Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

70. fundur
Mánudaginn 20. janúar 1992, kl. 18:07:00 (2920)

     Hjörleifur Guttormsson :
     Virðulegur forseti. Ég hef verið á mælendaskrá í þessari umræðu frá því 15. des. sl. að ég held og eru nú liðnar um fimm vikur síðan. Þá stóðu mál þannig að ríkisstjórnin hugðist ljúka þinghaldi fyrir jól með afgreiðslu þessa máls og annarra þeirra mála sem eru á dagskrá þingsins enn óafgreidd, lagafrumvarpa sem hún taldi sjálfsagt að afgreiða og ekkert annað en þvermóðska stjórnarandstöðunnar sem kæmi í veg fyrir lögfestingu þeirra mála fyrir jólahlé þingsins. En það hefur hins vegar komið í ljós á undanförnum vikum að það er ekki málafylgja stjórnarandstöðunnar sem hefur komið í veg fyrir að málin voru afgreidd á þeim tíma og nú hafa bæst við yfir tvær vikur í þinghaldi með nokkuð drjúgu áframhaldi og enn erum við að ræða þessi mál. Ástæðan fyrir þessari töf er innbyrðis ágreiningur stjórnarliða, svo og það upphaf, sem mestu veldur um hvernig málin hafa þróast hér, að ríkisstjórnin kom þeim seint til þingsins til meðferðar, en auk þess hefur ósamlyndið innan stjórnarliðsins verið til þess að tefja mál og svo auðvitað þau hörðu mótmæli víða að úr samfélaginu sem hafa komið fram vegna ráðstafana ríkisstjórnarinnar eins og þær birtast mönnum í lagafrumvörpum einu af öðru.
    Þetta frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992 er aðeins eitt þessara mála.

Ýmsar aðgerðir voru knúðar fram við fjárlagaafgreiðslu fyrir jól sem hitta almenning í landinu hart fyrir, en allt rennur þetta þó með vissum hætti saman að hér er verið að leggjast á sömu sveif, einnig með þeim ráðstöfunum sem gert er ráð fyrir í frv. sem við ræðum hér.
    Ég vildi óska eftir því, virðulegur forseti, að hæstv. forsrh. verði kallaður í þingsal vegna þess að ég þarf að eiga við hann nokkurn orðastað, þann ráðherra sem bar þetta mál fram og mælti fyrir því 6. des. sl., og ég vildi víkja að þeim þætti í upphafi. ( Forseti: Ég vil upplýsa hv. þm. um að hæstv. forsrh. sýnist mér ekki vera í húsinu, en ég mun gera ráðstafanir til þess að boðum verði komið til hans um það að nærveru hans sé óskað strax. Gott væri ef hv. þm. gæti haldið áfram ræðu sinni, en ef ekki er ekkert því til fyrirstöðu að gert verði hlé á fundinum meðan verður beðið eftir ráðherra.) Já, virðulegur forseti. Ég tel að óhjákvæmilegt sé að það sé gert, en það skil ég ekki hvernig ríkisstjórnin er að reyna að ná samkomulagi um afgreiðslu mála ef þeir ráðherrar sem bera málin fram eru ekki viðstaddir. Ég geri þá hlé á máli mínu. --- [Fundarhlé.]
    Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir að úr rættist fyrr en á horfðist hjá hæstv. forseta og ekkert því til fyrirstöðu að ég haldi áfram máli mínu þar sem hæstv forsrh. er viðstaddur, en hann mælti fyrir þessu frv. í þinginu þann 6. des. sl. Ég vil nefna að í inngangsræðu hæstv. forsrh. fjallaði hann m.a. um horfur í efnahagsmálum Íslendinga til lengri tíma litið og kom þar sérstaklega að væntanlegri aðild Íslendinga að Evrópsku efnahagssvæði sem getur, eins og hæstv. ráðherra sagði þar, skapað íslensku atvinnulífi ný tækifæri, tækifæri til að snúa vörn í sókn. Ég ræddi þetta mál við 1. umr. og m.a. þessi ummæli hæstv. forsrh. og benti þá á hvernig horfði að mínu mati í viðræðum varðandi Evrópskt efnahagssvæði. Þetta varð hæstv. forsrh. tilefni til þess degi síðar eða 7. des. í umræðum um þetta frv. að víkja að þeim málflutningi mínum og ábendingum varðandi horfurnar um Evrópskt efnahagssvæði og sagði, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Auðvitað get ég ekki svarað þessu en ég tel í sjálfu sér ekkert benda til þess að þeir samningar þurfi að stranda vegna þeirra atburða sem hafa átt sér stað í Evrópu og þeirra athugana sem dómstóllinn hefur fjallað um sérstaklega. Ég tel ekkert benda til þess. Ég get auðvitað ekki útilokað að það gerist en ég ítreka að ég sé engin efni til að ímynda sér að þeir þurfi að stranda.``
    Þetta eru ummæli hæstv. forsrh. þann 7. des. sl. varðandi þetta stóra mál sem ríkisstjórnin frá byrjun hefur gert að helstu von sinni í sambandi við þróun atvinnumála í landinu og íslensks efnahagslífs. Síðan heyrðist fyrir helgina utan úr bæ að hæstv. forsrh. hafi haldið ræðu á ráðstefnu og það var ein helsta frétt Ríkisútvarpsins af þeim fundi að þar hefði hæstv. forsrh. í rauninni dæmt samningana um Evrópskt efnahagssvæði úr leik og talið, samkvæmt fregnum útvarpsins, að þessar samningaviðræður væru nánast búnar og ekki líkur á að úr rættist. Ég var ekki á þessum fundi og veit ekki hvernig hæstv. forsrh. hagaði þar máli sínu, en ég tel ástæðu til þess við 2. umr. þessa máls að inna hæstv. forsrh. eftir þessum tíðindum því að hér er auðvitað um að ræða mjög stórt mál og mér finnst í rauninni betur við hæfi að mat ráðamanna í ríkisstjórninni komi fram á Alþingi en á fundum utan þings, a.m.k. að þeir geri grein fyrir því ef um slík þáttaskil er að ræða eins og fjölmiðlar hermdu úr máli hæstv. forsrh. á umræddum fundi. Það er því beiðni mín að hæstv. ráðherra bregðist við í þessari umræðu og greini okkur frá því hvert sé hans mat á þessu máli.
    Nú hef ég heyrt það frá hæstv. utanrrh. varðandi samningana um Evrópskt efnahagssvæði, en þar fer hann nú með formennsku í EFTA-ríkja hópnum, að hann telur margt óvenjulegt standa í þeim efnum. Ég tek mat utanrrh. í þessu máli með fyrirvara og alveg sérstaklega ummæli hans því að hann hefur leikið það áður að vera svartsýnn í þessu máli til að geta sagt þeim mun meiri sigurtíðindi á ákveðnum stundum eins og gerðist sl. haust. Hitt má þó ljóst vera að dómur Evrópudómstólsins, EB-dómstólsins í Lúxemborg eða niðurstaða hans sem fram kom í svörum við fyrirspurnum framkvæmdastjórnar EB í Brussel voru mikil tíðindi sem settu þetta mál í allt annað ljós en verið hafði vikurnar á undan og það mál ræddum við sérstaklega utan dagskrár 17. des. sl. Þetta var einn þáttur sem ég

vildi víkja að í upphafi úr því að hæstv. forsrh. er viðstaddur.
    Það er annað atriði sem ég vildi nefna við hæstv. forsrh. og að viðstöddum þeim ráðherrum báðum sem hér sitja þessa stundina, þ.e. hæstv. menntmrh. auk hæstv. forsrh., og það snertir skólamálin og þann niðurskurð sem við blasir og boðaður hefur verið af hálfu ríkisstjórnarinnar í sambandi við grunnskólann alveg sérstaklega.
