Lánsfjárlög 1992

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 15:27:00 (2734)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Það sem ég vil fá að víkja að fyrst og hv. 7. þm. Reykn. talaði um síðast er að hluta til framhald umræðu sem átti sér hér stað utan dagskrár í gær að tilhlutan hv. 4. þm. Austurl. Það snertir bréfaskipti Landsbankans, ríkisstjórnar og Seðlabanka varðandi fyrirgreiðslu bankans vegna síldarsöltunar, síldarsölu og viðskiptasamnings milli Rússlands og Íslands. Ég hygg að ég hafi orðað það þannig í gær að það hafi verið mitt mat að ríkisstjórnin hefði ekki þurft að gera ráð fyrir því að svar hennar mundi leiða til þess að Landsbankinn félli frá fyrri yfirlýsingum sínum. Áður en Landsbankinn ritaði ríkisstjórninni bréf hafði a.m.k. einn af bankastjórum hans opinberlega sagt, og ég geri ráð fyrir því að það hafi verið í umboði bankans alls, að bankinn væri reiðubúinn að veita tiltekna fyrirgreiðslu upp á tiltekna upphæð, nálægt 800 millj. ísl. kr., hinum nýstofnaða rússneska banka sem þar var tilgreindur. Jafnframt ákveður bankinn, eftir að hann hefur lýst því yfir að hann sé reiðubúinn að veita slíkt lán, að leita eftir afstöðu ríkisstjórnarinnar. Ef bankinn vildi á annað borð leita eftir afstöðu ríkisstjórnarinnar, af því að hv. 7. þm. Reykn. er bankaráðsmaður, hefði ég talið eðlilegra að áður en bankinn gæfi afdráttarlausa yfirlýsingu um að hann væri reiðubúinn að annast slíka fyrirgreiðslu, hefði hann borið sig upp við ríkisstjórnina. Það gerði bankinn ekki. Eftir að bankinn hafði tekið fram að hann væri reiðubúinn til að veita slíka fyrirgreiðslu sneri hann sér til ríkisstjórnarinnar. Ég tel að eftir slíka yfirlýsingu bankans hefði ríkisstjórnin orðið að gefa afdráttarlaust neikvætt svar, lýsa yfir neikvæðri afstöðu ef bankinn átti að fá efnislega ástæðu til þess að hverfa frá fyrri yfirlýsingu sinni gagnvart þessum viðskiptaaðilum. Ég hygg að ég hafi orðað það nokkurn veginn þannig í gær, ég er ekki með textann fyrir framan mig, að ríkisstjórnin hafi ekki þóst sjá neina ástæðu til þess, í því svari sem við veittum, að bankinn félli frá þeim yfirlýsingum sínum að verða hinn fyrsti banki í vestrænum heimi til þess að lána hinum nýstofnaða banka peninga. En Landsbankinn hafði lýst yfir að hann væri reiðubúinn til þess.
    Ég sagði jafnframt að þar sem bankinn væri svona reiðubúinn til þess að standa að fyrirgreiðslu upp á 800 millj. kr. þá hlyti hann að taka til vinsamlegrar meðhöndlunar og ákvörðunar þá beiðni sem opinberlega hafði komið fram frá síldarútflytjendum að bankinn kæmi, þótt í minna mæli væri, til móts við þessa aðila og stæði fyrir lánafyrirgreiðslu við hinn nýstofnaða rússneska banka. Í því sambandi nefndu menn mun lægri upphæðir opinberlega, 300--400 millj. kr.
    Ég skal ekki um það segja hvort einhver ágreiningur hefur verið innan bankans sem leiddi til þess að menn kusu að snúa sér til ríkisstjórnarinnar og túlka síðan svar hennar með þeim hætti að bankinn væri ekki bundinn af yfirlýsingum sínum eins og gerðist. Ég er ekki sáttur við þá meðferð bankans en ég tel að hún sé algerlega á ábyrgð hans. Fyrst bankinn kaus að snúa sér til ríkisstjórnarinnar með einu bréfi með engum útskýringum í raun á þessum rússneska banka, þá var óhjákvæmilegt, ef ríkisstjórnin átti að veita eitthvert svar við erindi af þessu tagi, að ríkisstjórnin aflaði sér einhverra upplýsinga um þennan banka. Reyndar tel ég að slíkar upplýsingar hefðu átt að koma fram og fylgja fyrirspurn bankans til ríkisstjórnarinnar. Það var ekki. Ríkisstjórnin fór þá leið við þessa athugun, sem eðlilegust var, snúa sér til Seðlabankans. Seðlabankinn aflaði upplýsinga, ekki ítarlegra upplýsinga, annars staðar um stöðu þessa banka.
