Lánsfjárlög 1992

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 15:42:00 (2985)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ég vil einungis benda á að þegar fyrstu þjóðhagsspár komu fram fyrir yfirstandandi ár var gert ráð fyrir því að landsframleiðslan yxi um 1--2% og til að nefna töluna um landsframleiðslu, þá er hún í kringum 370 milljarðar. Í dag er spáin sem kom út eftir áramótin að landsframleiðslan dragist saman um rúm 4%. Þetta þýðir að munurinn á þessum spám frá því í haust og fram til þessa tíma eru líklega um 22--23 milljarðar. Sú aukning sem hefur orðið á spám um loðnuveiði gefur tilefni til þess að álíta að útflutningstekjur á loðnu verði kannski 1.700--1.800 millj. og á þessu sést að jafnvel þótt fagna beri þeirri breytingu sem þarna hefur átt sér stað er langt í land að við séum að ná því marki sem menn héldu að þeir væru að ná þegar fyrstu þjóðhagsspár sáu dagsins ljós á sl. sumri.
    Svo vil ég geta hins að á síðasta ári var hallinn á ríkissjóði yfir 10 milljarðar, líklega 11 milljarðar. Þegar þetta er lagt saman sjá menn að vegna veltubreytinga á þessu ári þar sem landsframleiðslan dregst saman má gera ráð fyrir að bara vegna þess aukist hallinn um 4--5 milljarða þannig að vandinn sem við höfum staðið frammi fyrir var halli upp á 14--15 milljarða. Ég spyr hv. þm: Er ekki ástæða til að líta til þessara talna og hafa skilning á því hvers vegna við þurfum að skera niður þegar við stöndum frammi fyrir þessu gífurlega vandamáli? Ég veit að hv. þm. er mér sammála um það að til slíkra ráða þurfi að grípa. Ég ætla ekki að gera lítið úr batnandi viðskiptakjörum né heldur því að hægt sé að veiða meiri loðnu en ég vil benda hins vegar á það hve vandinn er gífurlegur eftir sem áður.