    Það var rætt þann 15. jan. sl. þegar lánsfjárlög voru til umræðu hvort ríkisstjórnin ætlaði sér að knýja fram þennan niðurskurð upp á 2 1 / 2 milljarð brúttó og þar af drjúga upphæð vegna skólanna í landinu innan almanaksársins, innan fjárlagaársins eins og hún hefur aflað sér heimilda til samkvæmt fjárlögum. Sem viðbrögð við spurningum þar að lútandi svaraði hæstv. forsrh. í andsvari þann 15. jan. fyrirspurn frá hv. 8. þm. Reykn. með svofelldum orðum:
    ,,Aðeins út af flata niðurskurðinum. Það er rétt. Ég svaraði því ekki. Það hafa ekki breyst neinar forsendur í þeim efnum.``
    Ég er að draga þetta inn hér vegna þess að hæstv. menntmrh. og aðstoðarmaður hans hafa, bæði hér á Alþingi að því er hæstv. ráðherra varðar og aðstoðarmaður ráðherrans í blaðaummælum, látið að því liggja að unnt verði að komast hjá því að beita hnífnum með þeirri hörku gagnvart t.d. grunnskólunum eins og fjárlagaafgreiðslan gerir ráð fyrir, þ.e. að unnt verði að dreifa þessum niðurskurði á allt skólaárið 1991--1992. Hæstv. ráðherra kom á fund menntmn. þegar hún hafði til meðferðar að tilvísun efh.- og viðskn. þann þátt þessa frv. sem lýtur að grunnskólunum öðru sinni vegna brtt. sem ríkisstjórnin lagði fram. Á þessum fundi upplýsti hæstv. ráðherra ýmislegt, þar á meðal að hann vonaðist til þess að það þyrfti ekki að beita niðurskurði með þeirri hörku sem þarna mætti gera ráð fyrir ef fjárlagaárið væri látið gilda í þessum efnum.
    Mér finnst, virðulegur forseti, að við getum ekki skilið við þetta mál hér á Alþingi án þess að það liggi fyrir með skýrum hætti af hálfu ríkisstjórnarinnar hvernig hún ætlar að standa að því. Og það gengur auðvitað ekki að hæstv. menntmrh. sé að koma hér upp oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og segi: ,,Ég er að vonast til að . . .  `` Hér er auðvitað um svo stórt mál að ræða og slíkt ákvörðunarefni að ekki aðeins Alþingi Íslendinga á kröfu á að vita hvert ríkisstjórnin stefnir í þessum málum heldur enn frekar þolendur þess gífurlega höggs sem þarna er reitt til, hvort það verður látið ríða með þeim hætti sem meiri hluti stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar hefur knúð fram hér á Alþingi eða hvort það verður mildara, verður dregið úr því með þeim hætti sem hæstv. menntmrh. er að gera sér vonir um. Ég spyr því hæstv. forsrh.: Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar í þessu efni raunverulega? Og hafi ekki verið gengið frá því í ríkisstjórn er enn færi til þess á meðan þetta mál er hér til meðferðar því að þetta er pólitískt ákvörðunarefni sem ríkisstjórnin getur ekki dregið lengi við sig að gera upp og er algerlega óþolandi fyrir hæstv. menntmrh. sérstaklega að búa undir því dögum lengur og vikum lengur að geta ekkert svarað til um hvernig á að bregðast við í þessum efnum.
    Í þessu sambandi er rétt að nefna að hæstv. ráðherra var að reikna út fyrir menntmn. þingsins þar sem hann kom á fund hennar að þær heimildir sem hann væri að afla sér um skerðingu kennslustunda í grunnskólanum frá 4.--10. bekk, ef ég man rétt, gæfu á haustmissiri ekki nema 52 millj. kr. samkvæmt hans útreikningum og hans manna í ráðuneytinu og dugar það skammt upp í þær 180 millj. nettó sem meiningin er að spara gagnvart grunnskólanum. Og þó er þarna verið að afla heimilda til frekari niðurskurðar með öðrum ákvæðum þannig að það er ekki öll sagan sögð með þessum tölum einum saman. Ég tel því alveg nauðsynlegt að fá upplýst í þessari umræðu hver er stefna ríkisstjórnarinnar í þessum efnum því að nóg er óvissan samt.
    Þetta eru þau atriði sem ég vænti að hæstv. forsrh. muni greina frá síðar í umræðunum og ætla þá að víkja að öðrum þáttum nokkrum sem snúa sérstaklega að I. kafla þessa frv. þó að það sé af mörgu fleiru að taka og ég komi aðeins við á öðrum stöðum í því stóra máli sem við ræðum hér.
