Hagræðingarsjóður sjávarútvegsins

71. fundur
Þriðjudaginn 21. janúar 1992, kl. 21:55:00 (3045)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
     Virðulegi forseti. Ég kem hér í ræðustól undir mjög sérkennilegum kringumstæðum. Svo er mál með vexti að alla þessa umræðu hefur mig langað til þess að fjalla um heildarstefnuna í sjávarútvegsmálum, einfaldlega vegna þess að þar tel ég að þessi umræða ætti heima. Ég hef hins vegar, eins strangt og ég hef mögulega getað, reynt að halda mig við efnisatriði málsins en nú er svo komið að því miður hefur ásökunum, beinum og órökstuddum, verið beint til mín um að ég sé að fara á skjön við sjávarútvegsstefnu

Kvennalistans. Það kemur því í minn hlut hér í þessari umræðu að sýna fram á að svo er ekki. Ég hef rætt þessi mál mjög ítarlega við kvennalistakonur og haft samráð við þær. Ég tala því fyrir munn þeirra allra en rengi mig einhver hlýt ég að fara fram á að þessari umræðu ljúki ekki fyrr en hægt verður að kalla fleiri til vitnis um að ég fer ekki með fleipur.
    Ég verð að taka það fram í upphafi að ég er ekki að víkja frá stefnu Kvennalistans í sjávarútvegsmálum heldur að halda henni á lofti. Kvennalistakonur hafa verið samstiga frá upphafi í mótun sinnar sjávarútvegsstefnu og þótt raunar óþarflega stefnufastar og óvenju stefnufastar í þeim efnum. Eins og ég gerði mjög klárlega grein fyrir við 1. og 2. umr. þessa máls er grunnur þessarar stefnu Kvennalistans byggðakvóti og ein helsta og öflugasta ástæðan fyrir því að ég hef haldið uppi harðri gagnrýni á það frv. um Hagræðingarsjóð, sem við ræðum hér, er það að við erum . . .  Má ég heyra frammíkall, svo virðist sem þingmaðurinn tjái sig aðallega með frammíkalli. ( Forseti: Ég verð að biðja hv. 17. þm. Reykv. um að gefa hv. þm. sem er í ræðustól næði til þess að tala.) Mæl forseti manna heilastur. Það hefur ekki verið friður fram til þessa fyrir frammíköllum en e.t.v. verður hér breyting á, ég veit það ekki.
    Ég kem síðar að þessari meintu veiðileyfastefnu okkar kvennalistakvenna. (Gripið fram í.) Ég gerði lesskilning hv. þm. að umræðuefni fyrr í kvöld. Kjarni málsins er sá að hann les eitt og eitt orð og heldur að þau standi sér og að því leyti til gæti stefna Kvennalistans í sjávarútvegsmálum alveg eins verið ,,og`` eða ,,að``. Hann fann þarna orð sem var mjög kunnuglegt sem honum þykir greinilega mjög vænt um: veiðileyfasala. Hann tók þetta orð úr samhengi og gerði að sjávarútvegsstefnu Kvennalistans. En það er ekki rétt og mun ég hrekja það hér á eftir og ætla ég ekki að fjalla meira um lesskilning hv. þm. hér í bili. (Gripið fram í.) Lesskilningur er það sem ég held að hafi hér skort á og mun ég fara mjög ítarlega í gegnum þetta á eftir, einmitt þennan kafla í samhengi því það láðist hv. þm. að gera. Ég verð raunar að geta þess að þetta er aldeilis ekki eina tilfellið sem þessi orðaást hv. þm. hefur leitt hann á villigötur og blindað hans heildarsýn. Ég læt sagnfræðinga framtíðarinnar um að úrskurða um upphaf auðlindaskatts á Íslandi. En flestar fyrri ræður hv. þm. hafa raunar fjallað um nákvæmlega þetta. Það er eins og hv. þm. hafi hér verið gripinn aðferðafræði tölvunnar og ákveðið að fletta upp alls staðar þar sem hann finnur í ræðum eða riti orðið ,,auðlindaskattur``. Þar hefur hann séð að tölvan hringdi einhverjum bjöllum og þar mætti e.t.v. taka orð úr samhengi og klína á aðra og segja: Þetta er stefna. Þannig er þetta auðvitað ekki.