    Hv. þm. spurði hvort ekki væri hægt að birta þessi bréf. Ég get sagt fyrir mitt leyti að gagnvart ríkisstjórninni sé ég ekkert á móti því. Ég skal hins vegar ekki segja hvort bankanum finnist það heppilegt að bréfaskipti um þriðja bankann, banka sem allir tala um að þeir vilji eiga góð viðskipti við, verði birt opinberlega. Ég hef fyrir mitt leyti ekkert á móti því ríkisstjórnarinnar vegna. Það er þá mat bankans hvort hann telji það eðlilegt og heppilegt upp á frambúðarsamskipti þessa banka ef hann á eftir að verða grundvallarbankastofnun í þessu stóra ríki sem nú er að ganga í gegnum mjög mikla erfiðleika eins og mönnum er kunnugt.
    Hv. 8. þm. Reykn. ræddi fjölmörg atriði, bæði í ræðu og spurnarformi. Sumum spurningunum beindi hann til mín, öðrum til fjmrh. Ég varð því miður að fara frá augnablik og bið forláts á því, fékk áríðandi hringingu sem ég gat ekki látið bíða, en fer ekki að jafnaði í símann ef ég ætla mér að hlusta hér á ræður manna. Ég varð að gera það í þessu tilviki og bað ræðumanninn afsökunar á því þegar ég gekk úr salnum. Það voru allmargar spurningar þegar komnar frá hv. þm. og síðan bættust fleiri við þegar ég kom í salinn á nýjan leik, ekki síst varðandi vaxtamál. Reyndar voru þær spurningar að sumu leyti mjög fróðlegar með hliðsjón af öðrum umræðum sem hér áttu sér stað vegna þess að spurningunum fylgdu líka ákveðnar fullyrðingar þingmannsins, fullyrðingar sem stangast t.d. algerlega á við kenningar hv. 7. þm. Reykn. um vaxtamál og hagfræðileg efni. Til að mynda sagði hv. 8. þm. Reykn. að hann vildi í allri vinsemd, ég held að hann hafi orðað það þannig, sem ég efast ekkert um, fullyrða og benda mér á að ef ríkissjóðshallinn yrði 6--7 og jafnvel 8 milljarðar kr. en ekki 4 eins og ríkisstjórnin hefði stefnt að og slíkt kæmi í ljós á vordögum, að við þær aðstæður mundi engin bankastofnun eða nokkur sá sem vélaði um vaxtamál ljá máls á því að raunvextir lækkuðu nokkurn skapaðan hlut. Ég minnist þess sérstaklega að hv. þm. Steingrímur Hermannsson lagði það tvennt til að hallinn væri aukinn töluvert vegna þeirra aðstæðna sem nú væru og jafnframt væru raunvextir lækkaðir. En í mikilli vinsemd, sem ég efast ekkert um, benti fyrrv. fjmrh. mér á að yrðu kenningar hv. 7. þm. Reykv. að veruleika þrátt fyrir vilja ríkisstjórnarinnar yrði raunvaxtastigið áfram mjög hátt. Þarna hafa þessir tveir ólíku herramenn afskaplega misjafnar skoðanir á því hvaða lögmáli efnahagslífið lúti. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hallast fremur að kenningum fyrrv. fjmrh. í þessum efnum en kenningu fyrirrennara míns. Af þessum ástæðum höfum við einmitt lagt mikla áherslu á að ná halla ríkissjóðs eins mikið niður og mögulegt er við þessar aðstæður og jafnframt lánsfjáreftirspurn ríkisins og ríkisstofnana og orðið nokkuð ágengt. Við teljum að ef útgjöld ríkisins og eftirsókn eftir fjármagni verði áfram í sömu mynd og það var þá verði raunveruleg raunvaxtalækkun afskaplega ólíkleg, svo að ekki sé meira sagt.
