Lánsfjárlög 1992

66. fundur
Þriðjudaginn 14. janúar 1992, kl. 19:12:00 (2727)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Ég hafði óskað eftir nærveru hæstv. samgrh. sem er ekki við, en ég vænti þess að þegar kemur að síðari hluta ræðu minnar verði hæstv. samgrh. við þannig að ég geti beint til hans athugasemd.
    Ég tel óhjákvæmilegt að ræða efnahagsmál í tengslum við það frv. sem fyrir liggur. Hæstv. fjmrh. heldur því fram að núv. ríkisstjórn hafi minnkað viðskiptahallann með því að hækka vexti. Hæstv. fjmrh. gerir sér ekki grein fyrir því að á sínum valdatíma hefur ríkisstjórnin hækkað raungengi íslensku krónunnar um 9%. Hæstv. fjmrh. þyrfti að íhuga hvort ekki væri öruggt að hér yrði almennt hrun ef þeir hækkuðu nú raungengi krónunnar um svona 30% til viðbótar. Er hæstv. fjmrh. ekki ljóst að ríkisstjórnin er að búa til kreppu í þessu landi? Er hæstv. fjmrh. ekki ljóst að með fjöldagjaldþrotum, sem er afleiðing þeirrar stefnu sem hér er fylgt, er verið að skapa kreppu í landinu? Er hæstv. fjmrh. ekki ljóst að aðaltekjur ríkissjóðs eru veltuskattar? Og hvað er hæstv. fjmrh. að gera? Hann er í reynd að minnka umsvif hins íslenska þjóðfélags, hann er að leiða það yfir þjóðina að allar þær hugmyndir sem ríkisstjórnin er með til sparnaðar duga ekki sem mótvægi gegn þeim gífurlegu kreppuáhrifum sem núv. ríkisstjórn hefur komið á með sínum aðgerðum. Og hvað er hæstv. ríkisstjórn að hæla sér af því að hún vilji markaðshyggju, ríkisstjórn sem bindur gengið fast, notar handaflið til að halda því uppi, til að hækka það um 9%? Þetta er ekki ríkisstjórn sem telur rétt að markaðurinn ráði því á hvaða verði íslenskur gjaldmiðill er. Þetta er ríkisstjórn sem notar handaflið og hnefana til að halda því uppi, til að halda uppi eyðslu. Hver einasta ríkisstjórn veit að til þess að ná viðskiptajöfnuði við útlönd þarf að skrá gengi gjaldmiðilsins rétt.
    Hvað er það sem ríkisstjórnir Japans og Þýskalands gera til að tryggja að þessi lönd haldi áfram með hagvöxt ár eftir ár? Seðlabankar þessara landa leggja höfuðkapp á að koma í veg fyrir að gjaldmiðill þýska marksins fari upp, að koma í veg fyrir að japanska jenið hækki. Þeir kaupa upp dollara fyrir óhemjuupphæðir til að reyna að tryggja að dollarinn falli ekki en að þeirra gjaldmiðill haldist ekki of hátt uppi svo að hægt sé að tryggja útflutning frá þessum löndum. En hér hafa þeir heimalningar tekið við, menn með skyggni frá Elliðaánum út á Seltjarnarnes, sem trúa því að himnaborgin á Öskjuhlíðinni tryggi þeim himnaríkisvist þegar þeir hafa stjórnað þessu landi. Nei, það er forskot á sæluna, en það er óvíst að eftirleikurinn verði sem þeir telji.
    Hins vegar er mjög bagalegt, forseti, að á sama tíma sem þessi fundur er nú er hæstv. forsrh. að flytja ræðu, fyrstu ræðuna um vorkomuna sem hann hefur flutt. Hann er að flytja ræðu þar sem verktakar Íslands eru saman komnir og boða það að Ísland sé land tækifæranna. Hefði nú ekki verið ráð að flytja slíkt ávarp hér á Alþingi Íslendinga, m.a. til að auka hæstv. fjmrh. bjartsýni, trú á landið, trú á íslensk fyrirtæki, trú á íslenskan iðnað? Hvað er að gerast? Hvar er foringinn mikli hjá íslenskum krötum, Jón Sigurðsson, sem hefur séð um íslenskan iðnað, en nú er svo komið að 81% af tekjum þjóðarinnar er úr sjávarútvegi? Hvar er sóknin í íslenskum iðnaði? Hvar er trúin á íslenskar hendur?
    Það er ömurlegt til þess að vita að dag eftir dag hafa menn verið að drepa íslensk fyrirtæki, setja menn í gjaldþrot vegna þess að menn neyddu þá til að búa við óraunhæfa skráningu á íslensku krónunni. Það er verið að hækka gengi íslensku krónunnar til að skapa hér kreppu, til að reyna að hræða alþýðu manna frá því að heimta sinn rétt. Og hæstv. fjmrh. kemur upp og biður um leiðbeiningar hvernig eigi að draga úr viðskiptahallanum. Hæstv. fjmrh. telur að það sé hægt að hækka svo vexti í landinu að viðskiptahallinn hverfi, hæstv. fjmrh. virðist trúa þessu, og framleiðslan dragist saman.