    Þá er fyrst til að taka að ég hef raunar reynt að leysa þetta mál utan þingfunda --- og bíð ég nú þar sem ég tel nauðsynlegt að hv. þm. hlusti á. Ég hef reynt að leysa þetta í mesta bróðerni og með systurlegri umhyggju milli þingfunda, reynt að útskýra þetta því að ég hef litla trú á því að ekki sé hægt að tjónka við menn ef menn hafa rök. Í einu tilfelli verð ég að játa að ég held að það dugi ekki rök og mun ég þess vegna blanda fleirum í umræðuna vegna þess að því fleiri sem skilja að mál mitt er rétt og mál hv. 17. þm. Reykv. misskilningur þeim mun betra. Ég er ekki að lá honum það þó að hann skilji ekki stefnu Kvennalistans. Hann hefur bara einfaldlega ekki verið að móta sjávarútvegsstefnu Kvennalistans. Hann skýrði það m.a. í þessum samtölum og er víst ekkert launungamál að hann bæri sérstaka umhyggju fyrir þessari stefnu okkar kvennalistakvenna þar sem hann hefði kosið Kvennalistann og að mér skilst út á sjávarútvegsstefnuna. Síðar kom það raunar í ljós að það var Kvennaframboðið sem hann hafði kosið og væntanlega út á sjávarútvegsstefnu Kvennaframboðsins. Kvennaframboðið hefur boðið fram í Reykjavík og á Akureyri. Því miður er byggðakvóti ekki kominn á og þar af leiðandi byggist afskaplega lítill hluti af bæjar- og borgarmálum á því að móta þurfi sjávarútvegsstefnu hvers byggðarlags fyrir sig. Ég held að hér sé enn eitt dæmið um þann sérstaka hæfileika hv. þm. til þess að misskilja, misskilja alvarlega, bíta sig í sinn misskilning og segja: Víst. Það er svona jafnvel þó að búið sé með rökum að sýna fram á að svo er ekki. Ég var að vísu ekki aðili að Kvennaframboðinu í Reykjavík þegar boðið var fram til borgarstjórnar en ég held ég geti þó fullyrt það og hafi það mikla þekkingu á málefnum þar að sjávarútvegsstefna hafi ekki verið það sem mest var rætt og e.t.v. sáralítið þegar Kvennaframboðið fór að glíma við borgarmálefni í Reykjavík og á Akureyri. Ég held því að hér sé einfaldlega um eðlilegan misskilning hv. þm. að ræða sem hann reynir að finna stað í stefnuskrá Kvennalistans. Þar er nefnilega skýrt mótuð sjávarútvegsstefna. ( ÖS: Hvar eru málefnin?) Málefnin. Hvar vantar málefnin? ( ÖS: Þetta er bara skítkast.) Þetta er ekki skítkast. Ég frábið mér það að hér sé með frammíköllum verið að væna mig um skítkast. Mér þykir þetta ómaklegt. Ég þykist ekki hafa verið hér með skítkast heldur að reynt að kryfja til mergjar hvers vegna þessi misskilningur er til kominn. Ég er ekki tilbúin að sitja undir slíku né standa og ég verð að segja það að væntanlega mun hv. þm. dæma sig sjálfur í þessum málum.
    Grundvallarmunurinn á stefnu Kvennalistans í sjávarútvegsmálum og þeirri stefnu, sem ég ætla ekki að túlka en heyrist þó að helst hafi komið hér fram í umræðum að sé stefna Alþfl. í sjávarútvegsmálum, er sá að Kvennalistinn hefur mótað heildstæða stefnu um byggðakvóta. Grundvöllur þessa byggðakvóta er að ráðstafa kvóta til byggðarlaga og þetta er velflestum þingmönnum hér ljóst. Ég ítreka að einmitt vegna þessarar byggðakvótastefnu okkar kvennalistakvenna höfum við m.a. tekið undir að sett væru í lög ákvæði um að ef í nauðirnar ræki væri hægt að ráðstafa einhverjum veiðiheimildum til byggðarlaga. Þetta gerðist þegar samið var, eftir ærið starf, um sameiginlega niðurstöðu varðandi mótun fiskveiðistefnu, kvótastefnuna. Þetta var raunar það sem við kvennalistakonur felldum okkur helst við að ákvæðið var sett í lög um Hagræðingarsjóð. Það var okkar einasta vísbending um það að menn hefðu hlustað á það sjónarmið að byggðakvóti væri nauðsynlegur. Hér var aðeins um heimildarákvæði að ræða. Auðvitað hefðum við viljað ganga lengra en þetta var vissulega miklu skárra en ekki neitt. Þetta er það sem verið er að taka úr gildi núna. Í stað þess er verið að setja inn heimild um það að byggðarlög hafi forkaupsrétt á hluta kvóta á fullu verði. Það er allt annað en ráðstöfun til byggðarlaga. Munurinn á því að hafa örlítinn kvóta til ráðstöfunar til byggðarlaga og þess að ráðstafa 80% kvóta til byggðarlaga held ég að hljóti að vera auðsær.
