Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

68. fundur
Fimmtudaginn 16. janúar 1992, kl. 15:00:00 (2781)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Ég var ekki með neinar dylgjur í garð hæstv. samgrh. hér, ekki nema það séu orðnar dylgjur að bera fram við hæstv. ráðherra tvær spurningar. Ég segi að málstaður hæstv. ráðherra sé ekki góður ef einfaldar spurningar um athafnir hans eru orðnar dylgjur.
    Í öðru lagi er það rétt hjá hæstv. samgrh. að ég beitti mér fyrir og var með í gangi allan tímann, sem ég var samgrh., aðgerðir til þess að reyna að endurskipuleggja og hagræða strandsiglingum. M.a. þvingaði ég nánast önnur skipafélög í landinu saman til viðræðna, liggur mér við að segja, og þær komust það langt að undirritaður var viljasamningur, viljayfirlýsing, ,,letter of intent``, eins og stundum er sagt, um samsiglingakerfi á ströndinni, sem hefði verið stórkostlegt hagræðingaratriði fyrir alla málsaðila, öll skipafélögin og ríkissjóð og Ríkisskip auðvitað sérstaklega. Því miður slitnaði upp úr þeim viðræðum þegar Eimskipafélag Íslands, öllum að óvörum, keypti nýtt skip og setti í siglingar á ströndinni. Þar með döguðu þær uppi. En útgangspunktur þessara viðræðna var allan tímann, hæstv. samgrh.: Ekki lakari þjónusta á ströndinni á viðráðanlegu verði.
    Herra forseti. Ég skal nú ljúka máli mínu, það er hvort sem er ekki tími til að ræða þetta til þrautar hér. En eitt ætla ég að segja við hæstv. samgrh., ef hann hefur ekki skilið það: Lakari þjónusta á ströndinni liggur ekki síst í því að þær innbyrðis samgöngur milli landshlutanna, sem samfellt þjónustukerfi Ríkisskipa hringinn í kringum landið hefur boðið upp á, verða úr sögunni eins og nú horfir. Það er löng leið frá Húsavík hringinn í kringum landið til Raufarhafnar t.d. ef sú á að verða þjónustan. Þetta virðist hæstv. ráðherra ekki hafa skilið miðað við málflutning hans áður.