    Það verður að segjast eins og er að hafi einhvern tíma verið nauðsyn að forsrh. þessarar þjóðar talaði af bjartsýni, þá er það núna. Og ég verð að segja eins og er að mér þykir mjög miður að hafa verið í þeirri aðstöðu að geta ekki hlýtt á hæstv. forsrh. Inngöngugjaldið var að vísu 10 þús. kr. fyrir að mæta á þennan fund og fá að hlusta á bjartsýnisspána, en það hefði verið vel þess virði miðað við þá stöðu sem við erum komnir í með íslenskt þjóðfélag. En ég var búinn að setja mig á mælendaskrá til að ræða um þau lánsfjárlög sem hér liggja fyrir.
    Ég hef verið að fylgjast með þróuninni í Austur-Evrópu. Ég hef verið að fylgjast með lýðræðisvorinu mikla þar sem kommúnistar hafa lagt niður stjórn, þar sem vestrænt hagkerfi er í sókn. Og hvað er að gerast? Það er ekki hægt að eiga viðskipti við þá. Undir forustu Stalíns samdi Bjarni Ben. um sölu á síld til Rússlands, en þegar Jeltsín tók við þorir Jón Baldvin ekki að tala við hann. Hann er að taka við orðum frá Litáen. Það er stutt að fara yfir og semja nú um sölu á síld. Nei. Það er sko ekki handverk sem hentar hæstv. utanrrh. Sala á síld, hvað er það? Einn milljarður í sjóinn vegna þess að þeir sem í dag hafa fengið það verkefni að sjá um viðskiptasambönd fyrir þessa þjóð eru í leikaraskap úti í heimi í stað þess að sinna þeim verkefnum sem þeim ber. Og hæstv. fjmrh. trúir því að ráðið til að rétta við ríkissjóð sé að draga úr umsvifum hins íslenska þjóðfélags. Hefur hann kynnt sér fjárlögin? Hefur hann skoðað hve stór hluti af tekjuhlið fjárlaganna er kominn vegna veltu? Það er ekki skrýtið þó að það sé erfitt að sinna því starfi að vera formaður í fjh.- og viðskn. þingsins þegar það er stöðugt verið að draga saman íslenska þjóðfélagið, þegar stöðugt er verið að þrengja að þannig að minni möguleikar til allra athafna eru að gerast í samfélaginu.
    Það hefði verið vel þess virði að Alþingi Íslendinga hefði greitt 10 þús. kr. til þess að hæstv. fjmrh. hefði farið á fund verktakasambandsins og hlustað á bjartsýnisræðuna hjá formanni sínum, hlustað á vorkomuna í íslenskum efnahagsmálum, hlustað á yfirlýsingarnar um að Ísland væri land tækifæranna. Það hefði verið hægt að fresta þingfundi, herra forseti, til þess að slík fræðslustarfsemi færi fram.
    Nei, við búum ekki við það. Hér við Austurvöll er því haldið fram statt og stöðugt að þetta land sé svo volað að hér sé allt að fara um koll. Þegar viðreisnin hafði setið við völd og var að hverfa frá völdum var Ísland samkvæmt skýrslum OECD með 12. hæstu þjóðartekjur í heiminum, 12. landið. Þegar framsóknaráratugurinn var búinn, 1970--1980, vorum við komnir í 4. sæti. Þegar ríkisstjórn undir forustu Framsfl. hætti og þessi tók við vorum við í 6.--7. sæti með þjóðartekjur á mann. Þetta eru staðreyndirnar. Heimildirnar eru í riti sem Orkustofnun gaf út. Orkustofnun heyrir undir iðnrh., hagfræðinginn mikla sem nú leiðbeinir ríkisstjórninni í því hvernig eigi að knésetja íslenskt atvinnulíf. Það þarf að aga íslenskt atvinnulíf. Það er trúin mikla hjá hæstv. iðnrh. Það er ekki skrýtið þó að hjá þjóð sem býr við það að þjóðartekjur á mann eru þær 7. hæstu í heimi eigi að boða að allt sé gersamlega búið, framtíðin hrunin, fortíðarnefnd sett á laggir. Það væri gaman að vita hvert tímakaupið hefði verið hjá fortíðarnefndinni. Það væri gaman að fá upplýst hvað þeim hefði verið greitt á tímann fyrir að reyna að drepa kjarkinn í íslenskri þjóð. Hvað skyldi vera greitt á tímann fyrir slíka vinnu? Sjá menn ekki sjónarspilið?