    Ég held að enginn þurfi að efast um það hver stefna Kvennalistans er í sjávarútvegsmálum. Hér hef ég verið beðin um útfærslu og vegna ítrekaðrar beiðni neyðist ég til þess að gera hv. 17. þm. Reykv., sem er sá eini sem virðist ekki skilja þessa stefnu, grein fyrir því hvernig við hugðumst útfæra hana og hlusti hann nú vel á svo að ég þurfi ekki að endurtaka þetta enn einu sinni. (Gripið fram í.) Ég mun tala um það. Ég vil bara biðja hv. þm. að ætla sér ekki líka að skipuleggja í hvaða röð ég ræði hér mál. (Gripið fram í.) Það er orðið nokkuð langt gengið að hér hefur hv. þm. sýnt jafnmikla ósvífni úti í sal eins og hann sýnir í ræðustól og er þá langt til jafnað. Ekki er hann að stytta hér umræður, það er eitt sem víst er.
    Eins og hv. þm. veit væntanlega, ef hann hefur þann lesskilning sem ég held þó að hljóti að vera eftir hjá honum, þá byggist stefna Kvennalistans á því að 80% veiðiheimilda sé ráðstafað til byggðarlaga. Það hefur verið mjög ítarlega rætt innan Kvennalistans hvernig þetta verður best útfært og þegar þessi stefna var fyrst lögð fram var hún útfærð á þann hátt að þessum 80% yrði ráðstafað til byggðarlaga eftir töluvert flóknum reglum. Þar var byrjað á því að taka það þannig fyrir að tekið yrði tillit til landaðs afla seinustu fimm ára á undan 1985 áður en . . .  ( ÖS: Hvað með útflutninginn? Var ekki tekið tillit til hans?) Virðulegi forseti. Má ég e.t.v. fá að ljúka hér einum kafla áður en ég tek annan fyrir? Þetta eru þær útfærðu hugmyndir sem við kvennalistakonur komum með 1985. Þá hafði ekki orðið sú röskun á kvóta sem nú hefur orðið. Það hefur sýnt sig að hefði okkar stefna verið við lýði hefðu ekki orðið þau vandræði með kvótatilfærslur sem nú hafa orðið. Í ljósi þessa höfum við kvennalistakonur gert okkur grein fyrir því að við þyrftum e.t.v. að taka fleiri þætti inn í heldur en bara landaðan afla seinustu fimm ára. Það hefur líka gerst í millitíðinni að útflutningur hefur aukist. Við höfum verið með mjög skýra stefnu í sambandi við útflutning: Útflutningur verði ekki nema fiskvinnslan hafi fyrst möguleika á að bjóða í fiskinn. Þetta byggist á því að afla sé landað og hann vigtaður og boðinn til kaups hér á landi, ekki siglt með hann beint. Þetta er mjög skýrt og velflestir skilja þetta. Við

höfum meira að segja verið gagnrýndar fyrir þessa stefnu en hún er heilsteypt og rökstudd. Við tökum eina hagsmuni fram yfir aðra hagsmuni og við erum bara tiltölulega stoltar af því.
    Við höfum líka gert okkur grein fyrir því að tækni þróast, ýmislegt þróast hér í samfélaginu sem betur fer, en við þurfum líka að hafa möguleika á því að stýra þessari þróun og það er kannski það mikilvægasta, ekki með einhverju miðstýrðu valdi sjútvrh., hversu góður sem hann er, heldur með því í fyrsta lagi að valddreifing sé við lýði og það er ekki síst mikilvægt í sjávarútvegsmálum. Valddreifing skiptir verulegu máli og er kannski kjarni okkar sjávarútvegsstefnu. Við ætlum ekki að segja byggðarlögunum hvernig þau eigi að ráðstafa afla hvert fyrir sig heldur að sjá til þess fyrst að afla sé ráðstafað til þeirra byggðarlaga þar sem allt byggist á fiskvinnslu. Síðan á, í stað þess að vera ævinlega með valdboð, að treysta því að í hverju byggðarlagi séu hagsmunir byggðarlagsins hafðir að leiðarljósi. Þetta gefur kannski fjölbreyttasta möguleika allra fiskveiðistefna á að ráðstafa afla skynsamlega. Ég held að þeir sem hafa talað gegn miðstýringu --- ég hef ekki heyrt mikið af því í Alþfl., þó er það í ákveðnum málum eins og t.d. í sambandi við fjármagn að það hefur nú heyrst --- og ég held að þeir sem bera virkilega valddreifingu fyrir brjósti skilji svona lagað. Ég er ekki ein í hópi þeirra sem vantreysti byggðarlögum til þess að fara með vald, raunverulegt vald, efnahagslegt vald, kvóta m.a.
