Ráðstafanir í ríkisfjármálum 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 13:29:00 (2960)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um atkvæðagreiðslu) :
     Herra forseti. Hæstv. heilbrrh. hefur hér í ræðutíma sem hann hefur fengið til að gera grein fyrir atkvæði sínu tekið upp þann hátt að hefja málflutning til þess að bera sakir á aðra flokka, reyna að skýla sér í atkvæðagreiðslu á bak við aðra flokka, fyrst hæstv. fjmrh., síðan hæstv. fyrrv. heilbrrh. Hæstv. heilbrrh. fullyrti að hér hefði verið framkvæmd skerðing. Það var lygi. Það er eitt að flytja frv. sem bæði inniheldur mjúk ákvæði og hörð. Sumt er til bóta. Það getur verið að það hafi kostað annað sem ekki er til bóta. Það er dálítið annað en að lýsa því yfir að þegar gallarnir einir séu settir fram, þá sé verið að framkvæma einhverja hluti sem menn hafi samþykkt. Það er lágmarkskurteisi þegar menn gera

grein fyrir atkvæði sínu hér að þeir ljúgi ekki að þingheimi, það er lágmarkskurteisi. Og ég tek því ekki þegjandi þegar látið er í það skína að menn hafi hér allt aðra afstöðu til mála heldur en kemur fram þegar þeir greiða atkvæði.