Framkvæmdasjóður Íslands

73. fundur
Miðvikudaginn 22. janúar 1992, kl. 16:42:00 (3127)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég þakka starfandi formanni nefndarinnar, hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, fyrir þessar upplýsingar. Ég hefði að vísu talið eðlilegra að þær kæmu fram í ræðu vegna þess að þær voru þess eðlis að eðlilegra væri að þinmaðurinn hefði meira en tvær mínútur til þess að flytja það. En margt athyglisvert kom fram í þeirri upptalningu sem þinmaðurinn flutti hér, m.a. þau lokaorð að það hefði komið fram hjá stjórnendum Framkvæmdasjóðs að matið á stöðu sjóðsins færi algjörlega eftir því hvers virði eignir fiskeldisfyrirtækjanna væru. Ekkert hefur sveiflast eins mikið í virði á Íslandi á síðustu 2--3 árum og eignir fiskeldisfyrirtækja. Ef málið liggur virkilega þannig, hæstv. forsrh., að meginrökin fyrir því að koma inn á Alþingi með þetta frv. og leggja sjóðinn niður sé sveifluvirði fasteigna fiskeldisfyrirtækja er málið allt öðruvísi vaxið en hæstv. forsrh. hefur gefið til kynna, bæði í stefnuræðu sinni og fyrr í umræðum um þetta frv. Þarna er kannski kominn fram ágreiningur stjórnenda sjóðsins, Framkvæmdasjóðs, við Ríkisendurskoðun. Nema kannski Ríkisendurskoðun sé á þessu sama máli að sveifluvirði fasteigna fiskeldisfyrirtækja ráði öllu. Þá er líka alveg ljóst, sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson var að segja áðan, að með því að ganga svona frá málunum eins og ríkisstjórnin er að leggja til, geti fjmrh. selt þessar eignir fiskeldisfyrirtækjanna á næstu mánuðum þegar þær eru í lágmarki og nánast gefið þær á grundvelli umsagna Ríkisendurskoðunar, en kaupendurnir fái síðan upp í hendurnar eftir fáein ár gífurlegt raunvirði vegna breytinga í sveiflum á verðgildi þessara eigna. Þetta er auðvitað þannig, virðulegi forseti, að alveg óhjákvæmilegt er að fara skýrar ofan í þennan þátt málsins í umræðunum.