Lánsfjárlög 1992

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 14:29:00 (2687)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það er að vísu mála sannast að ræða hv. 18. þm. Reykv. fjallaði um flest annað en lánsfjárlög. Sá hluti ræðu hennar sem hún beindi sérstaklega til mín og þingflokks Alþfl. varðaði lánsfjárlög alls ekki neitt. Eigi að síður tel ég að ræðan hafi verið góð eins og reyndar flestar ræður sem þessi

ágæti hv. þm. hefur flutt í þessum sölum. En hún sýnir það hins vegar að margt hefur breyst og margt það sem henni bersýnilega og sennilega Kvennalistanum öllum þykir í dag vera afskaplega gott úr fortíð Alþfl. hefur tíminn í raun og veru dæmt úr leik, sumt en ekki allt. T.d. nefndi hún að Alþfl. hefði viljað efla samyrkjubyggðir og mér skildist á máli hennar að Kvennalistinn vildi svo enn þá, þetta herrans ár 1992 þegar sagan er einmitt búin að dæma þetta fyrirbæri, samyrkjubyggðir, alls staðar úr leik og samyrkjubú t.d. í sovésku lýðveldunum eru nú unnvörpum að breytast í einkafyrirtæki. Með söknuði talaði hún líka um þann tíma þegar Alþfl. vildi beita sér fyrir því að ríkið setti fjárframlög í opinbera útgerð, bæði til ríkis og sveita. Ég vorkenni Kvennalistanum ef þetta er stefna hans í dag.
    Sömuleiðis er ljóst að tíminn hefur breytt hlutum. Þegar Alþfl. vildi koma á ríkiseinokun á lyfjum árið 1934 var það þarft mál, en það er ekki svo í dag eins og allir vita. Hins vegar kemur líka fram að það er margt sem staðist hefur tímans tönn og margt sem Alþfl. hefur bersýnilega staðið við eins og t.d. að draga úr óþarfa eyðslu, eins og t.d. að koma á fullkomnum alþýðutryggingum og síðast en ekki síst, og ég skildi nú ekki af hverju hún beindi því sérstaklega til þess sem hér stendur, vildi Alþfl. 1934 að skólagjöld yrðu afnumin. Það vill formaður þingflokks Alþfl. enn þann dag í dag alveg eins og afi hans á fyrri tíð. En þetta atriði sýnir hve stefnan er að mörgu leyti úrelt, hv. þm. Skólagjaldakommentið sem hún las áðan var að efnilegustu nemendur úr alþýðustétt yrðu efldir til mennta. Þetta viljum við ekki í dag. Við viljum ekki að efnilegustu nemendur verði efldir til mennta, við viljum að allir nemendur verði efldir til mennta. Og ég vænti þess að Kvennalistinn sé þessu sammála.