Afstaða ríkisstjórnarinnar til samninga um sölu á saltsíld til Rússlands

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 16:12:00 (2706)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Virðulegi forseti. Það hefur nú komið á daginn að hæstv. ríkisstjórn þorir enga ábyrgð að taka þó um sé að ræða ótvíræða viðskiptahagsmuni. Hún talar mikið um ábyrgðarleysi fyrrv. ríkisstjórnar sem lagði mikið upp úr því að halda atvinnulífinu gangandi. En hæstv. ríkisstjórn vill enga áhættu taka og verður það að teljast ámælisvert þar sem hér eru miklir hagsmunir í húfi. Það eru ekki aðeins hagsmunir dagsins í dag sem þarna er um að ræða heldur getur það skipt sköpum upp á viðskiptasamninga í framtíðinni hvernig málið verður afgreitt nú.
    Það kemur reyndar ekki með öllu á óvart hver afstaða ríkisstjórnarinnar er þar sem hún hefur þessa venjulegu ,,kemur-mér-ekki-við``-stefnu þegar um atvinnulíf landsmanna er að ræða. Í viðskiptum verða menn þó alltaf að taka einhverja áhættu. Það þekkja þeir sem þar starfa. Þá verður að vega og meta allar aðstæður. Aðstæður nú eru þannig að við getum ekki hafnað slíkum samningum þó að ekki sé gulltryggt hvernig um greiðslu verði.
    Við höfum á liðnum árum haft mikil viðskipti við hin gömlu Sovétríki sem nú eru ekki lengur til. Hér er um einhverja stærstu síldarsölu síðustu áratuga að ræða. Það hafa verið erfiðleikar í rekstri Landsbankans á síðustu mánuðum og bankinn telur sig ekki geta óstuddur tekið þá áhættu sem þessum viðskiptum fylgir. Með því að hafna beiðni um lán til utanríkisviðskiptabanka Rússlands er Landsbankinn að fara eftir ráðleggingum stjórnvalda og Seðlabankans. Á sama tíma liggur fyrir að við ættum að geta fengið þarna greitt í einhverjum þeim vörum sem við höfum hingað til keypt af Rússum, t.d. olíu.
    Ástandið í Rússlandi er mjög bágborið. Efnahagur landsins er í molum og fæðuskortur er mikill. Það er því mikið verk sem bíður hinna nýju stjórnenda. Þeir flokkar sem skipa hæstv. ríkisstjórn Íslands hafa fagnað því mjög að Sovétríkin skuli vera liðin undir lok, en þeir vilja ekki rétta litla fingur til aðstoðar við uppbyggingu þá sem hlýtur að fylgja í kjölfarið. En fólkið er þarna enn þá. Það þarf á þessari vöru að halda. Allir þekkja þann fæðuskort sem í þessum löndum hefur ríkt og það ástand hefur ekki batnað á síðustu mánuðum. Við Íslendingar ættum líka að taka tillit til þess að þessar þjóðir sárvantar þau matvæli sem hér um ræðir.