    Þingmaðurinn nefndi líka við hefðum farið í leiðangra eins og hann sagði og það var athyglisvert. Nú veit ég að þingmaðurinn fer ekki úr salnum á meðan ég er að tala vegna þess fordæmis sem það kynni að gefa. Hv. þm. nefndi að ríkisstjórnin hefði farið í leiðangur gegn mjög fjölmennum og breiðum hópum, eins og hann orðaði það, og haft

upp úr krafsinu svona 100--200 millj. kr. á hverjum stað. Það fór ekkert á milli mála að þingmanninum fannst þetta til lítils. Ríkisstjórnin færi í mikla herleiðangra og skapaði sér óvinsældir, sem hann hafði bersýnilega áhyggjur af í fullri vinsemd, en hefði mjög lítið upp úr krafsinu og einkanlega yrði þetta nú dapurlegt ef ríkissjóðshalli yrði svo eftir alla leiðangrana 7--8 milljarðar eins og hv. þm. óttaðist að kynni að gerast. Þetta segir okkur reyndar í fyrsta lagi að þessar stórfelldu árásir á stóra og breiða hópa geta ekki verið miklar ef þær skila svona litlu og dreifast á jafnstóran massa og þingmaðurinn nefndi. Þannig að árásir eða athugasemdir þingmanna hafa verið orðum auknar hvað það snertir. Ég vek engu að síður athygli á því að nokkur hundruð milljónir hér og hvar draga sig nú saman og þegar maður leggur þær saman á heilu kjörtímabili verða úr allmargir milljarðar kr. Ég vek einnig athygli á því að langflestar þeirra aðgerða, þó erfiðar kunni að vera, eru gerðar með þeim hætti að þær eru varanlegar, ekki allar en langflestar. Þegar það er dregið saman á einu kjörtímabili sparast mjög mikið fé og skapar efni til stöðugleika og skapar efni til þess að raunvaxtastigið í landinu geti á því sama tímabili verið lægra en ella.
    Hv. þm. nefndi að ég hefði haft orð á því opinberlega að ég vænti þess að skilyrði mundu hafa skapast til þess að vextir mættu lækka með haustinu. Í byrjun sumars sagði ég það vegna þess að því var haldið fram þá að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin greip til --- niðurskurðaraðgerðir og sparnaðaraðgerðir sem náðu þó ekki alveg tilætluðum árangri eins og þingmaðurinn benti á og síðan vaxtahækkanir --- mundu leiða til þess að verðbólgan færi á mikinn hraða. Ég get fundið fjölmargar yfirlýsingar um það. Hún yrði óhemjandi við þessar aðstæður og það hefðu skapast slíkar aðstæður af þeim ástæðum þegar drægi að kjarasamningum. Þess vegna gætu menn ekki gengið til kjarasamninga á grundvelli þjóðarsáttar. Nafnvextir yrðu afskaplega háir vegna verðbólguvæntinga og það mundi leiða til þess að raunvextir af þeim sökum yrðu líka mjög háir. Reyndar er rétt hjá hv. þm. að bankakerfið spilaði töluvert eftir þessum kenningum og ég hef haldið því fram opinberlega að bankakerfið hafi gert það af ásettu ráði, og það hefur reyndar verið viðurkennt, til að bæta sér upp tap sem þeir urðu fyrir á kosningamánuðum þegar haldið var hér uppi fölsku vaxtastigi. Þá spilaði bankakerfið töluvert á þetta og þess vegna lækkuðu þeir nafnvextina miklu hægar en verðbólguþróunin gaf tilefni til. Þeir hafa fengið ávöxt verka sinna. Eftir því sem ég best veit er staða bankanna þokkalegri nú við árslok en menn gerðu ráð fyrir um mitt ár eftir að bankakerfið hafði farið halloka í baráttunni við vindmylluaðferðir vaxtanna í upphafi árs. ( SJS: Hvað eru vindmylluaðferðir?) Nei, það er von að þingmaðurinn skilji þær ekki. (Gripið fram í.) Ég get sagt það með öðrum hætti. Það voru ákveðnar galdralækningaaðferðir sem átti að beita á vormánuðum til þess að skapa vaxtastig sem væri heppilegt í kosningaumræðunni. Það vaxtastig var ekki í samræmi við raunveruleikann og þess vegna töpuðu bankarnir í upphafi árs og vildu bæta sér það á síðari hluta ársins. Þetta eru staðreyndir sem menn þekkja vel og ég var að reyna að tengja slíkar aðgerðir við almenna baráttu efnahagslegra riddara við vindmyllur. Það var nú það sem átti að felast í setningunni. Hún hefur kannski verið knúsaðri en efni stóðu til.