    Ég ætla ekki að eyða mínum í að fjalla ítarlega um stefnu annarra flokka en ég vil bara benda á það að ég átti aðild að nál. þar sem bent var á að hér væri verið að leggja út á þá braut að taka upp auðlindaskatt. Það var ekki að ástæðulausu að við í minni hlutanum höfðum miklar áhyggjur af því að hér væri verið að taka upp auðlindaskatt. Að marggefnu tilefni, vegna yfirlýsinga hv. alþýðuflokksmanna ekki síður en vegna þess sem var í frv. sjálfu, töldum við fulla ástæðu til að vara við þessari stefnu. Það er reginmunur á því að stefna grímulaust beint eða undir einhverju yfirskini að auðlindaskatti og þess að móta sjávarútvegsstefnu sem byggist á byggðakvóta. Ég treysti því að allir hv. þm. hafi það mjög skýrt í huga. Við sem vöruðum við þessari þróun mála í nál. settum fram mjög ákveðna aðvörun og bentum á að hér væri verið að fara út á stefnumótandi braut. Það er nefnilega til sjávarútvegsstefna af fleiri en einu tagi. ( ÖS: Stefna Kvennalistans.) Stefna Kvennalistans er byggðakvóti. (Gripið fram í.) Ég á eftir að koma að þessu með veiðileyfin en vill hv. þm. gera svo vel og hætta að reyna að skipuleggja ræðu mína. Ég er fullfær um það sjálf.
    Við stöndum frammi fyrir því núna sem við hefðum átt að vera að gera allan tímann, þ.e. að takast á um meginstefnur. Meginstefna Kvennalistans mjög ákveðið er byggðakvóti og ég þarf ekki að eyða fleiri orðum að því. Hann er vel útfærður, 80% af kvóta á að ráðstafa til byggðarlaga. 20% í viðbót má mjög gjarnan ráðstafa til byggðarlaga samkvæmt stefnu Kvennalistans þar sem það stendur skýrum stöfum. (Gripið fram í.) Ég verð að ítreka það og biðja hv. þm. sem les orð en ekki merkingu að hætta að grípa fram í. Ég ætla að lesa sjálf og bið hv. þm. að vera þá ekki eins og páfagaukur að endurtaka frammíköll úti í sal sem er mjög hvimleitt. ,,Kvennalistinn telur affærasælast að 80% heildarafla verði úthlutað til byggðarlaga með hliðsjón af lönduðum afla næstliðinna ára.`` Þetta er skýrt. ,,20% aflans renni hins vegar í sameiginlegan veiðileyfasjóð og verði til leigu, sölu eða til ráðstöfunar vegna sérstakra aðstæðna.`` Þessi ráðstöfun vegna sérstakra aðstæðna er eitt af því sem var okkur ofarlega í huga og efst í huga þegar við vorum að ræða þessi mál þar sem við vissum að eitthvert svigrúm yrði að vera innan kerfis í sjávarútvegi á Íslandi til þess að flytja einhvern hluta veiðiheimilda á milli, jafnvel á því tímabili sem liggur á milli endurskoðunar fiskveiðistefnu. ( ÖS: Lestu lengra.) Ég skal lesa áfram. Að beiðni hv. 17. þm. Reykv. les ég hér áfram:
    ,,Markmiðið er að rjúfa það óeðlilega samband . . . `` ( ÖS: Það vantar eina setningu.) Já, fyrirgefðu, það er ekki viljandi. Ég var búin að strika sérstaklega undir þessa setningu og taldi mig vera búin að rekja hana:
    ,,Tekjum sjóðsins verði varið í þágu sjávarútvegs. Markmiðið er að rjúfa það óeðlilega samband sem nú er milli skips og veiðiheimilda, taka tillit til byggðasjónarmiða, draga

úr ofstjórn og miðstýringu, efla rannsóknir, hvetja til betri nýtingar og bættrar meðferðar sjávaraflans, treysta innlenda fiskvinnslu og búa betur að fólki í sjávarútvegi.
