Sala Skipaútgerðar ríkisins og þjónusta við landsbyggðina

67. fundur
Miðvikudaginn 15. janúar 1992, kl. 18:32:00 (2759)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
     Virðulegi forseti. Tilgangur umræðna hér í þinginu er að skýra mál. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kvaddi sér hljóðs og bar fram einfalda og mjög skýra spurningu og það vill svo til að spurningunni var hægt að svara með einu orði, já eða nei. Hæstv. samgrh. kaus að koma hér í stólinn í tvígang án þess að svara einu orði þeirri spurningu sem málshefjandi bar fram. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því að honum ber í raun og veru að ræða við ráðherra um það að þegar forseti hefur heimilað hér utandagskrárumræður um tiltekið mál er það skylda ráðherranna að reyna að veita svör við þessum spurningum sem málshefjandi ber fram.
    Þessari umræðu lýkur þannig að ráðherrann hefur ekki svarað þeirri spurningu sem málshefjandi bar fram. Það er mjög vont, hæstv. forseti, vegna þess að það greiðir ekki fyrir gangi mála í þinginu. Mér finnst þess vegna nauðsynlegt að ítreka við hæstv. samgrh.: Er hann ekki reiðubúinn að koma hér upp og segja þetta eina já eðan nei sem hv. málshefjandi Kristinn H. Gunnarsson bað um? Hefur ráðherrann slitið viðræðum við samstarfshópinn eða ekki? Já eða nei? Þetta er ekki leikaraskapur, hæstv. samgrh. Það er hvorki hægt að leika sér með málefni fyrirtækis, sem heyrir undir ráðherrann, með hagsmuni íbúa byggðarlaganna né hagsmuni þess fólks sem að samstarfshópnum stendur eða koma þannig fram við þingið. Hv. málshefjandi Kristinn H. Gunnarsson féllst á að hefja umræður um málið á þessum skamma tíma sem þingsköp leyfa af því að hann bar fram spurningu sem er einföld og skýr. Ég vil þess vegna andmæla því að ráðherrar hagi sér með þeim hætti sem hér hefur gerst, geri enga tilraun til þess að svara spurningunni, víki ekki einu sinni að henni í sinni seinni ræðu, ekki einu orði. Hann átti þess í stað orðastað við aðra þingmenn út og suður með meiri og minni pólitískum skætingi. Þessi stutti tími, hálftími, er til þess að ráðherrar svari spurningum þingmanna, sérstaklega málshefjanda. Þess vegna ber að mótmæla framgöngu hæstv. samgrh. í þessum umræðum. Það vekur auðvitað upp spurningar. Hvað er svona viðkvæmt fyrir ráðherrann í málinu? Við hvað er hann hræddur? Frá hverju er hann að hlaupa? Hvað er hann að fela? Getur hann ekki svarað þinginu því alveg skýrt? Hefur hann slitið þessum viðræðum við samstarfshópinn eða ekki? Já eða nei, hæstv. ráðherra.