Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

63. fundur
Fimmtudaginn 09. janúar 1992, kl. 17:32:00 (2617)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Þetta er svolítið sérkennilegur máti við að koma fram með spurningar en allt í lagi með það. Mig langar samt fyrst til þess að segja það að mér finnst síðari spurningin líkust hártogun. Ég þykist hafa greint frá því að ég geri skýran greinarmun á því að allt samfélagið á að standa undir hafrannsóknum. Ég er alveg ákveðin í því og neita því að það sé bara hagsmunamál útgerðarinnar. Ég geri mér jafngóða grein fyrir því og hv. þm. að útgerðin er hluti af þjóðfélaginu en ekki allt þjóðfélagið. Ég vona að við þurfum ekki að fara að ræða þetta aftur. Annars verð ég bara að biðja um orðið aftur.
    Í öðru lagi í sambandi við nál., ég er að vísu ekki með það í höndunum hér en ég þykist hafa gripið það mætavel í sambandi við auðlindaskattinn. Ég get alveg tekið undir það að verið er að fara út á þá braut sem við getum kallað auðlindaskatt. Ég skil ekki alveg vandamálið. Ég skil ekki af hverju hann hefur áhyggjur af sálarheill minni vegna þessa. (Gripið fram í.) Mér heyrðist að það væri helst það að hafa áhyggjur af minni sálarheill í sambandi við stefnu Kvennalistans. Ég þykist ekkert hafa farið á skjön við stefnu Kvennalistans og ég skildi spurninguna ekki. Hins vegar þakka ég umhyggjuna. Ég held að þetta sé sams konar misskilningur og í sambandi við það þegar hv. þm. vísaði til annars dæmis okkar kvennalistakvenna. Við erum í engum vandræðum með afstöðu okkar til álversins. Ég ætla hins vegar ekki að fara að draga það inn í þessa umræðu, það er á ábyrgð hv. 17. þm. Reykv. að fara út í svoleiðis mál.