    ``Þetta eru margvísleg markmið og þarna eru margvísleg sjónarmið en hv. þm. kýs að taka aðeins eitt og eitt orð út. Þetta kalla ég rangfærslur af versta tagi. Ég er að gera honum grein fyrir því að fyrir utan það að vilja taka 80% af veiðileyfum til ráðstöfunar byggðarlaga viljum við kvennalistakonur hafa möguleika á því að taka 20% til viðbótar og ráðstafa til byggðarlaga sem þurfa á honum að halda. Ekki er endilega víst að alltaf þurfi á því að halda. Það getur komið upp sú staða að einhver vilji kaupa. Það getur komið upp sú staða að einhver vilji leigja. ( ÖS: Á nú að leigja og selja samkvæmt henni?) Ég ætla sjálf að stýra þessari ræðu, hv. þm., og reyna nú að hætta að gera þetta að samtali vegna þess að ég geri ráð fyrir því að hv. þm. geri sér grein fyrir því að hans tal og hans ræður hafa ekki verið til góðs. Ég bið hér um að fá að tala án þess að þurfa að standa hér í hrókasamræðum við mann úti í sal. Ég held að það sé sanngjarnt. Hafi hv. þm. eitthvað meira að segja, þá ætla ég að biðja hann vinsamlegast að hafa það í ræðu hér á eftir en ekki í samtölum. Það er mér ekki að skapi að þurfa hér að standa í hrókasamræðum.
    Ég held þá áfram að útskýra þetta og bið hæstv. forseta, ef meiri brögð verða að þessu, að átelja hv. þm. Ég geri ekki ráð fyrir því að þetta sé sá stíll sem er til fyrirmyndar hér í Alþingi, að menn úti í sal reyni að stýra ræðum þess ræðumanns sem hefur orðið. Það er alla vega ekki til fyrirmyndar og ekki mér að skapi.
    Ég hef hér reynt að útskýra það og hygg ég að flestum skiljist það mjög vel að við kvennalistakonur vildum hafa ákveðið svigrúm innan okkar kerfis. Við vildum hafa svigrúm til þess að geta ráðstafað veiðiheimildum til byggðarlaga sem ættu erfitt uppdráttar vegna breytinga. Við vildum hafa sveigjanleika til þess að geta selt eða leigt veiðiheimildir, 20% en ekki þau 100% sem eru núna á leigu- og kaupmarkaði af ýmsu tagi. Nú ganga veiðileyfi kaupum og sölum og það gagnrýnum við harðlega. Við erum mjög á móti því að kvóti sé hér verslunarvara en við teljum eðlilegt að hér sé eitthvað sem hægt er að ráðstafa án endurgjalds eða leigja eða selja vegna þess að breytingar verða ávallt á því tímabili sem fiskveiðistefna er sett. Við höfum gert okkur grein fyrir því að það þarf að koma til móts við það. Við tökum ekki 80% í hrossakaupasjóð heldur 20%. Við erum ekki að fénýta veiðiheimildir, ef okkar stefna væri hér í praxís, heldur erum við að gefa svigrúm og sveigjanleika.
    Ég vildi ekki sjá Hafrannsóknastofnun þurfa að treysta á tekjustofn sem byggðist á því að e.t.v. væri öllu því sem ætlað væri til þess að standa straum af kostnaði við hafrannsóknir ráðstafað án endurgjalds og hafrannsóknir bara því miður lagðar niður það árið. Þetta er sú fráleitasta stefna sem ég get ímyndað mér. En ég held að þetta sé bara hreinlega öfund í hv. þm., hann geti ekki unnt okkur þess að hafa dottið niður á svona skynsamlega leið að takmarka þann hluta veiðiheimilda sem hægt væri að leigja eða selja eða ráðstafa skynsamlega, allt eftir því hvaða aðstæður eru í landinu hverju sinni. Við vitum öll að þær eru margbreytilegar. Ég ítreka að hér er ekki um hliðstæðu að ræða við það frv. sem við erum að ræða um einfaldlega vegna þess að Hafrannsóknastofnun hefur ekkert við svona stopula tekjulind að gera. Hafrannsóknastofnun þarf trausta tekjustofna og ég hef lýst því hér áður að mér finnst að það sé hlutverk okkar allra að sjá til þess að Hafrannsóknastofnun hafi það. Hún eigi ekki að þurfa að vera undir það komin að verið sé að fénýta hluta veiðiheimilda og ég hef gert grein fyrir því hvers vegna. Ég er ekki þar með að segja að það sé ekki undir nokkrum kringumstæðum skynsamlegt að veiðiheimildir eða kvóti sé seldur eða leigður. En það sem hefur verið að gerast í sjávarútvegsstefnu og við kvennalistakonur höfum gagnrýnt mjög er að þetta hefur verið feikilega mikið magn af kvóta sem hefur gengið kaupum og sölum. Þetta hefur þýtt að skipulagið hefur verið lélegt, tillit til byggðarlaga lélegt og ekkert svigrúm til að ráðstafa kvóta til byggðarlaga sem virkilega þurfa á kvóta að halda m.a. vegna atvinnuástands. Mér er þetta mikið mál og það brennur á mér.