    Og það er sagt að menn eigi að vera ábyrgir. Það á ekki að leika sér með fjármuni þjóðarinnar. Hvað gerði hæstv. forsrh. þegar hann var borgarstjóri Reykjavíkur? Hvar stendur það í stofnskrá um Hitaveitu Reykjavíkur að hún eigi að greiða kostnað við að byggja upp veitingasölu sem ekki einu sinni stendur undir eigin rekstri, borgar ekki krónu í arð af fjárfestingunni, ekki eina einustu krónu? Borgar ekki einu sinni það sem kostar að reka fyrirtækið! Hvað skyldu þeir hugsa hinir sem eru með veitingarekstur í landinu og borga skatta og skyldur til þjóðfélagsins og borga m.a. þessa uppbyggingu með því að greiða fyrir heita vatnið? Það er sérstæð staða að þessi hæstv. forsrh. skuli láta sér detta í hug að hann geti boðað að það eigi að sýna ráðdeild.
    Er þetta þá bara það eina sem hæstv. forsrh. hefur misstigið sig? Hvað með bygginguna miklu fyrir endurnar á Tjörninni? Það hefur enginn sýnt öndunum aðra eins virðingu að byggja hús í Tjörninni þannig að það er hægt að gefa þeim út um glugga! Er það bygging sem mun þá auka hagvöxtinn á Íslandi á næstu árum og skila arði samkvæmt kröfum frjálshyggjunnar? Hver verður arðurinn af fjármagninu sem þarna er? Það er vitað að til þess að byggingin flyti ekki upp varð að bora sérstaklega niður til að fá undir hana festur til að koma í veg fyrir að hún mundi fljóta á Tjörninni eins og Örkin forðum!
    Nei, því miður búum við við það að við höfum hæstv. forsrh. sem vafalaust hefði getað orðið einn af fremstu skemmtikröftum þjóðarinnar hefði hann haldið áfram á þeirri braut sem á sínum tíma vakti gleði margra þegar hann ásamt fleiri stóð að útvarpsrekstri. Það þarf líka hæfileika til þess. Ég er ekki með þessu að gera lítið úr því framtaki á sínum tíma því að ég hafði gaman af því á sínum tíma og tel að það hafi vakið bjartsýni manna og áræði að geta stundum ,,svissað yfir`` á útvarp Matthildi og haft af því skemmtun. Og svo horfum við á það að þjóðin, miðað við þessar þjóðartekjur á mann, virðist vera komin í þá aðstöðu að til þess að draga úr baráttuhug hennar er aðalatriðið að brjóta hana niður, brjóta hana niður með áróðri, brjóta hana niður með því að fortíðarvandi Íslendinga sé slíkur að hér sé ekkert hægt að gera vegna hans.
    Nei. Vafalaust má segja sem svo að það hefði ekki átt að fara á sjó þegar ekki veiddist, þá hefðu skipin átt að vera í landi. En þessi þjóð hefur sótt sjóinn. Stundum hefur veiðst vel, stundum verið minna og menn hafa bara ekki alltaf vitað það fyrir fram áður en þeir fóru í róður hvort þeir fengju nú fisk eða ekki. Þetta hefur sem sagt verið áhætta. Og alveg eins er það með söluna á síldinni. Það er áhætta. Við höfum horft á það á undanförnum kvöldum þegar farið hefur verið yfir síldarsögu Íslands og séð hvernig auðurinn skapaðist og hvernig allt hrundi. Menn tóku áhættu, menn þorðu að taka áhættu. Nú er aftur á móti svo komið að menn þora ekki að semja við heiðarlega kapítalista um sölu á síld. Það er ekki verið að tala um að semja við einhverja kommúnista sem væri vísir til að skjóta mann. Það er verið að tala um að semja við heiðarlega kapítalista sem hafa lofað því að þeir skuli virða þá samninga sem kommúnistarnir gerðu varðandi kjarnorkuvopnin.
    Ég verð að segja eins og er að mig undrar ekki þó að sú ríkisstjórn, sem hefur tapað svo trúnni á viðskiptahæfileika sinna þegna að hún treystir sér ekki til að standa að síldarsölu til Rússlands, sé í vanda. Sú ríkisstjórn á sér raunverulega ekki viðreisnar von. Hún hefði ekki bjargast á síldarárunum miklu. Hún hefði sett þetta allt í bræðslu, ekki dottið annað í hug, í von um að hægt væri að selja þá mjöl eða eitthvað annað. ( Forseti: Forseti vildi spyrja hv. 2. þm. Vestf. hvort hann er tilbúinn að fresta ræðu sinni núna eða hvort hann vill e.t.v. ljúka henni ef ekki er mjög langt mál eftir.)
    Herra forseti. Ég á eftir þann hluta ræðunnar sem fjallar um samgöngumál og vil af þeirri ástæðu gjarnan fresta henni þar sem hæstv. samgrh. hefur ekki haft tök á því að vera viðstaddur.