun til þess. Ég á hins vegar rétt á því að taka aftur til máls í þessu máli og vænti þess þá að tryggt verði, hvenær svo sem það verður, að hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. verði hér viðstaddir og hæstv. forseti taki þá tillit til þess og reynt verði að haga mælendaskrá með þeim hætti að ég fái í annarri ræðu minni við þessa umræðu að eiga orðastað við þá þó að mér þyki eiginlega heldur miður að þurfa að eiga orðastað við þá og hafa ekki möguleika á að taka aftur til máls. Ég er þó tilbúinn til að láta mér það lynda því að ég veit að ýmsir aðrir þingmenn hér á hv. Alþingi eru tilbúnir til þess og hafa áhuga á að fylgja því máli eftir.

    Að lokum skora ég á hæstv. ríkisstjórn að láta þetta mál bíða, fresta afgreiðslu þess. Það er ekkert sem rekur á eftir því. Hér eru miklir hagsmunir í húfi. Það stangast algjörlega á við ýmsar yfirlýsingar stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar, ég tala nú ekki um allt það sem þeir sögðu í kosningabaráttunni, og ég sé m.a. fyrir framan mig hv. 5. þm. Austurl. sem ég vænti að hafi kynnt sér vel hvað hér er verið að gera. Það stangast a.m.k. algjörlega á við þann málflutning sem hann hafði í frammi í síðustu kosningabaráttu. Það er kannski með það eins og allt annað að það skiptir engu máli hvað menn sögðu þá og stefna Alþfl. öll komin ofan í skúffur. Sá hv. þm. ætlaði að vísu að breyta þeirri stefnu og gera hana betri, en það er alveg ljóst að þetta frv. hefur gengið í þveröfuga átt og þar af leiðandi ætti hv. 5. þm. Austurl. að beita sér fyrir því að þetta mál fái að bíða í einhverjum skúffum og verði tekið upp þegar þetta stóra mál kemur til umræðu hér á Alþingi og til endurskoðunar í samræmi við lög þar um og í samræmi við ákvæði laga um þetta tiltekna mál.