    Ég veit að þessi ræða mín er varla þeim að skapi sem hefur knúið mig til þess að fara í stólinn og gera grein í tiltölulega fáum orðum fyrir stefnu Kvennalistans að þessu

leyti. Ef ég hef ekki gert það á fullnægjandi hátt er ég reiðubúin til þess að fara aftur í stólinn seinna. Ég hef ekki lokið ræðu minni en ég er að reyna að hafa mál mitt það stutt að hér dragist ekki umræður úr hófi á langinn. En það virðist vera sama hvað ég útskýri málin vel, ég er eilíflega krafin frekari skýringa. Endalaust er ekki hægt að glíma við að útskýra fyrir þeim sem ekki vill skilja. Ég mun ekki halda áfram endalaust en ég mun örugglega halda áfram lengi og vonandi vel, sé þess þörf. Þrátt fyrir allar þessar útskýringar --- útskýringar sem ég hef m.a. margoft ítrekað á fundum Kvennalistans, því við erum svo sannarlega krafðar skýringa á stefnu Kvennalistans og þar er ekki tekið á okkur með neinum silkihönskum. Menn geta verið sáttir eða ósáttir við stefnu Kvennalistans en þeir skilja hann. Og þeir skilja hann þegar ég útskýri hvernig stefna Kvennalistans er og ég get ekki að því gert þó að ég hitti hér mann, því miður í þingsölum, sem er ekki þessum gáfum gæddur. Nógu marga hef ég hitt sem eru það. --- Og þrátt fyrir afskaplega mikinn vilja minn til að skýra þetta nógu vel, nógu ítarlega, nógu fyllilega þá er ekki endalaust hægt að hlaupa eftir því þótt einum og einum verði það á að skilja ekki sem skyldi.
    Mér þykir það hálfpartinn miður ef ég er að spilla einlægri og fölskvalausri gleði hv. 17. þm. Reykv. með því að sýna hér fram á að ég hef ekki breytt um skoðun á sjávarútvegsstefnu Kvennalistans. Ég er stolt af henni. Ég stend jafnframt við stuðning minn á áliti minni hluta sjútvn. Ég hef jafnframt útskýrt það og ég er stolt af því að vera ein af þeim sem varar við því að e.t.v. sé Alþfl., eða sá hluti Alþfl. sem trúir á auðlindaskatt í staðinn fyrir byggðakvóta, að stíga sitt fyrsta skref og e.t.v. það fyrsta af mörgum í áttina að auðlindaskatti. Þetta er í rauninni kjarni málsins. Ég er ekki þar með að fordæma þá sem skipta um skoðun, síður en svo. Ég hef enga sérstaka fordóma gagnvart þeim þó að ég sé ekki í þessu tilviki í þeirra hópi og ég verð að viðurkenna það að ég fordæmi t.d. ekki þá hv. þm. sem hér hafa verið sakaðir um að skipta um skoðun. Ég ætla ekki að leggja dóm á slíkt. Mér finnst það bara ekki sæmandi og ég get væntanlega vísað í fyrri ræður hér því til stuðnings. Ég verð að viðurkenna það að í ýmsum málum hefur verið gefið í skyn að þeir sem eru með háværastar ásakanir á aðra ættu kannski að skríða inn í glerhúsið sitt og hætta að kasta grjóti en það verður hver að hafa stíl? ( GunnS: Hverjir eru það?) Vegna þess sem hv. 5. þm. Austurl. kallar hér fram í, þrátt fyrir að ég hafi gert athugasemdir við það að mér þættu frammíköll ekki til fyrirmyndar hér og hafi reyndar beint orðum mínum til forseta, sem þá sat í stólnum, mun ég nú svara þessu. Ég á hér við a.m.k. hv. 17. þm. Reykv., ég á hér raunar einnig við fleiri alþýðuflokksmenn og jafnvel þann hv. frammíkallanda sem rauf nú ræðu mína. Ég ætla hins vegar ekki að fara að tíunda hér dæmi. Það hafa aðrir gert með bara nokkuð skemmtilegum stíl á köflum. En ef ég neyðist til mun ég gera það síðar. (Gripið fram í.) Þetta er loforð hv. frammíkallandi.