    Hæstv. menntmrh. hefur eins og ég hef nefnt reynt að koma sér í orði undan afleiðingum þeirra ákvarðana sem ríkisstjórnin hefur verið að taka og reynt að drepa á dreif

efni þess hvernig hann muni beita þeim heimildum sem hann er hér að afla sér samkvæmt I. kafla frv. Mér finnst að málflutningur hæstv. menntmrh. beri vott um ég leyfi mér að segja skort á pólitísku raunsæi. A.m.k kemst hæstv. ráðherra ekki hjá því til lengdar að gera þessi mál upp og standa reikningsskil þeirra gerða sem hann hefur verið þátttakandi í að knýja fram. En það er mjög áberandi í málflutningi hæstv. menntmrh. að hann er að reyna að aka sér undan. Þetta hefur komið fram í fjölmiðlum og þetta hefur komið fram á þingi.
    Nú í janúarmánuði þegar þessi mál eru rædd er hæstv. ráðherra að vísa á fjárlagagerðina og afgreiðslu fjárlaga á Alþingi fyrir jól og hagar orðum sínum nánast eins og hann hafi ekkert nálægt því máli komið. Alþingi hafi fundið upp á því að skerða fjárveitingar til skólanna í þeim mæli sem um ræðir, 180 millj. gagnvart grunnskólanum og háar upphæðir gagnvart framhaldsskólanum, og nú verði hann bara að fá aðstoð góðra manna, skólastjóra í landinu og annarra til að knýja fram þennan vilja Alþingis. Ég ætla ekki að taka tíma til að finna þessum orðum mínum stað, enda kannast hæstv. menntmrh. vafalaust við þetta. Þessi gögn eru prentuð sem fylgiskjöl með áliti minni hluta efh.- og viðskn., m.a. viðtöl hæstv. ráðherra í fjölmiðlum þar sem þetta kemur fram með skýrum hætti.
    Nú vil ég ekki ætla hæstv. ráðherra neitt verri hlut en hann á skilið eða gera honum upp skoðanir. Ég held í rauninni að hæstv. menntmrh. vilji almennt vel í sambandi við skólastarf í landinu og margt sem þarf til að koma til þess að við ekki aðeins höldum þar í horfinu heldur getum unnið okkur eitthvað áfram eins og brýn þörf er og eins og fyrrv. ríkisstjórn og fyrrv. hæstv. menntmrh. lagði drög að í mjög mörgum greinum. En það skortir eitthvað á hjá hæstv. ráðherra. Það fara ekki saman orð og frómar óskir og hins vegar þær aðgerðir sem hann er þátttakandi í og hefur lagt hér drjúgan hlut að með tillögum um þann niðurskurð sem hér er verið að reyna að knýja fram gagnvart skólum í landinu. Þetta þykir mér miður. Mér sýnist satt að segja að hæstv. ráðherra sé að safna glóðum elds að höfði sér í þessum málum og eigi mjög erfitt með að fá einhverja fótfestu til að vinna þau verk sem ég efast ekkert um að hann gjarnan vildi vinna í því verkefni sem hann hefur tekið að sér í ráðuneyti.
    Hæstv. ráðherra hefur þar margt góðra embættismanna og eru áreiðanlega ekki frá þeim komnar þær tillögur sem hér er verið að bera fram við Alþingi. Það má heyra þegar rætt er við embættismenn í þingnefndum þó að það sé ekki sagt með beinum hætti að þeir eru í hreinustu vandræðum með að skýra hvernig eigi að koma fram þeim tillögum og niðurskurði sem hér um ræðir. En það eru einhver öfl utan ráðuneytis og utan þings hygg ég vera sem eru að knýja fram undanhald í skólamálunum sem felst í þessum tillögum. Því miður, og kem ég aftur að hæstv. forsrh., hefur hann, hæstv. ráðherra og höfuð ríkisstjórnarinnar og höfuð þess bandorms sem við ræðum hér, látið að því liggja í ræðum utan þings a.m.k., og hef ég þar m.a. fyrir mér ummæli úr Þjóðviljanum þann 15. jan. 1992 þar sem greint er frá því að hæstv. forsrh. hafi haldið ræðu hjá Verktakasambandi Íslands um hvernig eigi að rjúfa kyrrstöðuna í þjóðfélaginu. Þar hafi hann lýst efnislega því áliti sínu að það megi lækka kostnað og draga úr námsframboði í skólum landsins án þess að það komi niður á árangri skólanna. Þetta er væntanlega það hugmyndalega veganesti sem hæstv. forsrh. er að útbýta til menntmrh. og annarra þeirra sem eiga að framfylgja þeim niðurskurði sem við ræðum um hér.
