Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

68. fundur
Fimmtudaginn 16. janúar 1992, kl. 17:52:00 (2807)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Það er eiginlega að verða svolítið fyndið að hlusta á hæstv. ráðherra núv. ríkisstjórnar hafa það eina úrræði þegar bent er á galla í þeirra málflutningi að það megi finna hliðstæðu sem fyrrv. ríkisstjórn hafi lagt fram og það er farið að koma þannig út að það sé ein allsherjarréttlæting á gjörðum núv. hæstv. ríkisstjórnar ef fyrrv. ríkisstjórn hafi lagt eitthvað hliðstætt fram.
    Ég vil hins vegar segja hæstv. heilbr.- og trmrh. varðandi það atriði sem hann nefndi hér áðan að í þeim tillögum, sem hæstv. fyrrv. ríkisstjórn lagði fram, var lagt til að þær 240 millj., ef ég man rétt, sem hann nefndi áðan eða hvort það voru 270, það skiptir ekki öllu, færu til jöfnunar innan tryggingakerfisins, að aðrir nytu þess sem af væri tekið. Auk þess vil ég benda hæstv. ráðherra á að tillögur sem lagðar eru fram í frumvarpsformi, --- ég vil ætla að sá meiri hluti sem var að baki fyrri ríkisstjórn hefði ekki í nokkrum tilfellum knúið mál í gegn burt séð frá því hvort í meðförum málsins kæmu fram alvarlegir gallar. Það er einmitt það, hæstv. heilbr.- og trmrh., sem núv. meiri hluti gerir, hann keyrir mál í gegnum þingið burt séð frá því að í meðförum málsins í þingnefndum komi fram meinbugir á því sem einir sér ættu að vera nægir til þess að menn féllu frá málinu.