    Ég skil það mjög vel að sumir hv. þm. hafi kosið að fjalla frekar um stefnu annarra en sína eigin stefnu, einkum ef þeir telja að þeirra stefna njóti ekki mikils fylgis hversu trúir sem þeir eru henni. Hins vegar skil ég ekki hvernig það getur gerst aftur og aftur að menn kjósi að hreyta ónotum og ásökunum í aðra og beri það varla við að fjalla um sjálfa sig. Ég er bara að undrast á þessu. Ég get hneykslast seinna. ( Gripið fram í: Þú hneykslast líka.) Hv. frammíkallendur hafa sínar skoðanir á málinu, ég hef mína skoðun á málinu. ( ÖS: Kvennalistinn hefur enn aðra skoðun.) Hv. frammíkallandi sagði: ,,Kvennalistinn hefur enn aðra skoðun.`` Það er rangt. Ég hef sömu skoðun og aðrar kvennalistakonur í sjávarútvegsmálum a.m.k. Ég held líka að ég hafi sömu skoðun og aðrar kvennalistakonur á því hvað sé velsæmi í sambandi við þingsköp. Ég held líka að við deilum skoðunum og höfum raunar þótt óþarflega siðavandar því að við viljum að menn fjalli málefnalega um það sem þeir eru að fjalla um. Og það er ég að gagnrýna. Ég er að gagnrýna það að hér hefur nokkuð skort þar á. Mér þykir leitt að hafa orðið að eyða hluta af ræðu minni í að setja ofan í við menn eftir árásir, en ég ætla hvorki að sitja undir því né standa að verið sé að ráðast á mig eða stefnu Kvennalistans. Engin ástæða er til þess.
    Ég held að ég hafi tíundað nógu nákvæmlega nú þegar að ég skil nákvæmlega hvernig eigi að fjármagna Hafrannsóknastofnun. Ég held að það fari ekkert á milli mála. Peningar eiga að koma fyrir veiðileyfi samkvæmt þessu frv. og það er öfugt við stefnu

Kvennalistans. Að því leyti til er hér ekki um hliðstæður að ræða heldur andstæður. Samkvæmt fiskveiðistefnu Kvennalistans er í fyrsta lagi verið að ráðstafa 80% af kvóta til byggðarlaga. Í öðru lagi er verið að taka 20% frá vegna ýmissa aðstæðna og þar er ekki verið að tryggja einum eða neinum tekjustofn. Hins vegar er, eins og réttilega hefur verið bent á, sérstaklega tekið fram að tekjur og þá er ekki verið að segja árvissar tekjur, fastar tekjur, öruggar tekjur, heldur eingöngu tekjur sem gætu orðið af þessari ráðstöfun muni renna til sjávarútvegs.
    Það er jafnframt ekkert leyndarmál að við kvennalistakonur höfum átt miklar viðræður okkar á milli og við fólk víðs vegar um landið um það hvernig eigi að bregðast við því ef færa þarf kvóta á milli byggðarlaga. Það er ein helsta gagnrýni sem við fáum á okkar byggðakvótastefnu, að hún sé of stefnuföst og hún sé of ósveigjanleg. Þessi 20%, sem við höfum í handraðanum samkvæmt okkar stefnu, eru nákvæmlega það sem við höfum bent á og þetta skilur fólk mjög vel. Það vill þannig til og þess vegna er ég hér í þessari umræðu um Hagræðingarsjóð að mjög oft er nauðsynlegt að geta fært til kvóta vegna sérstakra aðstæðna. Þetta hefur gerst meira og minna tilviljunarkennt vegna þeirra markaðslögmála sem hafa ráðið á kvótamarkaði og eru okkur andstæð. Við viljum frekar að búið sé að festa kvóta við byggðarlög og síðan sé þar að auki hægt að koma til móts við byggðarlög sem vegna sérstakra aðstæðna þurfa á meiru að halda. Þetta er svo sáraeinfalt.
    Ég minnist þess ekki að við höfum þurft að gera grein fyrir því hvað við mundum gera ef við þyrftum að selja eða leigja kvóta. Við höfum þurft að gera grein fyrir því hvað hægt sé að gera ef færa þarf kvóta á milli og þá bendum við á þessi 20% og þar er inni möguleiki á sveigjanleika. Við höfum jafnframt haft miklar áhyggjur af því hvernig kvóti hefur þeyst um markaðinn og aðallega, eins og ég sagði hér einhvern tíma í umræðu, með rútunni norður. Nú er ég ekki að hafa á móti því að kvóti færist að einhverju leyti til á milli byggðarlaga en það er staðreynd að kvóti hefur safnast á fárra hendur. Ég veit að oft er farið ljómandi vel með þennan kvóta en eftir sitja byggðarlög meira og minna í sárum. Ef nóg væri af fiski í sjónum væri svo sannarlega ástæða til þess að allur kvóti, sem þeir geta tekið við sem eru að stækka við sig, færi þangað. Svo er ekki. Þess vegna er byggðatengingin svo mikilvæg. Það er ekkert grín að skilja byggðarlög eftir í sárum. Það er dýrt að slá þessi byggðarlög af, eins og mér heyrist einstaka stjórnmálamenn og menn úti í samfélaginu vilja, ég ætla ekki að væna neina þingmenn um það. Það er dýr lausn, það er vond lausn, það er heimskuleg lausn og ekki í anda lýðræðis. Fólk á að geta ráðið því hvort það vill búa á ákveðnum stað eða ekki. Til þess þarf það atvinnumöguleika og við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að við byggjum okkar afkomu, ekki síst á landsbyggðinni, á því að hafa ráðstöfunarrétt yfir kvóta. Þetta er feikilega mikilvægt í mínum huga.
