Ummæli forsætisráðherra í fjölmiðlum um stöðu EES-samninganna

72. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 13:38:00 (3082)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Ég fagna því að unnt er að hreyfa þessu máli hér þó að í knöppu formi sé. Það sem fyrst vekur auðvitað athygli og er endurtekið er hið kolranga stöðumat hæstv. utanrrh. sem virðist endurtekið hafa leitt menn í ógöngur í þessum efnum og endurtekið hefur sigurvissa og sigurvíma hæstv. utanrrh. reynst tilefnislaus.
    Það sem hæstv. forsrh. ræðir nú um eru engar nýjar fréttir, að EFTA-ríkin séu hvert á fætur öðru á hlaupum inn í Evrópubandalagið. Það hefur lengi legið fyrir og þeim mun minna hefur traust manna á hugmyndum hæstv. utanrrh. um þetta svæði verið. Í því sambandi er óhjákvæmilegt að spyrja: Hvaða ráðstafanir hyggst hæstv. ríkisstjórn gera, ekki bara einhvern tíma í framtíðinni heldur þegar í stað, til að marka Íslendingum aðra möguleika, aðra valkosti í þessum efnum?
    Í öðru lagi er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. utanrrh.: Telur hann ekki að stefna hans hafi beðið skipbrot og er það ekki slíkt alvörumál að óhjákvæmilegt sé fyrir hæstv. utanrrh. að hugleiða hvort honum beri ekki að segja af sér embætti?
    Að lokum vil ég ítreka spurningar hv. 4. þm. Austurl. til hæstv utanrrh. Það er óhjákvæmilegt að hæstv. utanrrh. skýri afstöðu sína til þeirra frétta úr norrænum blöðum sem hér var vitnað til en í lauslegri þýðingu stendur þar að þátttakendur á þessum fundi, þar með talinn hæstv. utanrrh., séu alveg sammála um þýðingu Evrópubandalagsins og gildi þess að lönd þeirra taki stefnu á aðild að Evrópubandalaginu. Stendur hæstv. utanrrh. að þessari yfirlýsingu eins og þarna er frá henni skýrt? Ef svo er, þá eru það stór tíðindi í íslenskum stjórnmálum að formaður Alþfl. hafi tekið upp í stefnu sína aðild að Evrópubandalaginu.