Samþykkt ríkisstjórnarinnar um GATT

64. fundur
Föstudaginn 10. janúar 1992, kl. 15:28:00 (2649)

     Eyjólfur Konráð Jónsson :
     Hæstv. forseti. Ég veit að tíminn er liðinn en spurningu var varpað fram til mín sérstaklega af hv. þm. Guðna Ágústssyni um það hvort GATT væri yfirþjóðlegt vald og ætlaðist hann til að ég svaraði því. Sagði raunar að ég væri mjög lögfróður maður. Ég get ekki svarað því hvernig skilgreint er nákvæmlega hvað sé yfirþjóðlegt nú á dögum. Það eru örar breytingar sem ganga yfir okkur, sumar af því góða aðrar kannski miður. En ég get þó sagt að GATT er ekki með sama hætti yfirþjóðlegt og t.d. Evrópubandalagið og jafnvel Evrópska efnahagssvæðið og menn eru ekki bundnir af því að vera til eilífðarnóns í GATT. Við höfum það meira og minna í hendi okkar. Það er ekki eins varasamt að ánetjast GATT, við erum jú í GATT, eins og sumum öðrum bandalögum en því miður þá get ég ekki svarað þessu sem mjög lögfróður maður vegna þess að lögfræðinga sjálfa greinir auðvitað á um það hvað sé alþjóðlegt þegar breytingarnar eru jafnörar og raun ber vitni.
    Ég ætla ekki að níðast á hæstv. forseta og hans biðlund og er þess vegna að hætta en nota þetta tækifæri til að auglýsa hér ef það hefur farið fram hjá einhverjum nefndarmönnum í utanrmn. og landbn. að sameiginlegur fundur beggja nefnda verður núna kl. hálffimm.