Lánsfjárlög 1992

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 19:08:00 (2725)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Mér fannst þetta athyglisverð ræða og nú langar mig til að spyrja, ef ég má, hv. þm. að því hvaða leið hann telur besta frá hans sjónarhóli til að breyta þeirri neyslu sem verður til vegna þess að það er misræmi á milli útflutnings og innflutnings í það að í stað neyslunnar komi fjárfestingar á borð við þær sem hann nefndi. Vill hann draga úr einkaneyslunni með hærri vöxtum, með hærri sköttum eða með hvaða aðferðum? Hv. þm. orðaði það svo að það þyrfti ekki annað en breyta þessari neyslu í fjárfestingar. En til þess þurfum við einhvers konar tæki. Þau eru til og þau eru þekkt. Það tæki sem hefur virkað einna best er vextirnir eins og komið hefur í ljós á fyrra ári, en sú aðgerð hæstv. ríkisstjórnar að hækka vextina þá varð til þess að það dró mjög úr innflutningi síðustu mánuði ársins og væntanlega á fyrstu mánuðum þessa árs þannig að viðskiptahallinn er talsvert minni en á horfðist. Þannig er hægt að nota það tæki. Það er vissulega hægt að nota skatta. Og ég spyr hv. þm. hvort hann vilji vera svo góður að upplýsa okkur hér um hvora leiðina hann vill heldur fara.