    Mér er sjávarútvegsstefna Kvennalistans e.t.v. svo mikið mál vegna þess að hún er líklega sá hluti af stefnuskrá Kvennalistans sem ég hef hvað oftast og hvað mest lent í umræðum út af. Það eru ekki dagheimilin, ekki merkileg skólamál heldur sjávarútvegsmálin. Það helgast væntanlega af því að einu sinni til tvisvar á ári förum við kvennalistakonur eins víða um land og við komumst í eina aða tvær vikur. Við reynum að fara í öll þau fiskvinnsluhús, hitta fólk í sjávarútvegi og öðrum atvinnuvegum eins og við mögulega getum og þetta er alltaf það sem spurt er um, þetta er alltaf það sem við ræðum. Þetta er alltaf það sem fólk þekkir okkur á. Það hefur ekki gengið illa að útskýra þetta og, eins og ég sagði áður, þar með er ekki sagt að allir séu sammála. En þeir eru býsna margir og ég held að hlusta ætti á það hér.
    Ég var að tala hér um byggðarlög í sárum. Ég ætla ekki að fara út fyrir efnið nema núna til þess að gera ykkur grein fyrir því, af því að ég er sagnfræðimenntuð eins og fleiri kvennalistakonur, hvað gerðist hér við Faxaflóa rétt fyrir aldamótin þar sem byggðarlög voru skilin eftir í sárum vegna þess að þau misstu fisk. Í því tilviki var það vegna ofveiði breskra togara upp við landsteinana á síðasta áratug síðustu aldar og þá gerðist það sem aldrei ætti að gerast aftur. Við ættum að geta lært af sögunni. Heilu byggðarlögin voru

lögð í rúst vegna þess að þau voru svipt fiski. Nú höfum við kvóta til þess að reyna að koma í veg fyrir að fiskurinn verði tekinn af byggðarlögum með þeim hætti. Í staðinn höfum við kvótastefnu sem því miður útilokar það ekki. Og við erum að taka út þau ákvæði sem áttu þó að vera örlítið mildandi, allsendis ófullnægjandi, en þó örlítið mildandi. Við erum að taka þau út úr lögum um Hagræðingarsjóð.
    Ég hlýt að óska eftir því með einum eða öðrum hætti og m.a. hér formlega í umræðunni að ekki verði beði lengi með að fjalla um heildarendurskoðun sjávarútvegsstefnunnar hér á Alþingi, hvort sem er innan sjútvn. sem hefur unnið gífurlega gott starf. Ég er mjög ánægð með það starf sem þar hefur verið í nefndum þótt einstaka slys hafi þar átt sér stað sennilega vegna pólitísks þrýstings. Ég tel mjög mikilvægt að við setjumst fordómalaust niður og ræðum framtíðarsjávarútvegsstefnuna. Ég kem ekki tómhent í þá umræðu. Ég kem með stefnu Kvennalistans með öllum þeim útfærslum, blæbrigðum, umræðum, ræðum, greinum sem skrifaðar hafa verið, auk þess með opnum huga og vonandi fordómalaus þrátt fyrir að í hita umræðunnar fyllist ég ákveðnum fordómum gagnvart þeim sem mér þykja hvað einsýnastir og ósveigjanlegastir. Ég tel að slíkt fólk sé ekki mjög gott í samstarfi og eigi illa heima í samstarfi og umræðum. Ég treysti því að þegar menn fara t.d. að lesa þær málefnalegu umræður sem hér hafa átt sér stað um Hagræðingarsjóð muni menn verða reiðubúnir að setjast niður og endurskoða sjávarútvegsstefnuna með skynsemi og hagsmuni byggðanna að leiðarljósi. Ég ætla ekki að binda það á hvern hátt það verður best gert. Ég veit að því miður verður stefna Kvennalistans ekki tekin upp óbreytt. Ég vildi þó óska þess að svo yrði en á meðan við kvennalistakonur höfum ekki meiri hluta hér á Alþingi ætla ég ekki að svo verði.