Framkvæmdasjóður Íslands

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 15:11:00 (3117)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Vegna orða hv. 8. þm. Reykn. um Ríkisendurskoðun, sem hann mælti í þessari ræðu sinni og það sem áður hefur komið fram í ræðu hans á hv. Alþingi, finnst forseta nauðsynlegt að taka fram að hann telur sér með öllu óheimilt að taka til sérstakrar rannsóknar niðurstöðu Ríkisendurskoðunar um tiltekin mál eða mat hennar á einstökum málum sem hún fæst við eða gerir skýrslur um. Sömuleiðis telur forseti sér óheimilt að gera nokkrar athugasemdir við störf ríkisendurskoðanda, t.d. áritanir hans á ársreikninga sjóða og annarra stofnana. Um stöðu Ríkisendurskoðunar og ríkisendurskoðanda eru mjög skýr fyrirmæli í lögum nr. 12/1986. Í 3. gr. þeirra segir:
    ,,Ríkisendurskoðandi nýtur sjálfstæðis í starfi sínu og er ekki bundinn af fyrirmælum um einstaka þætti þess.``

    Í athugasemdum við frv. til laga um Ríkisendurskoðun segir svo um þetta tilvitnaða ákvæði:
    ,,Miklu skiptir að sjálfstæði ríkisendurskoðanda í starfi sé sem best tryggt. Er hér á því byggt að hann njóti svipaðrar réttarstöðu gagnvart forsetum Alþingis og ríkissaksóknari gagnvart dómsmálaráðherra.``
    Það er því á misskilningi byggt sem hv. 8. þm. Reykn. hefur haldið hér fram við umræðu um þetta mál að forseti, eða forsætisnefnd, bæri ,,ráðherraábyrgð`` á ríkisendurskoðanda, hvað svo sem hann á við með því orði í þessu samhengi.
    Ríkisendurskoðandi er ráðinn af forsetum Alþingis og nú forsætisnefnd til sex ára í senn og í 4. málsl. 2. gr. laganna segir að ríkisendurskoðandi sé starfsmaður Alþingis og beri ábyrgð gagnvart því, þ.e. Alþingi. En jafnframt segir í greininni að til að koma fram ábyrgð á ríkisendurskoðanda, t.d. með frávikningu, þurfi atbeina meiri hluta Alþingis.
    Forseti, eða forsætisnefnd, getur því ekki tekið á sig ábyrgð á faglegum störfum ríkisendurskoðanda og starfsliði hans. Hins vegar segir í lögunum að forsetar sjálfir eða þingmenn geti krafið ríkisendurskoðanda skýrslna um einstök mál og skýrslur Ríkisendurskoðunar hafa oft verið til umræðu hér á Alþingi, ýmist skýrslur sem stofnunin hefur unnið að eigin frumkvæði eða eftir óskum þingmanna.
    Forseti vill loks benda á að árs- eða starfsskýrslur Ríkisendurskoðunar hafa verið til umfjöllunar á Alþingi árlega hin síðari ár og slík skýrsla er á starfsáætlun þingsins síðar í vetur. Þá geta þingmenn sem þess óska gert athugasemdir við störf stofnunarinnar.
    Forseti og forsætisnefnd hafa átt ágætt samstarf við núverandi ríkisendurskoðanda. Vitaskuld ber starf og verkefni stofnunarinnar á góma í samtölum ríkisendurskoðanda og forseta en því fer fjarri að forseti vilji setja rannsóknarnefnd yfir Ríkisendurskoðun eða telji sig hafa nokkra heimild til þess.
    Nú hefur hv. 8. þm. Reykn. upplýst að það sé væntanlegt bréf til forseta Alþingis og mun þá að sjálfsögðu verða fjallað um það bréf þegar það berst.
    Þetta taldi forseti nauðsynlegt að láta koma fram vegna þess að hv. 8. þm. Reykn. hefur oftar en einu sinni rætt þessi mál hér og þá hefur hist svo illa á að sá forseti sem hér talar hefur ekki setið í forsetastóli og hefur því ekki getað svarað sem slíkur hvernig þessum málum er háttað frá sjónarhóli forseta.