Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

63. fundur
Fimmtudaginn 09. janúar 1992, kl. 18:00:00 (2624)

     Frsm. minni hluta sjútvn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Ég vildi aðeins benda á í þessu sambandi að sjávarútvegurinn hefur lengi greitt verulegan hluta af kostnaði Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og það hefur verið skilningur ríkisstjórna fram á þennan dag að hafrannsóknir væru ekki málefni sjávarútvegsins eingöngu heldur þjóðarinnar í heild á sama hátt og menn hafa litið á ýmsar rannsóknir á landi sem rannsóknir vegna þjóðarheildarinnar en ekki vegna tiltekinnar atvinnugreinar. Það er afar mikilvægt að hafa í huga þegar um þetta er rætt en ef það er skilningur hæstv. forsrh. að hafrannsóknir séu eingöngu sjávarútvegsins vegna þá má vera rétt að túlka það með þeim hætti að það sé verið að leggja á sjávarútveginn eitthvað sem aðrar atvinnugreinar hafa greitt í meira mæli fram á þennan dag. Ég tel mjög varhugavert að líta svo á enda á sjávarútvegurinn ekki auðlindir hafsins. Það er þjóðin sem á þær og það er staðfest í lögum og ef á að fara að líta svo á að sjávarútvegurinn eigi að fara að borga allan þann kostnað sem varðar þær mikilvægu auðlindir þá finnst mér að í því felist viss viðurkenning á því að sjávarútvegurinn eigi auðlindirnar. En það má aldrei verða þótt sjávarútvegurinn hafi nýtingarréttinn á þeim auðlindum sem þekkjast í dag þá má það aldrei verða að einhverjir tilteknir aðilar eigi þennan rétt.