Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 10:56:00 (2865)

     Páll Pétursson (um þingsköp) :
     Frú forseti. Ég tek fram að ég er heldur andvígur miklum þingskapaumræðum og tel að það væri hægt að koma athugasemdum, ýmsum af þeim sem hér hafa fallið, að í umræðum. En það sem hér hefur gerst undirstrikar mikilvægi þróttmikillar stjórnarandstöðu því að málafylgja okkar hefur ekki orðið til einskis og það er rétt að undirstrika það. Ríkisstjórnin er að draga í land með ýmsar af sínum firrum sem hún hefur sett fram í miklu fljótræði. Þá þegar fyrir jól sneið hún ýmislegt af, ýmsa agnúa sem voru á hennar málatilbúnaði, og síðan hefur hún verið að draga í land með ýmsar firrur sem blessaðir hæstv. ráðherrarnir hafa látið sér detta í hug að setja fram.

    Þeir byrjuðu á þessu máli með svokallaða eftirlitsmenn. Það átti að setja upp einhverja Stasi-lögreglu að austrænni fyrirmynd og þeir áttu að fara um landið og yfirtaka fyrirtækin af stjórnendum þeirra og framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar og niðurskurðarhugmyndunum. Þessu var breytt, ríkisstjórnin hörfaði með þetta atriði og bjó til nýyrði um þetta starf, svokallaða tilsjónarmenn. Það er að vísu til orð sem er fornhelgað frá gamalli tíð, að vísu upprunnið úr dönsku, ,,bífalningsmenn``, og það hefði kannski verið eðlilegra að þeir hefðu verið kallaðir þetta, þessir nýju embættismenn, fremur en búa til orðskrípið tilsjónarmenn.
    Nú er ég ekki alfarið að leggjast gegn því að yfirvöldin reyni að hafa eftirlit með opinberum rekstri og á því er gífurleg þörf. En það verður að gerast með siðlegum hætti. Ég er ekki viss um nema hæstv. ríkisstjórn hafi gott af eftirliti með sínum verkum og sínum fjármálaráðstöfunum. Ég hygg t.d. að hæstv. forsrh. stæði betur í dag ef hann hefði haft viðeigandi tilsjónarmann með embættisfærslu sinni sem borgarstjóri. Þá sæti hann ekki uppi með þann þunga kross að skilja við fortíð sína með þeim hætti sem hann hefur gert. Þá hefði tilsjónarmaðurinn kannski komið í veg fyrir að ýmislegt, sem úrskeiðis hefur farið hjá Reykjavíkurborg undir stjórn fyrrverandi borgarstjóra, hefði átt sér stað.
    Það sem á vantar að hér geti gengið fram umræða með eðlilegum hætti er fyrst og fremst að ráðherrarnir sitji í salnum, fylgist með umræðunum og heyri að það er ekki alltaf verið að flytja sömu ræðuna. Og ég vil fara fram á það við hæstv. forsrh. að hann beiti áhrifum sínum við ráðherra sína, að þeir gefi sér nú tíma til að taka þátt í þingstörfum næstu klukkustundir þannig að 2. umr. um bandorminn geti einhvern tíma lokið. Ráðherrarnir séu viðlátnir, þegar ræðumenn eru hér í ræðustól, og svari kurteislega og skilmerkilega þeim spurningum sem til þeirra er beint. Og síðan vona ég, frú forseti, að 2. umr. geti gengið greiðlega og henni ljúki áður en vorar.