Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

68. fundur
Fimmtudaginn 16. janúar 1992, kl. 17:04:00 (2801)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Mér finnst ástæða til þess að á þessu stigi málsins komi eftirfarandi fram:
    Í fyrsta lagi. Minnst var á Finna og Íslendinga í sama orðinu og talað um samdrátt hjá báðum þjóðum. Ég vil geta þess að samdráttur á milli ára hér á landi er líklega miðað við landsframleiðslu þrefalt meiri en í Finnlandi samkvæmt upplýsingum OECD en því er ekki saman að jafna.
    Í öðru lagi. Varðandi tilsjónarmennina tek ég undir það með hv. ræðumanni að það er auðvitað full ástæða til þess að stofnanir geti leitað eftir aðstoð. Þeim hefur verið tilkynnt það og er í undirbúningi að tilkynna öðrum sem ekki hafa þegar fengið tilkynningu þess efnis og ég tek undir það sjónarmið.
    Varðandi tilsjónarmennina að öðru leyti vil ég segja að það kemur nákvæmlega fram í frumvarpsgreininni við hvaða skilyrði grípa þarf til þessara ráða. Það er eingöngu þegar sýnt þykir að kostnaður við rekstur þeirra hafi farið fram úr þeim fjárveitingum sem fjárlög ákveða. Þetta getur eingöngu gerst um tiltekinn tíma. Tilsjónarmenn geta verið yfir einni eða fleiri stofnunum. Það svarar kannski þeirri fyrirspurn að þetta þurfa ekki að vera menn í fullu starfi, þeir gætu þess vegna verið starfandi í viðkomandi ráðuneytum.
    Í þriðja lagi er ljóst samkvæmt orðanna hljóðan að það eru ráðherrar sem eiga í hlut, ef ég má orða það þannig, ekki fjármálaráðuneytið. Um starfsmannahaldið er eingöngu ætlast til þess að það sé umfangið, ekki hverjir verða ráðnir heldur hve margir verða ráðnir. Loks hefur það verið sett inn í frumvarpsgreinina að ráðherra skal enn fremur í erindisbréfi kveða skýrt á um ábyrgðarsvið. Þannig hefur verið komið til móts við stærstu röksemdina gegn þessu sem var frá Ríkisendurskoðun. Ég tel að það hafi verið komið gjörsamlega til móts við þá.
    Að allra síðustu vil ég geta þess, af því að hv. ræðumaður sagði að þrisvar sinnum hefði verið ráðist á sjómenn, að það er afar sjaldgæft að sami maðurinn hafi sjómannaafslátt, ellilífeyri og barnabætur. Það er afar sjaldgæft, ég hygg að það séu fáir af þessum 500. ( Gripið fram í: Ekki barnabætur). Það eru ekki 600 manns, það eru örfáir af þessum 500 sem hafa. ( Gripið fram í: Það er ráðist á sama hópinn).