    Ég vek athygli á því að núna er verðbólgan lægri en hún hefur áður verið og góður grundvöllur fyrir því að hún verði áfram lág. Ég tel að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin greip til varðandi ríkisfjármálin með því að ganga hart fram eftir margvíslegum leiðum, sem ekki eru til skammra stunda til vinsælda fallnar eins og þingmaðurinn benti réttilega á, skapi skjól fyrir raunverulega vaxtalækkanir. Ég tel nauðsynlegt að fara þar líka að með varúð þannig að vextir lækki og það verði um varanlega vaxtalækkun að ræða en ekki tilbúna gerninga í þeim efnum.
    Ég vek líka athygli á því að vaxtastig húsbréfa er nokkru lægra en það var hæst áður. Vegna beinna spurninga um það efni er það rétt að ákveðið hefur verið að gefa út húsbréfaflokk upp á 4 milljarða kr. Ef ekkert sérstakt breytist er hugsunin sú að þrír slíkir flokkar verði gefnir út á árinu. Ég tel þær hugmyndir í samræmi við aðrar hugmyndir okkar sem snúa að afstöðu ríkisins gagnvart spennu á vaxtamarkaði. Ég tel að menn geti gert ráð fyrir því að við þessar aðstæður og með þessu hlutfalli húsbréfa og öðrum aðgerðum í ríkisfjármálum sem menn hafa áður rætt, muni raunvextir lækka.

    Þingmaðurinn spurði alþekktra spurninga um hvernig brugðist yrði við ef þetta gengi ekki allt eftir með vorinu. Ég held að það hafi engan tilgang að fjalla um það því að því verður treyst að bankakerfið muni sjálfs sín vegna og viðskiptavina sinna vegna, --- ekki ríkisstjórnarinnar vegna eða mín vegna sérstaklega --- láta vexti vera í samræmi við það verðbólgustig sem þá væri orðið varanlegt. Það hefur ekkert upp á sig í sjálfu sér að vera með vangaveltur um annað, enda býst ég við að við hv. þm. munum fá tækifæri til þess að ræða þau mál þó síðar verði.
    Þingmaðurinn nefndi jafnframt hvort ég gæti svarað einhverju til hér og nú um það með hvaða hætti ríkisstjórnin vildi bregðast við varðandi þætti skattamála í tengslum við kjarasamninga. Ég tel engin efni á því á þessari stundu að fjalla um það. Ég tel engin efni á því að ríkisvaldið komi með beinum hætti inn í þá samninga fyrr en þeir hafa meira nálgast eitt og sameiginlegt borð en þeir hafa enn gert. Kjarasamningar eru enn í því fari að menn hafa verið að þreifa á þáttum sem eru sérstakir fyrir félögin. Það er alveg ljóst að það er ekki æskilegt að beinn atbeini ríkisvaldsins komi til fyrr en eftir því verður leitað og samningar verða komnir á því sem næst eitt borð.
    Ég hygg, herra forseti, að ég hafi svarað helstu spurningum sem hv. þm. beindu til mín en sumum spurningum var reyndar beint sameiginlega til okkar hæstv. fjmrh. sem að meginstofni til fer með forræði þessa máls af ríkisstjórnarinnar hálfu og ég læt honum eftir að svara þeim.