    Ég tel að sú stefna sem hér er verið að knýja fram sé í rauninni í afskaplega mikilli mótsögn við þau orð sem hér er verið að bera fram, hvort sem það heitir að rjúfa kyrrstöðuna eða brjótast út úr einhverjum vítahring í þjóðfélaginu, því að þá er sannarlega verið að byrja á öfugum enda með því að þrengja svo að skólunum eins og hér er verið að leggja til og er þó engan veginn séð fyrir endann á því hvernig því muni lykta.
    Hæstv. menntmrh. er ekki eingöngu að fjalla um grunnskólann í sínum tillögum heldur einnig framhaldsskólann og enn er ósvarað þeim spurningum sem fram hafa verið bornar: Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að beita þeim heimildum sem hér um ræðir? Hæstv. ráðherra sagði í þessari umræðu um skeið að þetta ætti ekki að bitna á grundvallarnámsgreinum í skólunum og það væru einhverjar aukastundir sem ætti að skera þarna niður.

Auðvitað bar þetta tal vott um það eitt að hæstv. ráðherra hefur ekki enn haft tíma til þess eða gefið sér tíma til þess að setja sig inn í gang mála í skólakerfinu. Þar er vissulega margt nokkuð flókið, m.a. þær námsskrár og reglugerðir sem ráðuneytinu er ætlað að starfa eftir og skólunum er ætlað að starfa eftir. Það hefur margoft komið fram í umræðunum að hér er verið að höggva af grundvallarþáttum í starfi grunnskólans með þeim niðurskurði sem hæstv. ráðherra verður knúinn til að beita þó að ekki sé fullljóst hversu harkalegur niðurskurðurinn verður í hverju tilviki.
    En varðandi framhaldsskólann vildi ég aðeins víkja að því að þar eru menn að leika sér með hugmyndir um hvernig eigi að ná þeim niðurskurði sem hér um ræðir í framhaldsskólanum. Og hæstv. ráðherra er ekki búinn að gera sér ljóst hvernig hann ætlar að ganga þar fram. Þó talar aðstoðarmaðurinn um að þar þurfi að skera niður 2--3 kennslustundir á viku í framhaldsskólunum og í viðtali sem er í Morgunblaðinu þann 15. jan. sl. má ég segja undir fyrirsögninni: ,,Niðurskurður mun ekki bitna á skyldugreinum í skólunum``, svo viskuleg sem sú fyrirsögn nú er, þann 11. jan. í Morgunblaðinu, er haft eftir aðstoðarmanni hæstv. menntmrh., Ólafi Arnarsyni, svo að ég leyfi mér, virðulegur forseti, að vitna með þínu leyfi örstutt í Morgunblaðið:
    ,,Ólafur sagði einnig að ráðuneytið væri að vinna að túlkun á lagaákvæðum með það fyrir augum að fá úr því skorið hvort ráðuneytinu væri skylt að veita öllum sem þess æsktu upptöku í framhaldsskóla ef svo kynni að fara að takmarka þyrfti aðgang.``
    Eins og þarna kemur fram er verið að leika sér að hugmyndum um að að breyta því grundvallaratriði sem lögfest hefur verið fyrir skemmstu að framhaldsskólinn skuli vera opinn öllum. Ég spyr hæstv. ráðherra að því: Hvaða heimildir eru það sem hann á þessari stundu telur að hann þurfi að afla sér vegna áformaðs niðurskurðar varðandi framhaldsskólana og hvenær er þess að vænta að hæstv. ráðherra leggi þau mál fyrir þingið?
    Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra um breytingar á grunnskólalögunum sem hann boðaði fyrir jól að hann mundi leggja fram frv. um: Hvað líður undirbúningi þess máls og hvenær er þess að vænta að hæstv. ráðherra leggi fyrir frv. um breytingu á grunnskólalögum?
    Þetta ætla ég, virðulegur forseti, að láta nægja varðandi I. kafla laganna þó þar væri af mörgu að taka frekar.
    Ég vildi þá aðeins nefna til viðbótar einn þátt sem snýr að sveitarfélögunum og þeim álögum sem þeim er ætlað að axla í tengslum við þetta mál. Þar hafa margir gert vart við sig. Við þingmenn höfum fengið fjölmörg bréf og erindi frá sveitarfélögum, sérstaklega í okkar kjördæmum geri ég ráð fyrir. Ég hef fengið tugi bréfa frá sveitarfélögum á Austurlandi sem ég hef undir hendi og gæti vitnað til í sambandi við þær álögur sem hér eru áformaðar, en það er einn ljótasti þáttur þessa máls hvernig ríkisstjórnin stóð þar að máli og hefur þó stjórnarandstöðunni tekist að gera stjórnina afturræka með nokkra þætti eins og það áhlaup gegn fötluðum sem upphaflegar hugmyndir beindust að sem ríkisstjórnin og félmrh. kynntu þinginu áður en vent var kvæði í kross og leitað fanga annars staðar.
    Í minni heimabyggð hafa bæjaryfirvöld reiknað það út, og það var rétt fyrir jólin þannig að það var í aðalatriðum sá grunnur sem enn er gengið út frá í þessu frv., að útgjaldaaukning bæjarsjóðs í Neskaupstað vegna ráðstafana sem verið er að knýja fram með lögfestingu þessa frv. nemi um 7 1 / 2 millj. kr. Þar af er í fyrsta lagi 3,5% af kostnaðarverði félagslegra íbúða sem ráðgert er að byggja 1 1 / 2 millj., hlutur ríkisins í gerð aðalskipulags 750 þús. kr., hækkun þjónustugjalda Fasteignamatsins 200 þús. kr., ábyrgðasjóður launa 152 þús. kr. röskar og kostnaður vegna löggæslu 4,8 millj. kr. Kann að vera að sú upphæð lækki lítillega vegna þess að dregið hefur verið ögn í land eða sem nemur 1 / 7 hluta á þeim þætti málsins, en það er ekki stórt í þessu samhengi.
    Þá eru ótalin önnur atriði og atriði sem leggjast á önnur sveitarfélög eins og vegna eyðingar refa og minka sem var eitt af þeim efnum sem hæstv. forsrh. ræddi við framsögu fyrir málinu upphaflega, en það kemur ekki nálægt Neskaupstað og tengist öðru frv. En það eru ótalin áhrif vegna annars niðurskurðar sem hætt er við að leggist einnig á sveitarfélögin. Þar á ég við áhrif vegna niðurskurðar til skólamála og samdráttar sem beinist að kennurum og þeirra kjörum. Það liggur alveg ljóst fyrir að sveitarfélögin hljóta nauðug viljug að þurfa að bregðast með einhverjum hætti við þeim ókjörum sem þeim eru búin í þeim efnum og sama gildir um ákveðna þætti í sambandi við heilbrigðismálin.
    Virðulegur forseti. Vegna þess að við stjórnarandstæðingar höfum fallist á að lengja ekki mikið 2. umr. þessa máls af okkar hálfu ætla ég ekki að taka inn fleiri þætti í mitt mál, sem er önnur ræða sem ég flyt út af þessu frv., og væri þó af mörgu að taka og ástæða til þess að grafast fyrir um ýmsa þætti sem enn eru óljósir. En ég vænti að af svörum hæstv. forsrh., sem ég vænti í framhaldinu, svo og af máli hæstv. menntmrh. megi ráða hvert stefnir varðandi framkvæmd á þeim gífurlega niðurskurði sem tillögur hafa verið samþykktar um að því er beinist að grunnskólanum, að það verði nokkru ljósara eftir þessa umræðu, áður en henni lýkur, en áður hvernig ríkisstjórnin ætlar að framkvæma þessi áform.