Lánsfjárlög 1992

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 15:47:00 (2735)

     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
     Herra forseti. Vegna þeirrar umræðu sem orðið hefur um bréfaskriftir Landsbankans og viðskrn. vil ég láta koma fram að í fyrsta lagi hefur þetta mál ekki verið lagt fyrir bankaráð Landsbankans, enda ekki bankaráðsins að ákveða útlán. Í öðru lagi hafði ég samband við þann bankastjóra Landsbankans sem bréfið skrifaði og hann hefur ekkert á móti því að a.m.k. bréf hans verði birt. Hann taldi eðlilegt að þetta yrði metið af hæstv. ríkisstjórn, hæstv. forsrh. og viðskrh. Hins vegar byggjast þær umræður sem hafa orðið á þessum bréfum og það er útilokað annað en menn fái að sjá þau og greina til hlítar hvað er rétt í því sem hér hefur verið sagt. Þetta vildi ég láta koma fram um bréfin.
    Í öðru lagi þar sem hæstv. forsrh. vísaði lágum vöxtum til mín þá tel ég ekki rétt að ekki sé unnt að hafa lægri vexti. Ég vísa ekki á minni mann en ágætan kunningja og vin hæstv. forsrh., Bush forseta Bandaríkjanna. Ég hef gert það oft. Það er margt líkt með þessum tveimur löndum. Þar er ástandið slæmt. Þar er afturhaldsstjórn. Þar er mikill halli á fjárlögum. En þar eru lágir vextir. Forsetinn hefur stært sig af því hvað eftir annað að hafa lækkað vextina. Nú eru forvextir þar 3,5% og hann er að reyna með þessu að örva atvinnulíf og þarna greinir svo sannarlega á milli. Ég hef aldrei óskað mér þess að við hefðum Bush, en ég vildi að við hefðum einhvern sem gæti a.m.k. lækkað vextina eins og honum virðist takast í Bandaríkjunum. ( Gripið fram í: Lækka gengið í leiðinni.) Ja, það getur vel verið. Það getur vel verið að það þurfi að lækka gengið í leiðinni, ég skal ekkert um það segja en vextirnir eru að drepa hér allt og það vita allir menn og vextirnir eru ekkert sjálfvirkt tæki sem engin áhrif má hafa á.