Lánsfjárlög 1992

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 13:54:00 (2729)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Það liggur á þessari stundu ekki ljóst fyrir hvernig háttað verður siglingum fyrir Vesturlandi og Vestfjörðum til Akureyrar sem nú er þjónað af Heklu og þess vegna erfitt að tala um það í einstökum atriðum. Það eru tvær hafnir sem hv. þm. spurði um. Annars vegar var Bíldudalur. Á árinu 1990 voru farmtekjur þangað 1.351 þús. kr. eða frá Bíldudal og til Bíldudals 2.791 þús. kr. Þetta eru þeir flutningar sem þar er um að ræða. Það er rétt sem hv. þm. segir að mjög brýnt er að ljúka veglagningu yfir Hálfdán, sérstaklega að norðanverðu, og er einn liður í því að reyna að koma á hafnasamlagi þar á suðurfjörðum. Skal ég ekkert um það segja hvernig þeirri samvinnu verði að öðru leyti háttað en þar er um brýna framkvæmd að ræða og skýrir glögglega hversu mikilvægt er að samræma þau opinberu framlög sem veitt eru til einstakra þátta samgöngumála. Vegáætlun er nú í endurskoðun þó ekki hafi gefist færi til þess að gera grein fyrir henni í þinginu. Ég hef afráðið að fara vestur og ræða við menn í þeim sveitarfélögum sem hv. þm. minntist á.
    Um Norðurfjörð er það að segja að flutningar þangað á síðasta ári námu 975 þús. kr., á árinu 1990, og 819 þús. kr. frá Norðurfirði. Þar er um sérstakt verkefni að ræða sem verður leyst, spurningin er einungis hvernig en ekki hvort.