Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 17:56:00 (2915)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
     Herra forseti. Það er síður en svo viðkvæmt að ræða þessi mál og það er löngu

komið fram og ég hef þegar lýst ánægju minni með að fjárveitingar til framkvæmda í hafnamálum halda nú áfram að aukast eitt árið enn. Það er vel og það er sjálfsagt að þakka það.
    Ástæðan fyrir því að ekki var farið út í þau áform um að skapa höfnunum tekjustofna sem voru skoðuð á árunum 1989--1990 var einföld, hv. þm. Hún var sú að sú útfærsla þeirra hugmynda sem menn voru að skoða reyndist ekki nógu góð. Það voru svo miklir annmarkar og gallar á aðferðinni að menn hurfu frá því ráði og voru þá menn til að segja: Nei, það er betra að hafa þetta þá óbreytt og taka þessar tekjur úr ríkissjóði, afla fjár í gegnum hið almenna skattkerfi í þessar framkvæmdir en fara út í stórgallaða innheimtu á sérstökum tekjustofni fyrir hafnirnar. Því miður eru þessir annmarkar allir saman fyrir hendi í því álagi sem þarna er verið að tala um, fyrst og fremst þeir að þeir geta lagst ofan á sjálfa sig og þar með eru uppsöfnunaráhrif fyrir hendi. Þetta kemur þungt við vöruverðið úti á landsbyggðinni með þessum uppsöfnunaráhrifum.
    Þær hugmyndir sem voru skoðaðar og menn lögðu til grundvallar þegar greinargerð var samin með fjárlagafrv. á sínum tíma, sem hv. þm. vitnaði í, gengu út á að unnt væri að ná þessum tekjum með einfaldri innheimtu t.d. á heildarstofn vöruflutninga til landsins með skipum. Ef slíkt hefði reynst tæknilega fært hefði sá tekjustofn verið allt annars eðlis og mikið betur heppnaður fyrir hafnirnar en þær álögur sem þarna eru á ferðinni og eru því miður með öllum þessum annmörkum. Sá er munurinn á að menn voru í tíð fyrri stjórnar nógu hreinskilnir til að viðurkenna að þær hugmyndir sem þeir höfðu til skoðunar væru ekki nógu góðar og féllu þar af leiðandi frá þeim. En þessi ríkisstjórn pínir alla skapaða hluti í gegn hversu vitlausir og vondir sem þeir eru og gerir það án samráðs við nokkurn mann eins og í þessu tilviki án samráðs við sveitarfélögin eða hafnirnar. Og það er alveg kostulegt að formaður Hafnasambands sveitarfélaga skuli hafa geð í sér til að koma hverja ferðina á fætur annarri í ræðustólinn og reyna að réttlæta þetta.